

Frá leiknum á móti Þýskalandi á föstudag. Fanndís segir að íslenska landsliðið þurfi að gleyma þeim glæsilega sigri í smástund og einbeita sér að næsta verkefni.
Stelpurnar okkar eru mættar til Znojmo í Tékklandi þar sem þær munu mæta heimakonum í þriðja leik sínum í undankeppni Heimsmeistaramótsins á þriðjudag. Fótbolti.net hitti á Fanndísi Friðriksdóttur á liðshótelinu fyrr í dag. Landsliðskonurnar fengu frí frá fótbolta í dag til að hlaða batteríin og við byrjuðum á að spyrja Fanndísi hvernig þær hefðu nýtt daginn.
„Við kíktum í eitthvað outlet mall sem er hérna rétt hjá. Það var fínt að gera eitthvað annað en að vera í fótbolta. Fínt að rölta bara þarna um og skoða.“
Næsta verkefni er handan við hornið en framundan er erfiður útileikur við Tékka. Eru íslensku landsliðskonurnar komnar niður á jörðina eftir sigurinn magnaða á föstudag?
„Mér fannst við fljótar að ná okkur niður á jörðina. Auðvitað verður sigurinn á móti Þýskalandi aldrei tekinn af okkur en við þurfum samt sem áður að gleyma honum í smástund og fókusera á þennan leik sem er á þriðjudaginn,“ svaraði Fanndís.
Að lokum spurðum við Fanndísi út í áhugaverða Twitter-færslu þar sem Fanndís ljóstrar því upp að hún hafi einu sinni haldið að landsliðskonan Hallbera, góðvinkona og herbergisfélagi, héti eftirnafninu Berry.
„Við vorum einhvern tímann upp á herbergi að ræða hlutina og ég spurði: Hvað heitirðu þá eiginlega? Hallbera Guðný Gísladóttir Berry eða Hallbera Guðný Berry Gísladóttir. Ég skildi þetta ekki alveg sko,“ sagði Fanndís hlæjandi að lokum en hægt er að horfa á allt viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir