
„Tilfinningin er mjög góð," sagði Glódís Perla Viggósdóttir varnarmaður Bayern Munchen eftir magnaðan sigur á Arsenal á heimavelli í kvöld.
„Þetta var aðeins öðruvísi en við lögðum upp með, sérstaklega seinni hálfleikurinn. Það er hálfleikur, það er 1-0 fyrir okkur en við eigum erfiðan útileik eftir. Ég er gríðarlega ánægð með liðið í dag, vorum að verjast vel, hentum okkur fyrir alla bolta," sagði Glódís.
Arsenal sótti stíft í seinni hálfleik en Glódís átti frábæran leik í vörninni.
„Mér fannst allir vera skila sínu 120%. Þær voru mikið meira með boltann og í teignum okkar en við fáum líka dauðafæri í seinni og fyrri hálfleik þannig þetta var jafn leikur að mörgu leiti," sagði Glódís.
„Við töluðum um það í hálfleik að við gætum þurft að kyngja stoltinu og verjast og allur síðari hálfleikur var eiginlega þannig, þá bara tökum við því verkefni og klárum það."
Liðið lék á Allianz Arena heimavelli karlaliðs Bayern Munchen en Glódís vonast til að liðið fái að spila fleiri leiki á vellinum.
„Það er gaman að svona margir mæta og mynda svona góða stemningu. Þetta er geggjaður völlur og það er auðvelt að mynda góða stemningu. Hingað til hefur gengið vel hjá okkur hérna, vonandi höldum við í okkar heimavöll hér," sagði Glódís.