Þjálfarastarf Thomas Frank hjá Tottenham er talið vera í hættu þar sem liðið er aðeins í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 28 stig úr 23 leikjum. Danski þjálfarinn tók við félaginu eftir að Ange Postecoglou var rekinn í fyrrasumar.
Thomas Frank þjálfari Tottenham segir að félagið hafi reynt að kaupa Antoine Semenyo í janúarglugganum en það mistekist.
Kantmaðurinn öflugi endaði hjá Manchester City fyrir 65 milljónir punda, eða því sem samsvaraði riftunarákvæðinu í samningi hans við Bournemouth. Bournemouth er búið að kaupa Rayan til að fylla í skarðið og setti félagið 100 milljón punda söluákvæði í samning táningsins.
„Stjórnendur félagsins hafa unnið hörðum höndum að því að bæta leikmannahópinn í janúarglugganum. Þeir eru að gera allt í sínu valdi til að finna rétta leikmenn sem verða ekki bara skammtímalausnir, heldur menn sem geta haldið áfram að gera góða hluti fyrir okkur á næstu árum," sagði Frank á fréttamannafundi í dag.
„Ég get lofað ykkur því að Lewis fjölskyldan (meirihlutaeigendur í Tottenham) er með mikinn metnað og vill gera allt í sínu valdi til að styðja við verkefnið sem er í gangi hérna. Ég ætla að fara gegn minni eigin reglu, vonandi bara í þetta sinn, og segja frá því að við reyndum að kaupa (Antoine) Semenyo. Við gerðum allt sem við gátum og það er augljóst merki um að Lewis fjölskyldan stendur þétt við bakið á liðinu."
Tottenham hefur hingað til keypt miðjumennina Conor Gallagher og Joao Souza í janúarglugganum fyrir rúmlega 47 milljónir punda samanlagt. Félagið seldi Brennan Johnson til Crystal Palace fyrir 35 milljónir.
„Ef okkur tekst ekki að krækja í neinn leikmann á síðustu dögum janúargluggans þá er ég viss um að félagið mun styrkja sig til muna næsta sumar. Það er mjög stórt sumar framundan og ég hef engar efasemdir um að við munum sjá mikið af bætingum."
Athugasemdir

