Fyrsta liðið til að halda hreinu gegn KR - „Búinn að vera ánægður með varnarleikinn“
„Ég er mjög ánægður með það hvernig við spiluðum sérstaklega í seinni hálfleik, í fyrri hálfleik máttum við halda aðeins betur í boltann. Í seinni hálfleik vorum við mun hættulegri á breikinu. Einbeitingin og viljinn í liðinu í 90 mínútur var mjög góður. Ég er mjög ánægður með góðan sigur á erfiðu liði KR.“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, eftir 1-0 sigur á KR í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 0 KR
Lárus segir að varnarleikurinn hafi verið gífurlega góður og mikilvægur í dag.
„Ég er búinn að vera mjög ánægður með varnarleikinn síðan við komum. Strákarnir hafa verið mjög einbeittir í vörninni og það er það sem þú þarft í vörninni. Mikla einbeitingu og tala við meðspilarana þína og vita hvað er að gerast í kringum þig. Þeir voru allir þannig í dag. Liðið varðist vel frá fremsta manni.“
Árni Marínó var góður í dag en Lárus var ánægður með markmanninn sinn.
„Árni var mjög flottur og líka gegn Fram og fyrir vestan. Hann og fleiri í liðinu eiga hrós skilið. Þetta var liðssigur.“
Hvernig finnst Lárus umræðan vera um að völlurinn hafi ekki verið vökvaður neitt fyrir leik?
„Ég skil hana ekki alveg. Við hefðum getað verið með endalaust af vatni hérna fyrir leik en það hefði ekki dugað neitt. Þú hefðir getað vökvað völlinn eins og þú vilt í þessu veðri, þetta bara gufar upp einn tveir og tíu. Við tókum þá bara þessa ákvörðun. Það er ekkert vökvunarkerfi undir vellinum. Ég veit svosem ekkert hverjir eru að tala um þetta hvort sem það eru einhverjir sem eru að fjalla um leikinn eða einhverjir í hinu liðinu, mér er eiginlega alveg sama um það. Þetta er okkar heimavöllur, ef við teljum okkur ekki þurfa að vökva hann er það bara okkar mál. Við förum ekki á útivöll og óskum eftir því að fá svart gúmmí í gervigrasið.“
Næsti leikur er ekkert minni mikilvægari hjá Skaganum þegar þeir fara norður og mæta KA, hvernig leggst framhaldið í Lárus?
„Þetta eru allt erfiðir leikir, ég veit að þetta er klisja en þetta er rosalega skrítin deild núna. Það virðist vera eins og allir geta unnið alla. ÍBV var að vinna Stjörnuna í Eyjum núna svo þú sérð að þetta er allt mjög erfiðir leikir. Þessi leikur fyrir norðan verður erfiður. Þeir töpuðu illa í Reykjavík. Það verður þrælerfiður leikur að fara norður og takast á við þá á Greifavellinum.“
Viðtalið við Lárus Orra má finna í spilaranum í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir