Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   mið 26. júní 2024 14:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Þurfa að spila á föstudag vegna frjálsíþróttamóts - „Beinlínis hættulegt"
Jóhann Kristinn er þjálfari Þórs/KA.
Jóhann Kristinn er þjálfari Þórs/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sæti í undanúrslitum í húfi.
Sæti í undanúrslitum í húfi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ákveðnar að fara á Laugardalvöll.
Ákveðnar að fara á Laugardalvöll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli þegar Sandra María byrjaði á bekknum gegn FH í 8-liða úrslitunum. 'Við höfum verið að rótera svolítið undanfarið út af þessum tveimur leikjum, reynt að hvíla leikmenn'
Það vakti athygli þegar Sandra María byrjaði á bekknum gegn FH í 8-liða úrslitunum. 'Við höfum verið að rótera svolítið undanfarið út af þessum tveimur leikjum, reynt að hvíla leikmenn'
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Breiðablik kemur í heimsókn á VÍS völlinn á föstudag.
Breiðablik kemur í heimsókn á VÍS völlinn á föstudag.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég og aðrir vitum að réttasta í stöðunni væri að nokkrar í leikmannahópnum myndu taka lítinn eða engan þátt á föstudaginn'
'Ég og aðrir vitum að réttasta í stöðunni væri að nokkrar í leikmannahópnum myndu taka lítinn eða engan þátt á föstudaginn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudag tekur Þór/KA á móti Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Liðin spila á VÍS vellinum á Akureyri. Leikurinn hefst klukkan 19:45.

Það sem vekur hvað mesta athygli er að liðin spiluðu bæði í gær og fá tæplega þrjá sólarhringa í hvíld áður en næsti leikur byrjar. Leikurinn átti upphaflega að fara fram á laugardag en þar sem þá verður Meistaramót í frjálsum íþróttum í fullum gangi þá var ekki hægt að spila þá. Því var ákveðið að spilað skildi á föstudagskvöldinu.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, nefndi það í viðtölum eftir leikinn gegn Val í gær að alltof stutt væri í næsta leik.

Fótbolti.net ræddi við þjálfarann í dag.

„Upphaflega planið var ekki svona, leikurinn var settur á laugardaginn. Svo eigum við leik strax á miðvikudegi. Svörin eru alltaf eins, það eru engir leikdagar og eitthvað, allt voðalega erfitt. Við gátum ekki spilað þennan leik á laugardaginn út af frjálsíþróttamóti, þá er þetta eina lendingin og hún er ekki góð," sagði Jói.

Ekki skoðað að fara á Greifavöllinn
Á Akureyri er einnig Greifavöllurinn, heimavöllur KA, Jói var spurður hvort það hafi verið skoðað að spila leikinn þar á laugardeginum.

„Nei, það var ekki skoðað. Okkar varavöllur er Boginn, við erum ekkert upp frá (á KA svæðinu). Það er gríðarleg dagskrá þar líka og eiginlega ekkert pláss fyrir okkur að æfa þar. Við náum að stökkva á eina æfingu í viku yfir veturinn, en þegar apríl gengur í garð þá hrúgast inn leikir hjá liðum á Norðurlandi og æfingar hjá öllum flokkum."

Leikurinn verður 19:45 á föstudag. Þegar Jói var spurður út í möguleikann á því að spila leikinn á VÍS vellinum á laugardagskvöldinu sagðist hann ekki vita hvort það hafi verið skoðað. Breiðablik gæti líka haft eitthvað með það að segja vegna ferðalagsins.

Beinlínis hættulegt
Að spila á föstudag, þriðjudag, föstudag og svo er næsti deildarleikur næsta miðvikudag, það er ansi stíft leikjaprógram.

„Þetta er bara beinlínis hættulegt," segir Jóhann.

Stjörnubiluð staðreynd
Hvernig virkar þetta varðandi þessa dagsetningu, er leitað til KSÍ?

„Við fáum símtal frá Birki mótastjóra, það þarf að leysa málið, við erum með heimaleik og við þurfum að finna lausn. Það kemur þá þessi stjörnubilaða staðreynd í ljós að við erum að deila þessum velli með frjálsum."

„Þó að einhverjum á Akureyri finnist það kannski hljóma asnalega þá er Greifavöllurinn ekki okkar heimavöllur. Það er svipað og þegar FH þurfti að færa leikinn sinn á móti okkur yfir á Ásvelli, það er í sama sveitarfélagi en það er ekkert heimavöllurinn þeirra."


Völlurinn lélegur en mun skána
VÍS völlurinn hefur alls ekki verið upp á sitt besta það sem af er sumri.

„Völlurinn skánar með aðeins hækkandi hitastigi og með lagfærslum og vinnu í honum. Hann kom rosa slæmur undan vetri, svo fengum við kulda og hann hefur ekki náð að taka nógu vel við sér. Völlurinn skánar alltaf, en hann verður ekki mikið sléttari. Það sést á öllum leikjum sem hafa farið fram á vellinum að sendingarprósentan er að fara vel undir 70% í öllum leikjum. Hann verður áfram erfiður en að einhverju leyti þægilegri, aðeins fastari í sér. Þetta kemur líka út frá því að það hefur ekki verið hægt að æfa neins staðar annars staðar nema á vellinum, bæði Þór og Þór/KA. Þetta er ægilegt púsl."

Illskásta lausnin
Hefur komið upp einhver draumalausn hjá þér varðandi hvernig hefði verið hægt að raða betur upp í þessu þétta leikjaálagi?

„Nei. Þegar leikurinn var settur á laugardegi var þetta alveg nógu erfitt. Við áttum þennan leik gegn Val á þriðjudegi (í gær) og svo leik gegn FH næsta miðvikudag. Að færa leikinn af laugardeginum var alltaf að fara vera erfitt, sama í hvora áttina, það var enginn draumur."

„Það kom ekki upp að færa um völl. Það er einhver undanþága með Bogann og við erum ekki að fara inn. Mér skilst líka að Boginn sé meira og minna undirlagður af þessu móti líka, upphitun og slíkt."

„Þetta var neyðarlendingin, illskást. Ég veit ekki hvort það verði hægt að fella sig við að þetta sé góð lausn."


Réttast væri að einhverjar myndu taka lítinn eða engan þátt
Að leiknum á föstudaginn, veistu til þess að einhver geti ekki spilað út af álagi?

„Ég og aðrir vitum að réttasta í stöðunni væri að nokkrar í leikmannahópnum myndu taka lítinn eða engan þátt á föstudaginn. Svo þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta undanúrslit í bikar og það er mjög erfitt að sleppa leikmönnum ef þeir eru ekki beinlínis meiddir. Við höfum verið að rótera svolítið undanfarið út af þessum tveimur leikjum, reynt að hvíla leikmenn og það er alveg klárt að við þurfum líka að gera það í leiknum á eftir. Eftir leikinn á miðvikudag er svo leikur aftur á sunnudag."

Ákveðnar að fara á Laugardalsvöll
Hvernig leggst þessi undanúrslitaleikur, burtséð frá leikjaálagi, í þig?

„Vel og það er kannski út af tvennu. Við töpuðum illa fyrir þeim á heimavelli í deildinni fyrir ekki svo löngu síðan, það setur extra blóð á tennurnar og kannski aðeins meira hungur. Svo erum við alveg ákveðnar í því að fara á Laugardalsvöll, í úrslitaleikinn. Fyrir fram voru líkurnar nokkurn veginn 50-50 hvort þú mætir þar Val eða Breiðabliki. Við vissum að við þyrftum að vinna annað hvort eða jafnvel bæði liðin til að vinna þennan bikar."

Þór/KA lék vel gegn Val í gær þrátt fyrir grátlegt tap.

„Ég er ógeðslega ánægður með stelpurnar mínar og liðið okkar í gær. Þær gerðu svona 98-99% nóg til þess að vinna feikilega öflugt lið Vals sem hefur ógnvekjandi breidd og getur verið að hreyfa til alveg svakalega án þess að veikja liðið nokkuð. Það er ofboðslega erfitt að vera ánægður með hvernig gekk vegna þess að úrslitin voru svona, en í heildina þá gerðu stelpurnar þetta alveg ofboðslega vel," sagði Jói að lokum.

Það skal tekið fram að Breiðablik hefur verið í sama leikjaálagi og Þór/KA. Hinn undanúrslitaleikurinn, leikur Vals og Þróttar, fer fram á laugardag. Bæði lið spiluðu í deildinni í gær.
Athugasemdir
banner
banner
banner