Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   þri 26. nóvember 2024 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kominn aftur heim í KR - „Þar hefur mér liðið best"
Óliver Dagur er kominn heim í KR.
Óliver Dagur er kominn heim í KR.
Mynd: KR
Kemur til KR frá Fjölni.
Kemur til KR frá Fjölni.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki.
KR fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það leggst virkilega vel í mig að vera kominn aftur heim," segir Óliver Dagur Thorlacius sem skrifaði í síðasta mánuði undir samning við uppeldisfélag sitt, KR.

Óliver er miðjumaður sem er uppalinn í KR en hefur spilað með Gróttu og svo Fjölni síðustu ár. Hann er fæddur árið 1999 og lék á sínum tíma tíu leiki með yngri landsliðum Íslands.

„Ég ólst upp í KR og þar hefur mér liðið best. Ég er spenntur að takast á við komandi tímabil með ógnarsterkum hópi sem svo skemmtilega vill til að er með mörgum af mínum bestu vinum," segir Óliver.

„Lífið er vissulega fullt af óvæntum tækifærum en ég hef lengi haft það á tilfinningunni að ég myndi koma aftur í Vesturbæinn."

Því horfi ég til baka með hlýjum huga
Óliver hefur átt góðan tíma hjá bæði Gróttu og Fjölni síðustu árin. Hann er þakklátur fyrir tíma sinn á Seltjarnarnesi og í Grafarvoginum.

„Ég er báðum félögum mjög þakklátur fyrir tímann síðustu sjö ár. Í Gróttu upplifði ég margar af mínum bestu minningum hingað til," segir Óliver.

„Það sem stendur upp úr ásamt 1. deildar titlinum 2019 í Gróttu er það fólk sem ég kynntist og vann með ásamt mjög nánum vinum sem ég eignaðist. Því horfi ég til baka með hlýjum huga til Gróttu og Fjölnis."

Hefur kennt mér margt
Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við stjórnartaumunum hjá KR í sumar. Óliver lék fyrir hann í yngri flokkum félagsins og hjá Gróttu, og þekkir því Óskar vel.

„Mér fyndist furðulegt ef leikmaður væri ekki spenntur fyrir því að spila fyrir Óskar Hrafn. Því er fyrst og fremst heiður að fá tækifæri til þess aftur eftir góða tíma 2018 og 2019 hjá Gróttu og í 2. flokki KR fyrir það," segir Óliver.

„Hann hefur kennt mér mjög margt sem fótboltamaður sem nýtist líka í þjálfuninni og spilar auðvitað stóran þátt í því að ég er kominn heim."

Óliver er sjálfur ungur þjálfari sem er byrjaður að þjálfa í yngri flokkum KR.

„Það eru forréttindi að fá að sinna því sem á nánast hug minn allan, þjálfa og spila fótbolta. KR er að efla yngri flokka starfið með meiri metnað og fleiri góðum þjálfurum svo það eru ekki síður spennandi hlutir í gangi þar," segir hann.

Troðfylli stúkuna á Meistaravöllum á ný
Það er spennandi verkefni framundan í KR. Liðið leit frábærlega út undir lok síðasta tímabils og það verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í Vesturbænum á næstu árum undir stjórn Óskars Hrafns. Það eru margir KR-ingar komnir heim og Óliver er einn af þeim.

„Ég mun gera allt sem ég get innan sem utan vallar til að koma KR aftur á þann stað sem félagið á heima," segir Óliver og bætir svo við:

„Maður finnur að það er mikill meðbyr í Vesturbænum. Ég vona að KR-ingar allir sem einn troðfylli stúkuna á Meistaravöllum á ný."
Athugasemdir
banner
banner