Jóhann Berg Guðmundsson er heill og klár í slaginn fyrir leik Íslands og Armeníu á morgun. Jóhann Berg var ónotaður varamaður í 3-0 tapinu gegn Þýskalandi í fyrradag en hann hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli.
„Jói æfði 100% í gær og í morgun var hann góður. Hann er í fínu standi. Ég hef í raun yfir engu að kvarta. Leikmenn eru í góðu standi," sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari landsliðsins, á fréttamannafundi í dag.Rúnar Már Sigurjónsson fór af velli undir lok fyrri hálfleiks gegn Þýskalandi en staðan á honum er betri.
„Rúnar Már er mikið betri. Hann fékk högg á augað sem varð til þess að hann sá ekki út um annað augað og fékk mikinn hausverk eftir leik."
„Ástandið á leikmönnum er mjög gott. Við æfðum í gærmorgun í Þýskalandi. Þeir leikmenn sem byrjuðu leikinn á móti Þjóðverjum voru í endurheimt en þeir sem spiluðu minna eða ekki fengu góða æfingu. Síðan var langt ferðalag til Armeníu og mikill tímamismunur sem er það erfiðasta í þessu. Við tókum þá ákvörðun í samvinnu við leikmenn að seinka öllu hér til að leikmenn fái góða hvíld og góðan svefn."
Leikurinn í Armeníu hefst klukkan 16:00 á morgun en Arnar segir ljóst að einhverjar breytingar verði á byrjunarliðinu frá því gegn Þýskalandi.
Athugasemdir