Það var tilkynnt í gær að Kristófer Orri Pétursson og KR hefðu komist að samkomulagi um riftun á samningi leikmannsins. Kristófer er að glíma við meiðsli sem halda honum frá vellinum út tímabilið og mun hann ekkert koma meira við sögu í sumar.
Kristófer Orri, sem er fæddur 1998, gekk í raðir KR frá Gróttu fyrir yfirstandandi tímabil. Hann gerði bara samning við félagið sem gildir út þetta sumar.
Kristófer Orri, sem er fæddur 1998, gekk í raðir KR frá Gróttu fyrir yfirstandandi tímabil. Hann gerði bara samning við félagið sem gildir út þetta sumar.
„Ég meiðist snemma í maí þar sem ég festist frekar illa í gervigrasinu út í KR. Ég er í einhverjar tvær eða þrjár vikur að æfa með liðinu en var alltaf ógeðslega illt, var eiginlega bara að drepast," segir Kristófer í samtali við Fótbolta.net.
Hann kom við sögu í tveimur leikjum með KR í Bestu deildinni áður en hann meiddist.
„Ég fer í myndatöku og þar kemur í ljós að ég er með beinmar í þremur beinum í ökklanum og brjóskskemmdir," segir Kristófer en þá var það ljóst að hann myndi ekki spila meira í sumar. Það hentaði best að samningnum yrði rift.
„Vegna vinnu þá hentaði það mér bara ekki að vera mæta alltaf á æfingar í hádeginu og vera að hjóla. Ég hitti Óskar (Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR) og við setjumst niður og förum yfir þetta. Út frá mínum sjónarmiðum var þetta best. Ég gæti alveg mætt þarna og hjólað út tímabilið, en það var ekki að heilla mig upp á tíu. Mér fannst þetta besta lausnin fyrir mig; taka endurhæfinguna sjálfur og meta svo bara stöðuna í lok árs hvað ég geri fyrir næsta tímabil."
„Ég má ekki byrja að hlaupa fyrr en í október eða bara þegar ég treysti mér til þess. Ég ætla bara að taka stöðuna bara í september eða október hvað ég geri fyrir næsta ár. Á meðan maður hefur gaman að þessu þá hefur maður hug á því að spila áfram fótbolta - maður er ekki það gamall. En það þarf líka að henta með vinnu."
Kristófer starfar í markaðsviðskiptum Kviku banka og ekki sjálfgefið að hann fái að hoppa á æfingar í hádeginu eins og hann hefur verið að gera hjá KR. Þetta hefur verið ákveðið púsluspil.
Hefur fulla trú á verkefninu í Vesturbænum
Kristófer hafði spilað með Gróttu allan sinn feril áður en hann gekk í raðir KR síðastliðinn vetur. Hann lítur vel til baka á tímann í Vesturbænum og hefur fulla trú á verkefninu sem er þar í gangi.
„Já, þetta var skemmtilegur tími. Þetta er svipuð stemning og ég fann fyrstu tvö árin sem Óskar þjálfaði mig í Gróttu. Það eru allir að róa í sömu átt með eitt markmið," segir Kristófer.
Óskar Hrafn þjálfaði Kristófer í Gróttu fyrir nokkrum árum þegar liðið fór upp úr 2. deild og í þá Bestu.
„Frá því ég kynntist Óskari hef ég haft endalausa trú á honum. Þetta er mjög samheldinn hópur og það vantar svo lítið upp á að það fari að ganga betur," sagði Kristófer að lokum.
Athugasemdir