mán 23. nóvember 2020 12:20
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Sindri var smeykur: Hann virtist ekki getað skorað til að bjarga lífi sínu
Joey Gibbs raðaði inn mörkum í Lengjudeildinni.
Joey Gibbs raðaði inn mörkum í Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Kristinn Ólafsson.
Sindri Kristinn Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástralski sóknarmaðurinn Joey Gibbs skoraði 21 mark í 19 leikjum í Lengjudeildinni í sumar og átti stóran þátt í því að Keflavík vann deildina og komst upp í Pepsi Max-deildina.

Gibbs var valinn leikmaður ársins í deildinni en markvörður Keflavíkur, Sindri Kristinn Ólafsson, segist ekki hafa séð þetta fyrir þegar Gibbs kom fyrst til félagsins.

Sindri spjallaði við útvarpsþáttinn Fótbolti.net á X977.

Þar segir hann að einn af lykillinn fyrir góðu gengi Keflavíkur sé sá að félagið hafi bætt við réttu mönnunum og vandað valið þegar kom að erlendum leikmönnum.

„Síðasta vetur vorum við framherjalausir lengi vel. Það komu framherjar á reynslu og flestir þeirra gátu ekki neitt. Siggi og Eysteinn voru ekki að fara að taka leikmenn sem þeir voru ekki vissir um að myndu bæta liðið," segir Sindri.

„Joey var þannig að ekki var hægt að fá hann á reynslu, það þurfti að semja við hann eða ekki. Það var því smá áhætta í honum. Hann kemur og skorar ekki rassgat á æfingum, maður var orðinn smá smeykur. Hann spilaði einhverja æfingaleiki og virtist ekki geta skorað til að bjarga lífi sínu en var samt góður í að vernda boltann og svona."

Sindri segir að menn hafi efast um Gibbs en um leið og alvaran byrjaði þá fór Ástralinn á flug og leit ekki til baka.

„Um leið og mótið byrjar þá fer hann að raða inn mörkum og hættir ekkert. Maður hélt að það myndi eitthvað hægja á þessu en þetta hætti ekkert. Hann fylltist sjálfstrausti og skoraði og skoraði," segir Sindri.

Gibbs er 28 ára og að sögn Sindra hefur hann gefið mikið af sér í leikmannahópinn með reynslu sinni.

„Hann er mjög góður liðsfélagi og hefur stigið upp í að hjálpa mönnum og hann hrósar mönnum vel," segir Sindri. Viðtalið við hann kemur eftir um 62 mínútur af útvarpsþættinum. Gibbs verður áfram með Keflavík og spilar í Pepsi Max-deildinni á næsta tímabili.
Útvarpsþátturinn - Arnar Viðars, Sindri Kristinn og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner