„Þetta leggst mjög vel í mig," sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, þegar hann ræddi við Fótbolta.net fyrir seinni leik liðsins gegn Malisheva frá Kosóvó í Sambandsdeild UEFA.
Seinni leikur liðanna fer fram á morgun en Víkingar eru með 0-1 forystu eftir sigur í Kosóvó þar sem Nikolaj Hansen gerði sigurmarkið.
Seinni leikur liðanna fer fram á morgun en Víkingar eru með 0-1 forystu eftir sigur í Kosóvó þar sem Nikolaj Hansen gerði sigurmarkið.
„Við flugum heim á föstudaginn eftir síðasta leik og tókum okkur gott helgarfrí. Það er alltaf gott að fá helgarfrí og ná aðeins að hreinsa hausinn. Við höfum æft mjög vel síðustu daga og strákarnir líta út fyrir að vera tilbúnir og klárir í verkefnið."
Hvernig meturðu möguleikana á að fara áfram úr þessu einvígi?
„Ég met þá bara góða, sérstaklega ef við spilum eins og við gerðum í fyrri hálfleik úti. Við þorðum að halda í boltann og vorum með gott flæði í leiknum. Síðan fórum við að verða ósjálfrátt smá varkárir og þeir fengu smá blóð á tennurnar. Liðsheildin sem við sýndum var upp á tíu og við þurfum að gera það líka í seinni leiknum á morgun, sýna hungur að vinna leikinn og liðsheildina sem við sýndum úti. Þá er ég mjög bjartsýnn að við förum áfram," segir Sölvi.
Víkingar eru með góða reynslu af Evrópuævintýri eftir síðasta tímabil.
„Þetta er skemmtilegt verkefni. Við tökum einn leik í einu og gerum okkar besta til að komast áfram. Þetta er hrikalega skemmtilegt fyrir allt Víkingssamfélagið. Þetta skapar góðar minningar og leikmenn og stuðningsmenn fá að ferðast til landa sem þeir myndu annars ekki fara til. Við verðum að gera eins vel og við getum til að skapa enn fleiri góðar minningar."
Félagaskiptaglugginn er að opna
Það styttist í að félagaskiptaglugginn fari að opna. Víkingar hafa þegar bætt við sig Óskari Borgþórssyni sem kom heim frá Sogndal. Er eitthvað fleira á leiðinni?
„Við erum að kíkja í kringum okkur. Við erum vakandi og talandi við hina og þessa umboðsmenn og leikmenn. Við sjáum bara hvernig landið liggur, en það er ekkert á borðinu akkúrat núna."
Pablo Punyed er kominn aftur út á fótboltavöllinn eftir að hafa verið fjarverandi vegna meiðsla í tæpt ár. Það var talað um það í Dr Football á dögunum að Pablo gæti verið á förum frá Víkingum. Sölvi var spurður út í það.
„Ég ætla að vona ekki," sagði Sölvi.
„Ég vil halda Pablo í liðinu okkar. Ef ég fæ að ráða, þá fer hann ekkert annað því ég veit að Pablo verður mikilvægur fyrir okkur í sumar."
Allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir