Man Utd orðað við tvo leikmenn Sporting - Hvað verður um Neymar? - Fyrrum lærisveinn Slot orðaður við Liverpool - Nær Arsenal í Vlahovic?
   mán 18. nóvember 2024 10:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég var ekki að fara segja nei við Óskar Hrafn og KR"
Gabríel Hrannar Eyjólfsson er kominn heim í KR.
Gabríel Hrannar Eyjólfsson er kominn heim í KR.
Mynd: KR
Gabríel í leik með Gróttu.
Gabríel í leik með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki á síðasta tímabili. Það eru spennandi tímar framundan í Vesturbænum.
KR fagnar marki á síðasta tímabili. Það eru spennandi tímar framundan í Vesturbænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það leggst gríðarlega vel í mig. Það er draumur að rætast að snúa aftur heim og spila fyrir KR. Ég get ekki beðið eftir því að hefjast handa," segir Gabríel Hrannar Eyjólfsson, nýr leikmaður KR, í samtali við Fótbolta.net.

Gabríel Hrannar gekk aftur í raðir uppeldisfélags síns fyrir stuttu eftir að hafa leikið með Kríu, KV, Vestra og nú síðast Gróttu.

Gabríel Hrannar, sem er fæddur 1999, er uppalinn KR-ingur en hann hefur aldrei leikið fyrir meistaraflokk KR. Nú fær hann tækifæri til þess.

Var þetta tækifæri sem kom óvænt upp?

„Já og nei, ég hafði fundið fyrir áhuga frá öðrum liðum undanfarin ár en fannst aldrei rétta tækifærið koma, alltaf liðið vel í Gróttu. Síðasta tímabil var erfitt og þungt með Gróttu en persónulega átti ég sennilega eitt af mínum bestu tímabilum, sem var skrítin tilfinning. Svo var ég að renna út af samning og því átti ég kannski von á einhverjum þreifingum."

Þykir ótrúlega vænt um félagið og fólkið
Grótta féll úr Lengjudeildinni síðasta sumar en Gabríel þótti vænt um tíma sinn á Seltjarnarnesi. Hann lék með Gróttu frá 2020.

„Fyrst og fremst þykir mér ótrúlega vænt um félagið og fólkið sem ég kynntist þar. Það voru auðvitað gríðarleg vonbrigði að falla í haust, en ég er stoltur að hafa spilað og unnið fyrir þetta frábæra félag," segir Gabríel.

„Ég kynntist frábæru fólki og á marga góða vini í Gróttu. Þar hefur verið unnið gott starf undanfarin ár sem sýnir sig best í öllum þeim efnilegu leikmönnum sem félagið hefur alið af sér sem og þeim frábæru þjálfurum sem hafa og eru að starfa fyrir félagið."

Óskar hefur hjálpað mér mikið
Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við stjórnartaumunum hjá KR í sumar. Gabríel lék fyrir hann í yngri flokkum félagsins og hjá Gróttu, og þekkir því Óskar vel.

Hvernig líst þér á að spila fyrir Óskar Hrafn aftur? Er hann stór ástæða fyrir því að þú ferð heim?

„Mér líst frábærlega á það, Óskar hefur hjálpað mér mikið frá því að hann þjálfaði mig fyrst í 2. flokki KR og svo aftur í Gróttu. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt frá honum og ég hlakka til að halda áfram að bæta mig undir hans stjórn. Ég var ekki að fara segja nei við Óskar Hrafn og KR," segir Gabríel.

Gabríel er sjálfur efnilegur þjálfari sem hefur verið að þjálfa í yngri flokkum Gróttu. Núna er hann byrjaður að vinna fyrir KR.

„Mjög skemmtilegt, ég er nú þegar byrjaður. Það er mikið af spennandi leikmönnum í yngri flokkum KR, gott þjálfarateymi og vel haldið utan um hlutina. Ég er spenntur að leggja mitt af mörkum og hjálpa félaginu að komast á þann stað sem við viljum vera á."

Komast aftur á þann stað
Gabríel getur leyst flestar stöður á vellinum og kemur til með að nýtast KR vel með fjölhæfni sinni.

„Í KR er það bara þannig að maður þarf að standa sig ef maður á að spila, og ég er spenntur að vera í harðri samkeppni og æfa og spila með öllum þeim frábæru leikmönnum sem eru í KR. Hvað varðar leikstöðu á það bara eftir að koma í ljós, ég spilaði auðvitað í öllum leikstöðum sem þú getur ímyndað þér í Gróttu á síðasta tímabili. Mér líður samt best þegar ég er mikið í boltanum og get tekið þátt í sóknarleiknum."

Það er spennandi verkefni framundan í KR. Liðið leit frábærlega út undir lok síðasta tímabils og það verður fróðlegt að fylgjast með hvað gerist í Vesturbænum á næstu árum.

„Það eru mjög spennandi tímar framundan og frábært að geta tekið þátt þessu verkefni. Um leið og ég steig inn um dyrnar fann ég fyrir metnaðinum, hvort sem það er í meistaraflokk karla, kvenna eða í yngri flokkum. Það er frábært fólk að vinna í félaginu og í kringum það. Allir eru að vinna saman að því markmiði að koma KR aftur á þann stað sem við eigum heima," sagði Gabríel að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner