Fallbaráttulið Nottingham Forest er að krækja í ítalska landsliðsmanninn Davide Frattesi á lánssamningi út tímabilið með kaupmöguleika.
Frattesi hefur lítið sem ekkert fengið að spila fyrir Inter undir stjórn Christian Chivu en hann var með stærra hlutverk í liðinu þegar Simone Inzaghi var þjálfari.
Frattesi er 26 ára sóknarsinnaður miðjumaður sem á tvö og hálft ár eftir af samningi við Inter. Hann hefur komið við sögu í 108 leikjum á tveimur og hálfu ári hjá stórveldinu.
Chivu virðist ekki þarfnast krafta hans og því fær Frattesi tækifæri til að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni.
Miðjumaðurinn er þekktur fyrir frábær hlaup frá miðjunni inn í vítateig en getgátur eru uppi um hvort hann sé nægilega sterkur líkamlega fyrir enska boltann.
Frattesi hefur skorað 8 mörk í 33 landsleikjum fyrir Ítalíu.
Inter er búið að samþykkja tilboð Forest svo ákvörðunin liggur hjá Frattesi sjálfum. Atlético Madrid hefur einnig verið orðað við leikmanninn.
Athugasemdir


