Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 26. nóvember 2025 19:36
Brynjar Ingi Erluson
Jói Kalli tekur við FH (Staðfest) - Árni Freyr verður aðstoðarþjálfari
Mynd: FH
Jóhannes Karl Guðjónsson er tekinn við FH og gerir fjögurra ára samning en þetta kemur fram í tilkynningu félagsins. Árni Freyr Guðnason verður aðstoðarmaður hans.

Jói Kalli lét af störfum hjá AB í Danmörku á dögunum en hann hafði verið sterklega orðaður við FH.

FH-ingar hafa nú staðfest ráðninguna á Jóa Kalla sem gerir samning til 2029.

Heimamaðurinn Árni Freyr verður aðstoðarmaður hans, en hann stýrði síðast Fylki og ÍR.

Jói Kalli tekur við af Heimi Guðjónssyni sem yfirgaf félagið eftir síðustu leiktíð.

„Jóhannes Karl var okkar fyrsti kostur og það er mjög ánægjulegt að kynna hann sem nýjan þjálfara FH-liðsins. Við erum samhliða þessari ráðningu að kynna nýja stefnu sem var stór partur af ráðningarferlinu og sýn Jóa og félagsins á það hvert við viljum fara passar mjög vel saman. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur og Jói er akkúrat maðurinn sem við viljum að leiði okkur inn í framtíðina,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH um Jóa Kalla.

Hann fagnaði því þá að fá Árna Frey aftur til félagsins.

„Við erum virkilega ánægðir með að hafa fengið Árna Frey inn sem aðstoðarþjálfara. Árni er mikill FH-ingur, spilaði hér og var síðan yfirþjálfari áður en hann fór í meistaraflokksþjálfun og kemur aftur til okkar reynslunni ríkari. Hann þekkir leikmannahópinn og félagið vel og við væntum þess að Jói og Árni myndi gott teymi.“

„Við erum samhliða þessu að kynna nýja stefnu sem við erum byrjaðir að innleiða. Markmið stefnunnar er að gera félagið sjálfbært á sama tíma að við byggjum upp lið, bæði karla og kvenna megin sem berjast á toppnum. Það getur tekið tíma, við ætlum ekki að kaupa okkur árangur en erum þess fullviss að þessi leið muni skila okkur aftur á toppinn,“
sagði Davíð Þór enn fremur.


Athugasemdir
banner
banner
banner