Tímabilið 2020 var fyrsta tímabil Breiðabliks undir stjórn Óskars Hrafns og Dóri var hans aðstoðarmaður í rétt um fjögur ár.
'Tíminn með Óskari þessi fjögur ár var ógleymanlegur. Ég fékk þann heiður að vera hluti af teymi sem gjörbylti öllu starfi hjá meistaraflokki karla hjá Breiðalbiki.'
'Ég átti frábæran tíma hjá félaginu, eignaðist góða vini og fjölskyldu í leikmönnum, teyminu, starfsmönnum og meistaraflokksráðinu'
'Á ansi stuttum tíma hefur saga félagsins gjörbreyst og Breiðablik er í dauðafæri á því að verða algjört stórveldi og 'dynasty' í íslenskum fótbolta.'
Breiðablik vann öruggan sigur á Egnatia á Kópavogsvelli í júlí sem fór langt með að tryggja liðinu sæti í Sambandsdeildinni.
Fyrir rétt rúmlega mánuði síðan var Halldór Árnason rekinn sem þjálfari Breiðabliks og Ólafur Ingi Skúlason ráðinn sem eftirmaður hans. Halldór gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari tímabilið 2024 en titilvörnin gekk ekki nægilega vel, Breiðablik var í fjórða sæti deildarinnar og vonin um Evrópusæti ansi lítil þegar farið var í þjálfarabreytingu þremur dögum fyrir heimaleikinn gegn KuPS í Sambandsdeildinni.
Halldór er kominn heim úr fríi með fjölskyldunni og ræddi við Fótbolta.net um brottreksturinn.
Halldór er kominn heim úr fríi með fjölskyldunni og ræddi við Fótbolta.net um brottreksturinn.
Ýmislegt gengið á síðustu mánuði
Kom það þér á óvart að þú fékkst sparkið?
„Já, það gerði það. En á sama tíma þá ættir þú ekki að láta neitt koma þér á óvart í þessum heimi. Á þessu stigi er þetta einfalt, ef þú vinnur ekki nógu marga leiki þá missir þú starfið. Sennilega hafa einhverjir talið að við værum ekki búnir að vinna nógu marga leiki."
„Þetta kom á óvart, en leikmenn höfðu að vísu komið til mín nokkrum vikum áður og sagt mér frá því að það væri aðili í kringum félagið sem væri búinn að vera í sambandi við leikmennina, væri að reyna búa til óróa í klefanum, reyna komast að því hvort leikmenn væru búnir að missa trúna á þjálfarateyminu. Sömu leikmenn sögðu mér á þeim tíma að þessi aðili hefði verið sendur til baka með þau skilaboð að svo væri alls ekki, leikmannahópurinn og teymið væru bara ein heild sem bæru sameiginlega ábyrgð á því að liðið væri ekki í betri stöðu en það var á þeim tíma, heildin væri þétt og stæði saman í því að koma liðinu aftur á rétta braut. Þetta var fljótlega eftir Evrópuleikina úti í San Marínó þar sem við tryggðum okkur Evrópusæti. Ég spáði ekki meira í það á þeim tíma," segir Dóri.
Þú talar um aðila sem hefði sett sig í samband við leikmennina, veistu hver þetta er?
„Já, en með virðingu fyrir nýjum þjálfara, leikmannahópnum og þeim verkefnum sem Breiðablik er í þá ætla ég ekkert að fara út í einhverja orðróma eða annað slíkt. Það hefur ýmislegt gengið á í félaginu síðustu mánuði, og kannski rúmlega það, en ég held því fyrir mig eins og er. Einhvern tímann í framtíðinni skrifa ég kannski bók um þennan tíma. Ég veit hvernig ég vinn, veit hvað ég stend fyrir og hvað ég lagði í þetta. Það er nóg fyrir mig. Ég vann af heiðarleika, talaði hreint út og var trúr mínum gildum. Ég er fullkomlega sáttur," segir Dóri. Hann neitaði að nafngreina einstaklinginn sem hafði samkvæmt honum reynt að skapa óróa í klefanum.
Rekinn skömmu fyrir tvo mikilvæga leiki
Þegar Halldór var rekinn voru þrír dagar í heimaleik geng finnska liðinu KuPS í Sambandsdeildinni og sex dagar í mögulegan úrslitaleik gegn Stjörnunni um Evrópusæti. Á mánudagskvöldinu, daginn sem Halldór var rekinn, mistókst Stjörnunni að vinna Fram og þá varð ljóst að Breiðablik þyrfti tveggja marka sigur á Samsungvellinum í lokaumferðinni til að ná Evrópusæti.
Fannst þér tímasetningin skrítin?
„Bæði og, það var ýmislegt búið að ganga á, ef að það var búið að taka þessa ákvörðun þá var kannski alveg eins gott að rífa plásturinn af. En já, það var skrítið, við vorum búnir að funda með liðinu um KuPS, leik sem var stutt í. Ég nenni ekki að eyða tíma og orku að hugsa til baka og ofhugsa af hverju þetta var svona eða hinsegin. Þetta var ákvörðun sem var tekin og félagið hafði rétt á því að taka hana."
„Við vorum klárir í að fara inn í þessa tvo leiki, höfum gert vel síðustu tvö ár í því að eiga góða frammistöðu og ná í góð úrslit í stórum leikjum."
Eina sem mér datt í huga að menn þyrftu bara ást og knús
Nokkrum vikum áður voru stuðningsmenn Blika ekkert sérstaklega kátir með Halldór þegar hann var spurður út í gagnrýni á leikmann liðsins. Hann svaraði spurningu fréttamanna á þá leið að hann vonaði að einhver gæfi stuðningsmönnum gott knús heima hjá sér. Sérðu eftir þeim ummælum?
„Nei, ég sé ekkert eftir því að hafa sagt það. Ég get ekki ennþá skilið hvernig fullorðnir menn, sem titla sig stuðningsmenn félags, hvernig þeim finnist það mikill stuðningur við félagið og hvað þá unga og óslípaða leikmenn að nota vettvang, hvort sem það var Internetið eða podköst.... ég átta mig ekki á tilganginum, hvort það sé að fá fimmtán sekúndur af frægð eða hvað það er. Ef þú heldur með liði og vonast til að því gangi vel, þá hjálpar ekki að taka fyrir unga óslípaða leikmenn og tala illa um þá. Þetta var það eina sem mér datt í hug, að menn þyrftu bara ást og knús, að það væri eitthvað að angra þá. Ég get bara ekki skilið hver tilgangurinn er með svona ummælum um svona ungan leikmann eða leikmenn, ég skil það ekki þá og skil það ekki ennþá. Ég sé síður en svo eftir því að hafa sagt þetta."
Þann 16. september kallaði Hrafnkell Freyr Ágústsson, stuðningsmaður Breiðabliks, eftir því í hlaðvarpsþættinum Dr. Football að Halldór yrði rekinn. Hvað fannst þér um það?
„Hann hefur bara rétt á sinni skoðun, eins og aðrir stuðningsmenn. Það eru mismunandi svið sem menn hafa fyrir sínar skoðanir. Hann hafði rétt á sinni skoðun og ég ber virðingu fyrir henni."
Sköpuðu ekki nóg og skoruðu ekki nóg
Það var langur kafli sem Breiðablik náð einfaldlega ekki að vinna deildarleik. Liðið vann Vestra 19. júlí og næsti sigur kom ekki fyrr en 5. október gegn Fram. Af hverju gekk svona illa í deildinni?
„Það er alveg klárt að það gekk illa að ná í sigra. En það var samt þannig að þegar við fórum í Víkina í 21. umferðinni, spiluðum vel gegn Víkingi og náðum í jafntefli manni færri. Mér leið þá þannig að við værum að fara vinna þetta mót og klefinn var þar, þó að langt væri liðið á mótið. Við vorum ekki þar af því að við vorum svo frábærir, mótið bara spilaðist þannig, það voru miklu færri stig sem voru á töflunni í efri hlutanum, allir voru að vinna alla, fleiri góð lið og margir erfiðir leikir. Við vorum ennþá inn í þessu. Við gerðum alltof mörg jafntefli, en héngum í baráttunni og höfðum trú á að við gætum snúið þessu við, en gerðum það svo sannarlega ekki."
