„Bjóst kannski ekki við 5-0 sigri," sagði Ágúst Orri Þorsteinsson leikmaður Breiðabliks eftir 5-0 sigur gegn Egnatia í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 5 - 0 Egnatia
„Við ætluðum að hlaupa yfir þá, og mér fannst við gera það ógeðslega vel frá fyrstu mínútu og við stoppuðum aldrei. Frá fyrstu til 90. mínútu, þannig mér leið alltaf ógeðslega vel inn á vellinum," sagði Ágúst.
Ágúst byrjaði á bekknum í síðasta leik en fékk að byrja núna. Hann borgaði heldur betur til baka með mörkum sínum í dag.
„Já já, maður er bara að reyna að gera sitt besta fyrir liðið. Dóri ræður hver byrjar að hverju sinni. Ég byrjaði í dag og skilaði mínu. Þannig ég er bara mjög sáttur með mína frammistöðu," sagði Ágúst.
Stuðningsmenn Breiðabliks voru háværir allan leikinn og gerðu vel í aðs styðja liðið áfram.
„Þetta eru bara sturlaðir stuðningsmenn, langbestu stuðningsmenn á Íslandi. Ógeðslega mikill kraftur í þeim, þeir vita ekki hvað þetta gefur okkur mikinn kraft inn á völlinn. Ég var hinumegin á vellinum á hægri kanti og heyrði í þeim eins og þeir voru þúsund manns að öskra á okkur. Þannig þetta er bara geggjað," sagði Ágúst.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.