Endurkoma á Trafford? - Liverpool vill Eze - Pogba til Bandaríkjanna - Duran til Madríd?
   þri 27. júní 2023 12:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Aron: Tékkaði ekki einu sinni á því hvort annað félag hefði haft samband
Það er því mjög spennandi að fara spila reglulega aftur og sérstaklega með Víkingi þar sem framundan er Evrópa og titilbaráttan
Það er því mjög spennandi að fara spila reglulega aftur og sérstaklega með Víkingi þar sem framundan er Evrópa og titilbaráttan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í landsliðshópnum í mars. 'Ég get ekki verið að taka mínar ákvarðanir gagnvart því eins og er'
Var í landsliðshópnum í mars. 'Ég get ekki verið að taka mínar ákvarðanir gagnvart því eins og er'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur er mitt lið og verkefnið þar er spennandi
Víkingur er mitt lið og verkefnið þar er spennandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valinn efnilegstur 2014 hér á Fótbolti.net.
Valinn efnilegstur 2014 hér á Fótbolti.net.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
„Ég er búinn að vera skoða það sem er í boði og velta því fyrir mér með fjölskyldunni. Ég var búinn að ákveða það, að ef ég ætlaði að vera áfram úti þá þyrfti það að vera virkilega spennandi verkefni. Þegar allt kom til alls þá leist mér best á þessa lausn fyrir mig og mína fjölskyldu," sagði Aron Elís Þrándarson við Fótbolta.net í dag.

Aron var tilkynntur sem nýr leikmaður Víkings í dag og fær hann leikheimild þegar glugginn opnar 18. júlí.

Miðjumaðurinn skrifar undir fjögurra ára samning við uppeldisfélagið.

„Víkingarnir hafa alltaf skoðað stöðuna á manni, eins og örugglega mörg félög gera við sína uppöldu leikmenn. Ég átti gott spjall við Kára og Arnar áður en ég fór út í frí. Við fórum yfir málin, framtíðarplönin og allt slíkt. Ég var mjög spenntur fyrir því sem þeir höfðu að segja."

„Svo er Víkingur minn uppeldisklúbbur og er á mjög góðum stað á Íslandi. Það er virkilega spennandi fyrir mig að koma inn í það og hjálpa til við að viðhalda þeim árangri sem er búinn að nást í Víkinni síðustu ár."

„Það kom ekkert annað íslenskt lið til greina, ég ræddi ekki við neitt annað félag. Ég tékkaði ekki einu sinni á því hvort annað félag hefði haft samband, Víkingur er mitt lið og verkefnið þar er spennandi."


Spenntari fyrir verkefninu hjá Víkingi
Það var áhugi á Aroni erlendis frá.

„Það voru möguleikar í efstu deildum á Norðurlöndunum. Núna er ég búinn að vera úti í níu ár og ég var einhvern veginn spenntari fyrir þessu verkefni ef ég á að segja alveg eins og er."

„Mig langaði ekki að vera úti til að vera úti „af því að maður verður að nýta allan þann feril sem maður getur verið úti til að vera þar". Mér fannst spennandi að koma aðeins fyrr heim og þá í aðeins betra líkamlegu standi. Maður veit ekki hvernig skrokkurinn verður þegar maður er orðinn 33-35 ára."


Ertu með eitthvað annað planað í tengslum við heimkomuna, nám jafnvel?

„Það gæti vel verið að maður fari líka í eitthvað nám, án þess að vera búinn að plana það eitthvað alveg þvílíkt. En það er klárlega eitthvað sem maður myndi líta á."

Ekki það sem ég er að spá mest í núna
Helduru að þessi ákvörðun hafi áhrif á þína möguleika upp á landsliðssæti að gera?

„Alveg örugglega, en það er ekki það sem ég er að spá mest í núna. Landsliðið er á flottri leið, með marga unga og spennandi leikmenn. Ég get ekki verið að taka mínar ákvarðanir gagnvart því eins og er. Ég valdi það sem mér fannst mest spennandi fyrir fjölskylduna líka yfir það."

Aron á að baki sautján A-landsleiki og hefur í þeim skorað eitt mark. Hann var í landsliðshópnum í mars en var ekki valinn í verkefnið fyrr í þessum mánuði.

Ekkert gaman á bekknum en þakklátur fyrir tímann
Hann var í þrjú og hálft ár hjá OB í Óðinsvéum í Danmörku og kemur til Víkings frá danska félaginu. Fyrir áramót var orðið ljóst að hann myndi ekki framlengja samninginn við danska félagið. Hvernig var síðasta tímabilið í Danmörku, voru þetta mikil vonbrigði?

„Já, þetta var mjög erfitt tímabil ef ég á að segja alveg eins og er. Þeir vissu að ég væri ekki að fara endursemja. Eins og er kannski í fótbolta þá verður maður ekki alveg eins mikill partur af plönunum. Það var ekkert gaman að vera á bekknum yfir heilt tímabil þar."

„Það er því mjög spennandi að fara spila reglulega aftur og sérstaklega með Víkingi þar sem framundan er Evrópa og titilbaráttan."


Aron hefur ekki spilað í Evrópukeppni á sínum ferli og gæti mögulega spilað sinn fyrsta Evrópuleik þegar Riga kemur í heimsókn á Víkingsvöll 20. júlí.

Ákvörðunin að endursemja ekki við OB, varstu ekki sáttur hjá félaginu eða vildiru prófa eitthvað nýtt?

„Ég fann að mig langaði að prófa eitthvað nýtt, það var ekki þannig að ég væri eitthvað mjög ósáttur þarna. Félagið vissi að ég vildi prófa eitthvað nýtt og því var ekki farið í neinar viðræður."

„Ég fer frá félaginu á góðu nótunum, ekkert illt til þeirra og ég er bara mjög þakklátur fyrir minn tíma þar. Ég átti eitt mjög gott tímabil í efstu deild hjá félaginu og er þakklátur fyrir þá reynslu,"
sagði Aron.

Hjá Víkingi hittir hann fyrir Halldór Smára Sigurðsson sem lék með Aroni í Víkingi áður en hann fór út. Davíð Örn Atlason var þá einnig í kringum liðið.

„Halli er orðinn Víkingsgoðsögn og er þarna ennþá, það verður gaman að spila með honum aftur," sagði Aron að lokum.
Athugasemdir
banner
banner