„Stærsta atriðið í allt sumar er að við náðum ekki að skora nægilega mörg mörk og náðum ekki að skapa nógu mörg færi. Það var mitt hlutverk sem þjálfari liðsins að reyna laga þetta, en það bara gekk ekki og ég ber ábyrgð á því."
„Við vorum fljótir að finna vandamálið, það var inni í teig andstæðinganna. Við mælum sóknarleik meðal annars út frá því hversu hátt upp völlinn við komumst í hverri sókn, hversu langt við 'progressum' boltann. Við viljum enda sóknirnar sem næst marki andstæðinganna og fjærst staðnum sem við byrjuðum á. Við vorum mjög ánægðir með frammistöðuna og það kristallaðist í því að Breiðablik var það lið sem snerti boltann oftast í teig andstæðinganna, þangað sem allir vilja komast. Við bara náðum ekki að búa til færi úr þessum stöðum. Við vorum með virkilega góða leikmenn, en bara náðum ekki takti, ég fékk þetta því miður ekki til að tikka."
„Sóknarlínan 2024 var Jason/Davíð - Ísak - Aron og var núna 2025 Óli Valur - Tobias - Ágúst Orri stærstan hluta mótsins. Það eru allt öðruvísi leikmenn, frábærir leikmenn, en ég náði bara ekki að búa til kemestríuna og taktinn til að búa til færi og mörk. Það er stærsta ástæðan. Við komum okkur í stöðurnar sem við vildum komast í, en það voru alltof margir leikir þar sem við náðum ekki að búa til nógu mörg færi og skora mörk."
Trúin var enn til staðar
Breiðablik var fram að miðju móti við topp deildarinnar, með Val og Víking í kringum sig. Blikar voru góðir, spiluðu vel, gegn liðunum í kringum þá en gekk verr gegn liðum neðar í töflunni. Þegar uppi var staðið endaði þessi titilvörn Breiðabliks á því að vera sú skásta stigalega í sögu félagsins, með stigi meira en 2023, en þá fékkst Evrópusæti fyrir fjórða sætið.
Í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins átti Breiðablik heimaleik gegn Víkingi, liðinu sem var orðið Íslandsmeistari. Sá leikur tapaðist og reyndist síðasti leikur Halldórs sem þjálfari liðsins.
„Þarna var einn leikur eftir af deildinni og svo Evrópuleikir. Markmið númer eitt þegar ég tek við liðinu var að koma því í deildarkeppni í Evrópu, til þess þurftum við að vinna fyrst Íslandsmeistaratitilinn og svo þau einvígi sem þurfti að vinna, annað hvort tvö eða þrjú."
„Okkur hafði gengið ansi vel gegn Stjörnunni og trúin til staðar. Ég var svekktur að tapa gegn Víkingi, tvö furðuleg augnablik sem urðu til þess að við töpuðum, en frammistaðan heilt yfir góð. Tveimur dögum seinna var þetta svo búið, við þá búnir að gera upp leikinn og að undirbúa okkur fyrir KuPS."
Eðlilegt að samningurinn var framlengdur
Stuðningsmenn Breiðabliks og þeir sem fjalla um deildina veltu fyrir sér tímasetningunni á ákvörðun Breiðabliks að framlengja við Halldór í ágúst þegar lið var án sigurs í þremur deildarleikjum í röð. Spáðir þú eitthvað í því að tímasetningin væri kannski skrítin?
