Aston Villa og Man Utd gætu skipst á leikmönnum - Onana falur fyrir 20 milljónir punda - Isak fer ekki frá Newcastle
   sun 20. apríl 2025 16:00
Brynjar Ingi Erluson
Amorim: Þurfum að skoða hópinn og sjá hvað við þurfum að gera á markaðnum
Ruben Amorim
Ruben Amorim
Mynd: EPA
Rasmus Höjlund átti slakan leik
Rasmus Höjlund átti slakan leik
Mynd: EPA
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, var vonsvikinn með frammistöðuna í 1-0 tapinu gegn Wolves á Old Trafford í dag, en hann talaði einnig um að það þurfi að skoða hópinn vel og vandlega í sumar.

United fékk nokkur færi til þess að skora gegn Úlfunum en nýtti ekki. Gestirnir refsuðu fyrir það með frábæru aukaspyrnumarki Pablo Sarabia undir lokin.

Á dögunum vann United frækinn endurkomusigur á Lyon í framlengingu í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar, en það var ekki alveg sami bragur á liðinu í dag og i þeim leik.

„Við skoruðum ekki úr færunum okkar. Það er ekkert öðruvísi en það. Við þurfum að skora mörk.“

„Við fengum á okkur mark með eina skoti Wolves á markið. Þeir skoruðu og við töpuðum. Svona verður þetta, hæðir og lægðir, en við þurfum bara að klára tímabilið.“

„Svona dagar eru ótrúlega mikil vonbrigði. Við vorum betri en andstæðingurinn, en þú vinnur ekki leiki ef þú skorar ekki mörk,“
sagði Amorim.

Portúgalinn var spurður út í frammistöðu Rasmus Höjlund og hvort hann þurfi meiri stuðning fram á við. Frammistaða hans var slæm, eins og svo oft áður á tímabilinu, en Amorim vildi gagnrýna hann sérstaklega.

„Við þurfum að halda áfram að leggja hart að okkur, en þetta var ekki bara Rasmus. Allt liðið klikkaði á fullt af færum.“

Hann var hins vegar mjög ánægður með ungu strákana þá Harry Amass og Tyler Fredericson. Sá síðarnefndi var að spila sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið.

„Mér fannst þeir spila mjög góðan leik. Við þurfum að skora mörk svo að krakkarnir geti búið til betri minningar.“

Er þetta eitt skref fram á við og tvö afturábak hjá United?

„Tímabilið mun ljúka með þessum hætti þannig við þurfum að taka það jákvæða og vinna í því sem við þurfum að bæta. Þeir munu fá eitt færi og við verðum að horfa í allt. Við þurfum að skoða hópinn og hvað við þurfum að gera á markaðnum. Sjáum hvað verður. Við tölum á hverjum einasta degi um næsta tímabil og með tímanum fáum við það sem við þurfum til að bæta liðið,“ sagði Amorim.
Athugasemdir
banner