Þeir fastamenn sem fengu stærsta mínútuskammtinn frá Heimi Hallgríms í undankeppni HM ættu ekki að eiga erfitt með að festa svefn eftir landsleikjagluggann.
Þó einhverjir hafi klárlega styrkt stöðu sína í augum Heimis og Helga eftir þessa Bandaríkjaferð þá var okkar helstu leikmönnum ekki ógnað. Enda er líka erfitt að slá menn út eftir þessa gósentíð sem hefur ríkt í íslenskum fótbolta.
Þó einhverjir hafi klárlega styrkt stöðu sína í augum Heimis og Helga eftir þessa Bandaríkjaferð þá var okkar helstu leikmönnum ekki ógnað. Enda er líka erfitt að slá menn út eftir þessa gósentíð sem hefur ríkt í íslenskum fótbolta.
Leikirnir gegn Mexíkó og Perú töpuðust 3-0 og 3-1 og Heimir var duglegur að gefa mönnum tækifæri enda um að ræða síðustu leikina áður en HM hópurinn verður opinberaður, þann 11. maí.
Þeir sem voru að skora hæst í einkunnagjöf Fótbolta.net fyrir þessa tvo leiki eru leikmennirnir sem hafa verið lykilmenn í liðinu. Birkir Bjarna maður leiksins gegn Mexíkó og Jói Berg gegn Perú.
Fyrir leikinn gegn Mexíkó kom upp umræða meðal fjölmiðlamanna yfir kvöldverði um það hvernig byrjunarlið Íslands yrði gegn Argentínu í fyrsta leik HM, þann 16. júní. Með þeim formerkjum að allir verði klárir, sem vonandi verður staðan.
Ég setti þetta lið í pottinn:
Hannes
Birkir Már - Raggi - Kári - Hörður
Jói Berg - Aron - Emil - Birkir
Gylfi
Jón Daði
Semsagt leikkerfið sem Heimir breytti aðeins í gegn erfiðum andstæðingum í undankeppninni. Og jú flestir telja að Argentína sé sigurstranglegasta liðið í okkar riðli enda með nokkra framúrskarandi fótboltamenn.
Þessari byrjunarliðsspá var alls ekki haggað í mínum huga í þessum tveimur leikjum í Bandaríkjunum.
Það eru jafnvel bara góðu fréttirnar enda hlýtur það að vera kostur fyrir þjálfara að vita nákvæmlega hvert sitt sterkasta lið er.
Fyrir utan fastamennina er baráttan um að komast í lokahópinn fyrir HM hrikalega spennandi. Það eru gríðarlega margir sem eru á bjargbrúninni og bíða eftir 11. maí með hnút í maga.
Athugasemdir