Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   fim 29. júlí 2021 23:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
í beinni
Boltadagur í beinni - Gluggalok og Sambandsdeildin
Breiðablik er komið áfram í 3. umferð Sambandsdeildarinnar!
Breiðablik er komið áfram í 3. umferð Sambandsdeildarinnar!
Mynd: Getty Images
Fylgstu með tíðindum dagsins í gegnum beina textalýsingu frá fréttamönnum Fótbolta.net

Á miðnætti í kvöld lokar félagaskiptaglugganum hér á Íslandi og því síðasta tækifæri fyrir félögin að styrkja sig fyrir lokakafla tímabilsins. Við fylgjumst með öllu því helsta.

Ert þú með fréttaskot: [email protected]

Þá verða þrjú íslensk lið í eldlínunni í seinni leikjum í Sambandsdeildinni. Það er brekka fyrir Val og FH sem leika í Noregi en Breiðablik er í fínni stöðu fyrir heimaleik gegn Austría Vín.

Leikir dagsins:
16:00 Bodö/Glimt - Valur (Eftir fyrri leik: 3-0)
17:00 Rosenborg - FH (Eftir fyrri leik: 2-0)
17:30 Breiðablik - Austria Vín (Eftir fyrri leik: 1-1) - Bein textalýsing
23:05
Ég, Sæbjörn, hef lokið leik þegar kemur að þessari beinu textalýsingu frá glugga- og Sambandsdeildardeginum.

Fylgist áfram með félagaskiptum á Fótbolta.net í dag og á morgun þar sem einhver skipti gætu verið staðfest í fyrramálið.

Takk fyrir samfylgdina, góða nótt!

Eyða Breyta
22:59
Unnur Elva í KR (Staðfest)
Unnur Elva Traustadóttir, fyrirliði ÍR og markahæsti leikmaður 2. deildar, er gengin í raðir KR í Lengjudeildinni.

Unnur skoraði sex mörk í síðasta leik sínum með ÍR í bili. Hún er fædd árið 1998 og skoraði fimmtán mörk í níu leikjum í 2. deild í sumar. Hún er komin með leikheimild með KR.

Unnur er uppalin hjá ÍA en skipti yfir í ÍR fyrir síðasta tímabil.
Unnur Elva

Eyða Breyta
22:55
Fram fær tvo leikmenn
Fram hefur fengið tvo leikmenn fyrir lokasprettinn í 2. deild kvenna.

Shianne Lacey Rosselli kemur á láni frá FH en hún skipti í FH frá Bandaríkjunum í dag. Shianne er fædd árið 1998.

Þá kemur Sólveig Birta Eiðsdóttir frá Tindastóli á láni út tímabilið frá Tindastóli. Hún hafði komið við sögu í sex leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar. Hún er fædd árið 2000.
Sólveig Birta

Eyða Breyta
22:53
Jón Kári, Davíð og Einar Bjarni í Tindastól

Þeir Einar Bjarni Ómarsson og Jón Kári Eldon eru komnir með leikheimild með Tindastóli. Einar Bjarni (1990) kemur frá Kríu, Jón Kári (1989) kemur frá KV og Davíð Birgisson (1990) kemur frá Kórdrengjum.

Davíð er ekki kominn með leikheimild á KSÍ þegar þetta er skrifað. Hann spilaði níu leiki með Kórdrengjum sumarið 2019.

Jón Kári spilaði síðast með KV sumarið 2017 og Einar Bjarni spilaði einn leik með Kríu í sumar og skoraði tvö mörk gegn Ísbirninum.
Eldoninn

Eyða Breyta
22:20
KR lánar Ástu og Emilíu til ÍR
ÍR hefur fengið þær Ástu Kristinsdóttur og Emilíu Ingvadóttur (báðar 2002) á láni frá KR fyrir lokasprettinn í 2. deild.

Emilía hafði komið við sögu í tveimur leikjum með KR í sumar og Ásta hafði komið við sögu í sex leikjum.
Ásta

Eyða Breyta
22:17
Hrafnhildur Hjaltalín aftur í HK

Hrafnhildur Hjaltalín er komin aftur í HK eftir að hafa verið á láni hjá ÍBV fyrri hluta tímabilsins.

Hrafnhildur (1999) varði mark ÍBV í einum leik í sumar. Hún varði mark HK í 2. deildinni í fyrra.

Eyða Breyta
22:15
Birta Birgis til Gróttu


Birta Birgisdóttir er farin á láni frá Breiðabliki til Gróttu og verður með liðinu út tímabilið. Birta (2003) lék sex leiki með Augnabliki fyrri hluta tímabilsins og skoraði eitt mark.