„Nei, alls ekki. Við byrjuðum undirbúningstímabilið 1. febrúar 2024, þarna var liðið eitt og hálft ár frá því. Á þeim tíma höfðum við deildabikarinn, unnum Íslandsmótið, urðum meistarar meistaranna og vorum í dauðafæri á því að tryggja okkur í deildarkeppni í Evrópu. Að sama skapi höfðum við yngt liðið um næstum fjögur ár að meðaltali sem var eitt af markmiðum félagsins."
„Ég held að mér og öðrum hafi liðið eins og við værum á góðum stað með liðið, lið lenda í brekku og mér leið eins og það væri sameiginlegt markmið félagsins að koma okkur út úr henni og aftur á beinu brautina. Mér fannst þetta eðlilegt í ljósi þess sem ég og teymið mitt höfðum gert á þeim stutta tíma sem við höfðum verið við stjórn."
Fékk ekki að kveðja leikmennina
Fannst þér skrítið að Breiðablik væri strax klárt með eftirmanninn?
„Það hefði sennilega verið skrítnara ef það hefði ekki verið þannig. En aftur, ég nenni ekki að fara í einhverjar kenningar um hver talaði við hvern og hvenær. Ég er kominn yfir það."
„Ég geng ævintýralega stoltur af því sem ég lagði í þetta Breiðabliksverkefni í þessi sex ár, þessi tæpu tvö ár sem ég var aðalþjálfari, en ekki síður þessi fjögur ár sem ég vann með Óskari."
Fékkst þú að segja leikmönnum að þetta væri búið'
„Ég held að það hefði verið hægt að standa betur að því, þetta var gert með þeim hætti að ég fékk ekki tækifæri til að tala við leikmennina, tímasetningarnar á fundum og öðru gerðu það að verkum að það var ómögulegt fyrir mig. Mér fannst að það væri hægt að gera það betur, þarna eru leikmenn sem ég hafði unnið með í mjög langan tíma, mörgum í sex ár. Ég hefði gjarnan viljað fá að hitta þá, en það var ekki hægt, þessu var stillt þannig upp, ætla ekki að segja að það hafi verið viljandi. Ég veit að leikmönnum fannst það leiðinlegt líka. En svona er fótboltinn bara og lífið heldur áfram."
Ertu búinn að hitta leikmannahópinn í heild sinni eftir þetta?
„Nei, en ég hef hitt einhverja leikmenn og heyrt í langflestum. Þetta eru menn sem ég hef eytt meiri tíma með en flestum öðrum á lífsleiðinni. Þetta eru auðvitað viðbrigði og mér fannst mikilvægt að geta kvatt með einhverjum hætti."
Einstakur klefi
Upplifðir þú að þú varst ennþá með hópinn með þér?
„100%. Þessi klefi er einstakur, kúltúrinn sem ég tók þátt í að byggja og viðhalda er ótrúlegur. Þetta er ótrúlega sterkur og samheldinn klefi sem byggir af stórum hluta á því að leiðtogarnir eru mjög sterkir. Langstærsti hlutinn eru auðvitað uppaldir Blikar og þarna er kúltúr og hugarfar sem er svo fagmannlegt og mannlegt að það er ótrúlegt. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hlutirnir gengu ekki alveg upp, höfum farið í gegnum dali og brekkur síðustu ár. Menn voru auðvitað svekktir með stöðuna, metnaðurinn er mjög mikill, en það var aldrei nein uppgjöf, menn fóru ekki í að benda fingrum eða urðu fórnarlömb. Menn tóku ábyrgð, teymið og leikmenn hafa alltaf talað mjög hreinskilnislega saman um hlutina. Það voru svefnlausar nætur, menn svekktir, en það var mikill styrkur í því að það var aldrei eitthvað væl eða uppgjöf. Æfingar og fundir voru ennþá líflegir, ennþá glóð í augunum á mönnum. Ég fann það virkilega að menn höfðu trú og tóku ábyrgð, sem er mjög mikilvægt."
Saga félagsins gjörbreyst á stuttum tíma
Sex ár hjá Breiðabliki, tveir Íslandsmeistaratitlar og tvisvar í riðla/deildarkeppni í Evrópu. Ertu sáttur með árangurinn?
