Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 24. maí 2023 19:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Óskar Hrafn: Sá leikmaður þarf að vera eitthvað verulega skrýtinn
Stórleikur Breiðabliks og Vals annað kvöld
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað í síðasta leik á móti Val.
Marki fagnað í síðasta leik á móti Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Logi er að glíma við meiðsli og verður ekki með á morgun.
Anton Logi er að glíma við meiðsli og verður ekki með á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar fagnar að fá sem flesta leiki.
Óskar fagnar að fá sem flesta leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sigri fagnað gegn KA í síðustu umferð.
Sigri fagnað gegn KA í síðustu umferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Annað kvöld er sannkallaður stórleikur í Bestu deildinni þegar Breiðablik tekur á móti Val á Kópavogsvelli. Þetta eru liðin í öðru og þriðja sæti deildarinnar.

„Hann leggst mjög vel í okkur," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, í samtali við Fótbolta.net um leikinn sem er á morgun. „Við búumst við hörkuleik, Valur er með virkilega öflugt lið og þó allir leikir í þessari deild séu skemmtilegir og erfiðir þá er einhver sjarmi yfir leikjunum við Val, það er alveg ljóst."

„Það hefur alltaf verið. Þetta er lið sem við höfum verið að berjast við, feikilega öflugt og vel mannað lið. Ekki varð það verra þegar Arnar Grétarsson tók við. Þetta eru hörkuleikir og leikir sem ég veit að leikmenn og allir í kringum liðið hlakkar til að spila, þetta eru leikirnir sem þar sem þú getur mælt það hversu langt liðið er komið og hvar það er statt. Við erum mjög spenntir."

Blikar unnu á Hlíðarenda
Liðin mættust á Hlíðarenda í annarri umferð Bestu deildarinnar fyrir um fimm vikum síðan og þá hafði Breiðablik betur, 0-2. Er Óskar mikið að horfa í þann leik fyrir stórleikinn á morgun?

„Sá leikur hafði bara sitt líf og fór eins og hann fór. Auðvitað skoðum við hann en við erum aðeins öðruvísi lið en við vorum þá. Þeir eru það líka, þeir eru búnir að fá menn inn og við líka. Við höfum líka misst menn. Það er erfitt að horfa of mikið í þann leik, en það eru ákveðnar áherslur sem við sáum að gengu vel og annað sem gekk ekki vel. Maður hefur það á bak við eyrað. En sá leikur er ekki lykilhlutverkið í undirbúningnum," segir Óskar.

„Mér fannst margt sem þeir buðu upp á móti okkur í leiknum í annarri umferð vera mjög gott, þeir voru sterkir á milli teiganna og spiluðu að mörgu leyti þann leik vel. Þeim fannst þeir líka spila hann rosalega vel, það var mikið talað um það. En ég meina að það er ljóst að Valsliðið er með gríðarlega mikil einstaklings gæði, þeir eru sterkir fram á við og hafa verið vel skipulagðir. Þeir eru búnir að vera virkilega, virkilega góðir," sagði þjálfari Blika en Valsmenn fóru á gott skrið eftir tapið á móti Blikum. „Þeir eru þannig lið að ef menn eru ekki á tánum allan tímann þá geta þeir sært þig mjög auðveldlega og mjög illa - eins og nokkur af liðunum í deildunum hafa fengið að kynnast. Þegar á botninn er hvolft er Valur mjög öflugt lið með öflugan þjálfara og frábæra leikmenn. Þetta er duglegt og vel skipulagt lið, klárlega eitt af bestu liðum landsins."

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, sagði í viðtali fyrr í dag að sér hefði fundist það ósanngjarnt að fá ekki neitt út úr síðasta leik gegn Blikum. Er Óskar því sammála?

„Ég get ekki verið að gera lítið úr upplifun Arnars frá leiknum, en þegar öllu er á botninn hvolft var þetta sanngjarn sigur. Þeir ógnuðu markinu okkar nánast ekki neitt. Þeir voru fínir á milli teiga. Hann sá leikinn á sinn hátt."