Eyða Breyta
22:09
Valur Reykjalín í Ægi
Valur Reykjalín Þrastarson hefur skipt í Ægi frá Haukum.

Valur lék ellefu leiki með Haukum í 2. deild í fyrra en hann er uppalin hjá KF.


Eyða Breyta
21:39
Grindavík fær varnarmann
Grindavík hefur samið við bandaríska varnarmanninn Gabriel Robinson út yfirstandandi keppnistímabil í Lengjudeild karla. Gabriel er 25 ára gamall varnarmaður sem hefur aðallega leikið í Bandaríkjunum.

Gabriel eða Gabe, eins og hann er kallaður, er hávaxinn og sterkur varnarmaður. Hann lék í ár með liði CSD Municipal í Guatemala en hafði þar áður leikið í nokkur ár í B-deildinni í Bandaríkjunum. Hann átti möguleika á því að semja við sænskt b-deildar lið fyrir tveimur árum en kaus af fjölskylduástæðum að spila áfram í Bandaríkjunum.

Eyða Breyta
21:37
Moli skiptir í Dalvík

Kristján Sigurólason, Moli (yngri), er búinn að fá félagaskipti frá Þór í Dalvík. Moli er fæddur 1988 og spilaði síðast með Magna árið 2017. Dalvík/Reynir spilar í 3. deild.


Eyða Breyta
20:38
Viktor Elmar Gautason í Þrótt

Þróttur er búið að fá Viktor Elmar (2003) á láni frá Breiðabliki út þetta tímabil. Viktor hefur spilað með 2. flokki Breiðabliks í sumar.

Eyða Breyta
20:35
Tómas Óli Garðarsson í Kríu

Tómas Óli Garðarsson er genginn í raðir Kríu frá Leikni. Tómas spilaði síðast árið 2018 með Leikni í næstefstu deild.

Hann er fæddur árið 1993 og hefur einnig spilað með uppeldisfélaginu Breiðabliki og Val á sínum ferli. Sumarið 2017 skoraði hann sjö mörk í 20 leikjum með Leikni.


Eyða Breyta
20:35
Riga, Molde og Hammarby áfram

Íslendingaliðin Riga FC, Hammarby og Molde eru komin áfram í 3. umferð Sambandsdeildarinnar.

Riga FC, sem er frá Lettlandi, slær út Shkendija frá Makedóníu. Riga sigraði Shkendija 0-3 samanlagt. Axel Óskar er á mála hjá liðinu en hann glímir við meiðsli.

Norska félagið Molde er komið áfram eftir einvígi við svissneska liðið Servette. Molde vann fyrri leikinn í Noregi 0-3 en tapaði í kvöld 2-0 og vann því einvígið á einu marki. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður á 59. mínútu í liði Molde.


Björn Bergmann

Þá er sænska félagið Hammarby komið áfram eftir sigur á Maribor. Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í kvöld þegar Hammarby vann 0-1. Samanlagt vann Hammarby einvígið 1-4. Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks, er þjálfari Hammarby.

Þá má koma inn á það að Bohemians, sem sló Stjörnuna út í 1. umferð, lagði Dudelange samanlagt 4-0 í einvígi þeirra í þessari 2. umferð.

Eyða Breyta
19:30
Nokkur félagaskipti:

Kári er búinn að fá Benjamin Mehic á láni frá ÍA.
Christina Settles er gengin í raðir Aftureldingar. Hún lék síðast með Völsungi í fyrra.
KFG fær Henrik Hilmarsson og Gunnar Aðalsteinsson á láni frá Stjörnunni.
Víkingur Ólafsvík fær Kristófer Atlason frá Reyni Hellissandi.
ÍBV kallar Róbert Eysteinsson til baka frá KFS.
Ýmir Halldórsson er kominn á láni til Aftureldingar frá Breiðabliki.
Þröstur Ingi Smárason er þá kominn aftur til Keflavíkur frá Víði

Róbert Aron Eysteinsson

Eyða Breyta
19:27
Þrjú Íslendingalið að spila

Leikjum hjá þremur Íslendingaliðum er ekki lokið í Sambandsdeildinni. Riga FC leiðir gegn Shkendija á útivelli. Axel Óskar Andrésson er ekki með vegna meiðsla.

Molde er 1-0 undir á útivelli gegn Servette. Molde leiðir samt 1-3. Björn Bergmann Sigurðarson er á varamannabekk Molde.

