
„Ég er mjög sáttur með frammistöðuna. Við byrjuðum leikinn betur og fengum góð færi. Síðan fá þeir víti og við fáum rautt spjald á okkur. Ég er ánægður með svarið hjá mínum mönnum í seinni háflleik. Við þurftum að verjast en ég er ánægður með það að við vorum að pressa þá og reyndum að vinna leikinn. Þeir fengu engin dauðafæri, nokkur hálffæri en engin dauðafæri. Mér fannst við líka fá betri færi í seinni hálfleik en Grótta. Ég er stoltur af mínum mönnum í dag.“ sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis sem situr á botni deildarinnar. Ægismenn voru manni færri allan seinni hálfleikinn en náðu stigi í erfiðum leik. 2-2 lokatölur.
Lestu um leikinn: Ægir 2 - 2 Grótta
Ægir fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks áður en Grótta jöfnuðu leikinn. Margir eru á því máli að þetta hafi hreinlega ekki verið rautt spjald en Nenad tjáði sig um atvikið og dómgæsluna á Íslandi heilt yfir eftir leik.
„Ég ætla að halda mig við það prinsip að tjá mig ekki um frammistöðu dómarans. Mig langar samt að segja eitt um dómara yfirhöfuð. Það er mjög erfitt að vera dómari og oftast er enginn sáttur með dómarann eftir leiki. En heilt yfir í seinustu 17 leikjum í sumar hefur dómgæslan fallið gegn okkur. Í seinustu 17 leikjum hefur enginn af okkar andstæðingum getað kvartað yfir dómgæslunni í leikjum gegn okkur. En við getum alltaf kvartað en ekki andstæðingurinn. Það bara gengur ekki upp að allir dómar í 17 leikjum falli ekki með okkur heldur andstæðingunum. Auðvitað erum við nýliðar í þessari deild og lítill klúbbur en við erum með stórt hjarta. Ég vil ekki að dómarar hjálpi liðinu mínu. Ég er ekki sáttur þegar það gerist. En aðrir þjálfarar í fótbolta segja stundum að dómurinn hafi verið réttur bara því hann féll með þeim. Síðan fellur sami dómur ekki með þeim í næsta leik og þá fara þeir að ibba gogg.“
Nenad fór síðan einnig yfir dómgæsluna heilt yfir á Íslandi allt frá því hann kom fyrst til landsins.
„En dómgæslan hefur batnað mjög mikið frá því að ég kom fyrst til landsins. Á þeim tíma vorum við með Kidda Jak og í hvert skipti sem ég sá hann á vellinum vissi ég að leikurin myndi vera vel dæmdur. En seinna komu dómarar eins og Gunnar Jarl og annar dómari sem ég man ekki hvað heitir. Þetta var heil kynslóð dómara sem var góð. Núna eru nýjir dómarar að koma upp og auðvitað koma slæmir leikir hjá þeim inn á milli. En í grunninn er íslenskur fótbolti að verða betri og dómgæslan í íslensku deildunum líka.“
Ægismenn þurfa kraftaverk til þess að halda sér uppi en það eru fjórir leikir eftir og þeir eru 11 stigum frá öruggu sæti. Nenad er bjartsýnn maður en ekki alveg svona bjartsýnn.
„Ég er bjartsýnn maður en ekki alveg svona bjartsýnn. Við þurfum bara að taka þessu og halda áfram með þetta verkefni og byggja upp gott lið fyrri næsta sumar.“
Nenad var einnig spurður út í það hvort þetta hafi verið of mikið of snemma fyrir lið eins og Ægi sem fengu að vita með mjög litlum fyrirvara að þeir væru að fara að spila í Lengjudeildinni en ekki 2. deildinni.
„Já klárlega. Lang flestir leikmennirnir sem við fengum voru teknir inn til þess að spila í 2. deildinni. Síðan rétt fyrir mót tókum við nokkra aðra sem geta spilað í þessari deild. Ég undirbjó liðið ekki næginlega vel eins og ég er vanur að gera. En kannski er liðið betur undirbúið en ég held. Ég held samt að ef við hefðum fengið að vita það að við værum að fara að spila í Lengjudeildinni í september eða nóvember væri tímabilið að spilast allt öðruvísi.“ sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, eftir 2-2 jafntefli gegn Gróttu í kvöld.
Viðtalið er mun lengra en það má sjá í spilaranum hér að ofan.