„Ég sagði það að ég var ánægður með vinnsluna okkar og dugnaðinn sem við sýndum, ég var ánægður með margt í varnarleiknum okkar en mér fannst við geta haldið betur í boltann. Sá leikur var fínn af okkar hálfu en ekki gallalaus. Mér fannst við geta haldið betur í boltann og verið öruggari með hann. Við fórum yfir það eftir leikinn. Varnarleikurinn okkar í þeim leik, pressan og dugnaðurinn - það var gott. En við eigum klárlega töluvert inni frá þeim leik. Auðvitað er það síðan þannig að við verðum að sýna það líka, það er ekki nóg að tala um það í viðtölum og á kaffistofum. Við þurfum að sýna það að við eigum meira inni en við sýndum þar."

Staðan á hópnum er góð
Óskar segir að staðan á hópnum fyrir leikinn á morgun séð góð. Það eru tveir leikmenn fjarri góðu gamni. Annars er allt gott að frétta.

„Já, í raun og veru er staðan ágæt. Patrik er frá út tímabilið og Anton Logi er meiddur á öxl. Annars eru allir heilir, misheilir þó. Andri Rafn og Arnór Sveinn eru að koma til baka eftir meiðsli og Jason er að koma til baka eftir meiðsli, en ég held að staðan á hópnum sé samt með besta móti; við getum ekki kvartað yfir því," segir Óskar.

Ég fagna leikjunum
Leikurinn á morgun er færður út af þátttöku Blika í forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið mun taka þátt í sérstöku umspili til að komast inn í forkeppnina. Það er nokkuð þétt prógramm framundan en Óskar fagnar því.

„Ég hef ekki heyrt um leikmann sem vill ekki frekar spila en æfa. Ég held að menn fagni því að spila við KA á sunnudegi, Val á fimmtudegi, Keflavík á mánudegi og Víking á föstudegi... hann þarf að vera eitthvað verulega skrýtinn sá leikmaður sem er svekktur yfir því," segir hann.

„Ég held að menn hafi verið nauðbeygður einn sá kostur að flýta þessum leik. Við erum að spila í Evrópukeppninni á þriðjudegi og föstudegi. Ég held að það hafi ekki verið hægt að gera neitt annað. Eins og menn þurftu að færa Víking - Keflavík í fyrra. Ég er ekki sérstakur aðdáandi þess að vera færa leiki mikið til nema dag hér og þar en þetta er fylgifiskur þess að vera í Evrópukeppni. Það er erfitt að koma leikjum fyrir."

„Svo verða menn að bíta á jaxlinn og finna leiðir. Þetta er álag á leikmönnum en það fara allir af stað til að reyna að ná eins langt og þeir geta í bikarnum og í Evrópukeppni. Það er rosalega erfitt að kvarta yfir álagi á sama tíma og þú ert að vinna að því að fá sem flesta leiki, það er svolítið mótsagnarkennt. Ég fagna leikjunum; því fleiri leikir, því betur gengur okkur væntanlega. Það er skemmtilegt að spila leiki."

Að ná taktinum
Eftir tvö töp í fyrstu þremur umferðum Bestu deildarinnar, þá hafa Íslandsmeistararnir verið að finna betri takt að undanförnu - þá sérstaklega varnarlega.

„Mér finnst við hafa verið að ná taktinum, hægt og bítandi. Það hafa verið mikla breytingar og vantað upp á stöðugleikann, en ég held að það hafi að mörgu leyti verið jákvæð þróun í síðustu leikjum. Við þurfum að byggja ofan á þá. Leikurinn á móti KA, það er akkúrat leikur sem þú tekur og vilt byggja á - þessi frammistaða, varnarleikur og sérstaklega frammistaðan án bolta. Hún var til fyrirmyndar."

„Við erum búnir að fá á okkur eitt mark í síðustu fjórum leikjum en það eru tveir leikir sem skekkja markatöluna, á móti Fram og HK. Varnarleikurinn er búinn að vera fínn og sóknarleikurinn hefur aðeins hikstað. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta," sagði Óskar Hrafn að lokum en það verður afar spennandi að fylgjast með leiknum á morgun.

Sjá einnig:
Arnar Grétars: Fannst það mjög ósanngjörn úrslit
Athugasemdir
banner
banner
banner