„Eftir lánið í fyrra fór ég aftur til ÍA, æfði þar í vetur og 16. janúar var ég kallaður á fund og mér sagt að Grindavík hefði lagt fram tilboð sem ég ákvað að skoða og leist vel á. Viku seinna var ég búinn að skrifa undir," segir Ingi Þór Sigurðsson sem var keyptur til Grindavíkur fyrr í þessum mánuði frá uppeldisfélaginu ÍA.
Hann var á láni hjá Grindavík í fyrra og spilaði vel. Hann ræddi við Fótbolta.net fyrr í þessari viku.
Hann var á láni hjá Grindavík í fyrra og spilaði vel. Hann ræddi við Fótbolta.net fyrr í þessari viku.
Hjálpar að sjá Damir skrifa undir
„Ég vissi hvað ég væri að fara út í og það hjálpaði mikið að sjá hvaða nöfn hafa skrifað undir hjá Grindavík upp á síðkastið, eins og Damir og Hjörvar markmaður og fleiri. Eftir að hafa farið á fund með þeim og heyrt þeirra hlið þá var ég fljótur að ákveða mig."
Engir grínleikmenn inn á miðjunni hjá ÍA
Valið stóð á milli þess að fara til Grindavíkur eða berjast fyrir einhverjum mínútum hjá mjög vel mönnuðu liði ÍA í Bestu deildinni.
„Þetta var annað hvort Grindavík eða að reyna berjast fyrir minni stöðu í ÍA. Ég mat það þannig að ég myndi fá meira út úr því að spila í Grindavík. Það eru engir grínleikmenn að spila í minni stöðu hjá ÍA," sagði Ingi og glotti aðeins.
Hann er miðjumaður og hefur ÍA fengið inn Gísla Eyjólfsson og Guðmund Þórarinsson inn á miðsvæðið í vetur.
Stefnir hærra í ár eftir fallbaráttu í fyrra
Samkvæmt Transfermarkt skoraði hann þrjú mörk og lagði upp eitt í 21 leik í Lengjudeildinni í fyrra.
„Það voru hæðir og lægðir. Við byrjuðum vel og lentum svo í meiðslum. Þetta var ævintýri og þegar litið er til baka hvernig var farið að þessu, budgetið og annað, þá er í raun og veru kraftaverk að liðið hafi haldið sér uppi."
„Það var mikið stress undir lokin, við vorum óþægilega nálægt því, urðum að treysta á önnur lið og svona. Ég væri að ljúga ef ég segði að það hefði ekki verið neitt stress."
„Ég sé enga ástæðu fyrir því að við ættum að vera í einhverri fallbaráttu á komandi tímabili. Það eru fjögur sæti sem fara í umspil, með hópinn sem við erum með og ef hann verður styrktur frekar, þá förum við í alla leiki til að vinna þá. Ég sé enga ástæðu fyrir því að stefna ekki á umspilið," segir Ingi.
Frábær aðstaða
„Mér líst mjög vel á að spila í Grindavík, vorum líka þar í fyrra, æfðum þar og spiluðum."
„Ég bjó í Grindavík í fyrra og mun gera það líka á þessu tímabili. Aðstaðan er frábær, grasvöllurinn er mjög góður og við erum með tvö íþróttahús bara fyrir okkur og líkamsrækt nálægt klefanum líka. Það eru toppaðstæður og gaman að fá að búa í bæjarfélaginu."
Svekktur að hafa ekki fengið traustið fyrir síðasta sumar
Hann er uppalinn hjá ÍA, er 21 árs miðjumaður sem lék sína fyrstu leiki sumarið 2020. Hlutverkið stækkaði þegar leið á árin og tímabilið 2024, þar sem ÍA var í harðri Evrópubaráttu, kom hann við sögu í 24 leikjum í Bestu deildinni.
„Ég er þakklátur fyrir ÍA, ég á fimm tímabil að baki hjá félaginu og yfir 100 leiki. Ég kom ungur inn í meistaraflokkinn og fékk traust frá þjálfurum. Í fyrra fór ég svo á lán, áttaði mig á því að traustið var ekki lengur til staðar. Ég er mjög þakklátur, er búinn að vera í 21 á Skaganum."
Er svekkjandi að hafa ekki fengið traustið áfram?
„Í fyrra var það meira svekkelsi heldur en það var núna. Ég taldi mig hafa átt gott tímabil 2024 en mínútunum fækkaði á undirbúningstímabilið. Ég hélt að ég væri að brjóta mér leið inn í liðið eftir tímabilið 2024 og setti mér stór markmið, en svona er þetta bara. Þá bara opnast aðrar dyr."
Það gekk illa framan af hjá ÍA í fyrra. Spurðir þú sjálfan þig af hverju þú værir ekki í þessu liði?
„Ég reyndi að einbeita mér eins mikið og ég gat á Grindavík. En auðvitað var leiðinlegt að sjá hvernig þetta byrjaði. Ég reyndi bara að einbeita mér að mínu og ekki hvað hefði getað gerst. Ég tók ákvörðun og hún var alltaf að fara vera rétt ákvörðun," segir Ingi.
Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum efst.
Í lok viðtalsins er Ingi spurður út í bróður sinn, landsliðsmanninn Arnór Sigurðsson.
Athugasemdir