Loks er Hammarby 0-1 yfir gegn Maribor í Slóveníu. Jón Guðni Fjóluson er á sínum stað í vörn Hammarby sem leiðir einvígið 1-4.


Eyða Breyta
19:26
,,Algjör snilld!!!

Frækinn sigur Breiðabliks í þessu einvígi gegn Austria Vín. Virkilega vel gert í gegnum þessa tvo leiki. Gamla austurríska stóverldið lagt og framundan er einvígi gegn Aberdeen í næstu umferð!"
skrifaði Elvar Geir Magnússon sem textalýsti leiknum frá Kópavogsvelli.

Eyða Breyta
19:25
,,Breiðablik er að fá fullt af peningum," segir Kristinn Kjærnested sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport.

Eyða Breyta
19:16
BREIÐABLIK ER KOMIÐ Í 3. UMFERÐ SAMBANDSDEILDARINNAR!!!

Eyða Breyta
19:15
Lítið eftir í Kópavogi!

Einungis þrjár mínútur eftir af leik Breiðabliks og Austria. Koma svo Blikar!

Eyða Breyta
18:54
Ah - Austria Vín minnkar muninn
Viktor Örn Margeirsson með skelfileg mistök.

Gefur boltann beint á Fitz sem tekur hann í fyrsta og skorar með öflugu skoti. Mark á silfurfati frá Breiðabliki.

Staðan í einvíginu er 3-2 fyrir Blikum.

Eyða Breyta
18:53
Elfsborg og FC Kaupmannahöfn áfram - Vålerenga og AGF úr leik!
Fjögur Íslendingalið voru að ljúka seinni leikjum sínum í Sambandsdeildinni rétt í þessu.

Elfsborg valtaði yfir Milsami og var Hákon Rafn Valdimarsson á bekknum hjá Elfsborg. Lokatölur í kvöld urðu 0-5 og einvígið fór samanlagt 0-9 fyrir Elfsborg.

FC Kaupmannahöfn fer áfram eftir 9-1 samanlagðan sigur gegn Zhodino. Hákon Arnar Haraldsson lék síðasta korterið hjá FCK.

Vålerenga er úr leik þrátt fyrir 2-0 heimasigur gegn Gent. Viðar Örn Kjartansson lék ekki með Vålerenga. Gent vann fyrri leikinn 4-0.

AGF er þá mjög óvænt úr leik gegn norður-írska liðinu Larne. Larne vann fyrri leikinn 2-1 á heimavelli og lokatölur urðu 1-1 í Árósum. Jón Dagur Þorsteinsson fékk tvö gul spjöld í fyrri hálfleik og lék AGF síðustu 64 mínútrnar manni færri.



Eyða Breyta
18:48
FH úr leik í Sambandsdeildinni
Rosenborg vinnur 4-1 sigur á Lerkendal og FH er úr leik. Einvígið endar 6-1 samanlagt.

Eyða Breyta
18:42
Rosenborg skorar fjórða markið sitt
Varamaðurinn Emil Ceide skorar sitt annað mark og fjórða mark Rosenborgar. Hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn FH.

Eyða Breyta
18:40
Hákon Arnar kominn inn á

Hákon Arnar Haraldsson (2003) er kominn inn á hjá FCK. FCK er 0-4 yfir gegn Zhodino og leiðir einvígið 8-1 samanlagt. Fimm mínútur eru eftir af leiknum.


Eyða Breyta
18:38
FH gerir fjórar skiptingar

Oliver, Vuk Oskar, Ólafur og Logi Hrafn koma inn á fyrir Jónatan, Baldur Loga, Hörð Inga og Matta Villa.

Eyða Breyta
18:36
Häcken er úr leik - Oskar kom við sögu

Häcken vann 2-0 sigur gegn Aberdeen en tapar einvíginu samanlagt 3-5. Oskar Sverrisson spilaði síðasta korterið í leiknum fyrir Häcken en Valgeir Lunddal kom ekki við sögu.


Eyða Breyta
18:34
Guðmann minnkaði muninn en Rosenborg bætti aftur við

Guðmann Þórisson minnkaði muninn eftir undirbúning Steven Lennon á 74. mínútu en Emil Ceide skoraði þriðja mark Rosenborgar á 76. mínúut. Nú er 83. mínúta.

Eyða Breyta
18:26
Ef Breiðablik klárar þetta verkefni bíður Aberdeen í næstu umferð. Fyrri leikurinn í næstu viku. Skoska liðið vann Hacken frá Svíþjóð samtals 5-3 í einvígi sem var að ljúka.

Eyða Breyta
18:16
Breiðablik leiðir 2-0 í leikhléi!