„Tíminn með Óskari þessi fjögur ár var ógleymanlegur. Ég fékk þann heiður að vera hluti af teymi sem gjörbylti öllu starfi hjá meistaraflokki karla hjá Breiðalbiki. Breiðablik fór úr því að vera lið sem tók þátt til að vera með í að vera félag sem lét virkilega til sín taka og náði árangri, bæði innanlands og erlendis. Fyrir 2022 hafði Breiðablik unnið fjóra titla í meistaraflokki karla: tvo deildabikartitla, bikarmeistaratitil og Íslandsmeistaratitil. Undir stjórn Óskars bætist við Íslandsmeistaratitill, meistarar meistaranna og liðið komst í riðlakeppni í Evrópu. Á þessum tæpu tveimur árum sem ég stýri liðinu vinnur liðið deildabikarinn, meistara meistaranna, Íslandsmeistaratitil og fer í deildarkeppni í Evrópu. Á ansi stuttum tíma hefur saga félagsins gjörbreyst og Breiðablik er í dauðafæri á því að verða algjört stórveldi og 'dynasty' í íslenskum fótbolta. Ég er stoltur af því, átta mig á því að deildabikartitlar og meistarar meistaranna eru ekki stórir titlar, en þeir titlar eru samt stór hluti af heildartitlum Breiðabliks frá upphafi."
„Titlarnir eru samt ekki það sem ég tek mest út úr tímanum hjá félaginu. Ég átti frábæran tíma hjá félaginu, eignaðist góða vini og fjölskyldu í leikmönnum, teyminu, starfsmönnum og meistaraflokksráðinu - öllu þessu frábæra fólki sem ég vann með í gegnum þessi sex ár. Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið að taka þátt í þessu."
„Ef einhver hefði sagt mér að ég fengi innan við tvö ár í fyrsta meistaraflokksstarfinu mínu á þessu sviði og myndi skila Íslandsmeistaratitli, deildabikartitli, meistara meistaranna titli og ná að tryggja liðinu í deildarkeppni í Evrópu, þá hefði ég alveg tekið því."
Mun finna rétta verkefnið þegar þar að kemur
Hvað tekur við?
„Næstu vikur og mánuði hugsa ég að ég gefi mér sjálfum gott svigrúm, nota tímann í að vinna í sjálfum mér og eyða meiri tíma með fjölskyldunni, Mér finnst mikilvægt að búa til smá fjarlægð frá Breiðablikstímanum, vinna úr honum, endurhlaða og svo mæti ég fullur orku í næsta verkefni þegar kemur að því."
Ertu búinn að fá einhver tilboð?
„Ég hef ekki fengið tilboð, en ég fékk nokkur símtöl og fyrirspurnir dagana eftir að ég hætti hjá Breiðabliki. Ég var heiðarlegur við sjálfan mig og þá sem hringdu, ég fann að ég þurfti fjarlægð, þurfti að koma mér burt. Ég fór í mánaðarfrí fjölskyldunni sem ég hafði rosalega gott af. Ég held að ég hafi gert rétt í því að taka ekki neinn fund, vil trúa því að ég finni rétta verkefnið þegar þar að kemur."
Langar þig að vera á hliðarlínunni næsta sumar?
„Það hafa komið morgnar sem ég hef vaknað og langað ekkert meira en að fara út á völl og að þjálfa. En svo að sama skapi finn ég að það er meiri friður í höfðinu, ótrúlegt frelsi í því að geta farið með börnunum í því sem þau eru að gera og hausinn er þar, ekki á næsta vídeófundi, æfingu eða leik. Akkúrat núna líður mér mjög vel hér heima. Ég veit ekkert hvað verður, en hugsa að þetta fari að kitla. Ég geri ráð fyrir því að vera í einhverju hlutverki innan fótboltans á komandi misserum, en hvar og hvenær, ég get ekki svarað því núna. Ég ætla láta það koma svolítið til mín," segir Dóri.
Athugasemdir


