
'Stoltið sem maður fyllist þegar maður sér liðið sitt vinna 5-0 og sjá mark eftir mark eftir mark, þetta er rosalegt'

Sjö uppaldir í byrjunarliðinu í gær; Höskuldur, Viktor Örn, Anton Logi, Ásgeir Helgi, Viktor Karl, Ágúst Orri og Kristinn Jónsson.
„Menn kannski átta sig ekki á því hvað við vorum góðir af því þetta var risasigur og við létum þá líta illa út," segir laufléttur Hilmar Jökull, stuðningsmaður Breiðabliks, en hann fer fyrir stuðningsmannasveitinni Kópacabana.
Blikar pökkuðu albönsku meisturunum í Egnatia saman í gærkvöldi, 5-0 urðu lokatölur á Kópavogsvelli.
Blikar pökkuðu albönsku meisturunum í Egnatia saman í gærkvöldi, 5-0 urðu lokatölur á Kópavogsvelli.
Lestu um leikinn: Breiðablik 5 - 0 Egnatia
„Egnatia er gott lið, þeir eru með fullt af góðum leikmönnum og 'budget-ið' þeirra er miklu stærra en okkar nokkurn tímann. Að taka þá svona, 5-0, er bara sturlað."
Stefnt á leiguflug til Poznan á leikdegi
Næsta Evrópuverkefni verður í Poznan í Póllandi þar sem liðið mætir meisturunum í Lech Poznan í 2. umferð forkeppninnar i Meistaradeildinni. Planið er að stuðningsmenn fari saman í hópferð.
„Það kemur í ljós í dag hvort við náum leiguflugi, erum að skoða þetta með Lúlla hjá Verdi ferðum. Ef það næst ekki þá eru menn að fara lenda nálægt og koma sér til Poznan. Menn verða á vellinum í Poznan í næstu viku, það er 100%, það er það mikil stemning í kringum þetta."
„Loksins fáum við leik sem er nær okkur. 2023 fengum við heimalekinn fyrst gegn FCK og töpuðum honum, þá er erfiðara að ná stemningu, núna er staðan 0-0 í einvíginu og þá er gaman að fara í hópferð."
„Við fórum nokkrir, 10-15 strákar, á Arena eftir leik til að ná okkur. Menn ræddu málin og úr varð að ég hringdi í Lúlla, hann var úti í Svíþjóð og þegar byrjaður að finna leið fyrir liðið út, það er verið að skoða möguleikann á því að fylla eina flugvél af Blikum til Póllands."
„Liðið fer út á sunnudag, við erum að skoða þann möguleika að fara út á leikdegi, þriðjudag, og fljúga heim strax eftir leikinn, ef þannig flug næðist yrði það langbest."
Besti leikur sem hann hefur séð liðið spila
Hilmar Jökull var stoltur Bliki í gær.
„Ég segi að þetta sé besti leikur sem ég hef séð Breiðablik spila, þar með talinn er Víkingsleikurinn í fyrrahaust. Stoltið sem maður fyllist þegar maður sér liðið sitt vinna 5-0 og sjá mark eftir mark eftir mark, þetta er rosalegt. Strákarnir voru klínískir eins og þeir töluðu um eftir leikinn, gaman að sjá liðið komast í fullt af færum og skora úr þeim trekk í trekk."
Það sem öllum íslenskum félögum dreymir um
Það er oft talað um að stuðningsmenn vilji sjá uppalda leikmenn. Sjö slíkir byrjuðu í gær og þrír komu inn á.
„Þetta er bara frábært, ímyndaðu þér gleðina fyrir okkur að sjá 07-08 stráka koma inn á, uppaldir í Fífunni. Þetta sannar að Breiðablik er framar öðrum félögum á Íslandi þegar kemur að því að ala upp unga og efnilega leikmenn. Það er talað um þessa tölfræði að Breiðablik sé að selja 1-2 út á hverju ári, það kemur ekkert af sjálfu sér. Þetta er tuttugasta árið í röð sem við erum í efstu deild, verið mörg ár í röð í Evrópu, settum tóninn þegar við komumst í riðlakeppnina og Víkingur fylgdu vel á eftir með því að komast í deildarkeppnina í fyrra. Það eru mikil forréttindi að sjá félagið sitt ala upp leikmenn sem geta svo spilað á hæsta 'leveli' líka."
„Þetta er það sem öllum íslenskum félögum dreymir um að gera; ala upp leikmenn til að verða burðarstólpar í liðinu sínu og fylla svo upp í með öðrum mönnum."
Talandi um uppalda leikmenn, Gísli Gottskálk Þórðarson, leikmaður Lech Poznan er uppalinn hjá Breiðabliki.
Halda sér heitum gegn Vestra
En næsti leikur hjá Blikum er heimaleikur gegn Vestra á laugardag.
„Við erum búnir að mæta á alla leiki hjá liðinu frá Víkingsleiknum í byrjun júní, það verður engin undantekning á laugardag. Menn verða að halda sér heitum, það verður partí í stúkunni gegn Vestra og fókus á Meistaradeildina eftir það."
„Það verða einhver 'chönt' og mögulega einn stór fáni í stúkunni fyrir Damir sem verður mættur aftur," segir Hilmar Jökull.
Áhugasamir Blikar um ferð til Póllands eru hvattir til þess að fylgjast með samfélagsmiðlunum hjá blikar.is og Knattspyrnudeild Breiðabliks.
Athugasemdir