Ef Breiðablik vinnur leikinn fer liðið áfram í 3. umferð Sambandsdeildarinnar.

Eyða Breyta
18:13
Vladan Djogatovic á láni til Magna (Staðfest)

Djogatovic mun leika með Magna út þetta tímabil. Hann var á láni hjá KA frá Grindavík fyrri hluta tímabilsins.


Eyða Breyta
18:10
Guðný Geirsdóttir aftur í Selfoss


Markvörðurinn Guðný Geirsdóttir hefur lokið lánsdvöl sinni hjá Selfossi og snýr aftur til Vestmannaeyja. Guðný spilaði tíu leiki fyrir Selfoss í sumar.

Eyða Breyta
18:09
Rosenborg komið í 2-0
Stefano Vecchia skoraði markið á 54. mínútu.

FH fékk á sig óbeina aukaspyrnu innan teigs, utarlega í teignum eftir að Pétur gaf á Gunnar Nielsen. Stutt sending og mark í samskeytin 2-0!

Eyða Breyta
17:57
Rosenborg komið yfir!
Rosenborg er komið í 1-0 á Lerkendal og í 3-0 samanlagt.

Dino Islamovic skoraði mark úr vítaspyrnu á 49, mínútu.


Eyða Breyta
17:56
Valur átti ekki séns í Bodö/Glimt. Heimamenn áttu fimmtán tilraunir að marki Valsara gegn tveimur tilraunum frá Val. Hannes Halldórsson varði sex skot í marki Vals sem tapaði þrátt fyrir það 3-0 gegn norsku meisturunum.


Eyða Breyta
17:55
Árni Vill kemur Blikum í 2-0 (3-1 samanlagt)!!!

ÞETTA ER HREINLEGA GEGGJAÐ!!! Annað flott mark og Austria Vín er komið í mikið vesen.

Gísli Eyjólfsson vann boltann og átti glæsilega sendingu á Kristin sem lagði boltann fyrir markið á Árna sem skoraði af stuttu færi.

Eyða Breyta
17:50
Bodö/Glimt er komið í 3-0

Valur fellur úr leik gegn Noregsmeisturunum sem vinna einvigíð afskaplega sannfærandi, 6-0.

Eyða Breyta
17:45
Hálfleikur á Lerkendal
Staðan er markalaus í viðureign Rosenborg og FH í hálfleik. Rosenborg leiðir einvígið 2-0 eftir fyrri leikinn.


Eyða Breyta
17:35
BLIKAR ERU KOMNIR YFIR!!!

BLIKAR HAFA NÁÐ FORYSTUNNI!!! GLÆSILEGA GERT!

Höskuldur flaug upp hægri vænginn og átti frábæra fyrirgjöf á Kristin Steindórsson sem var laus í teignum og stýrði boltanum faglega í markið!

Blikar hafa náð forystunni 2-1 í þessu einvígi!

Eyða Breyta
17:31
Þreföld skipting hjá Val
Það eru 12 mínútur eftir í Bodö.

Valur gerði þrefalda skiptingu á 64. mínútu. Guðmundur Andri, Kristinn Freyr og Christian Köhler komu inn á fyrir Hauk Pál, Arnór og Almar.

Eyða Breyta
17:31
Leikur hafinn í Kópavogi!
Það er búið að flauta leikinn á! Blikar sækja í átt að Sporthúsinu í fyrri hálfleik en það voru gestirnir sem hófu leikinn.

Eyða Breyta
17:28
Jón Dagur búinn að fá reisupassann

Jón Dagur Þorsteinsson er búinn að fá tvö gul spjöld og þar með rautt í leik AGF og Larne í Sambandsdeildinni. Larne leiðir einvígið 2-1 eftir fyrri leikinn í Norður-Írlandi. 31 mínúta er liðin af leiknum.

Eyða Breyta
17:21


Njarðvík er búið að fá Conner Rennison að láni frá Kórdrengjum. Conner er miðjumaður sem lék sjö leiki með Kórdrengjum í Lengjudeildinni í sumar.

Eyða Breyta
17:20
MARK!! Bodö/Glimt 2 - 0 Valur (5-0)

Brede Mathias Moe bætir við öðru og gerir endanlega út um vonir Valsara.



Eyða Breyta
17:12
Hákon Arnar á bekknum í Sambandsdeildinni

Hákon Arnar Haraldsson byrjar á bekknum í kvöld hjá FC Kaupmannahöfn. Danska liðið á útileik í Hvíta-Rússlandi gegn Torpedo BelAZ í Sambandsdeild UEFA.

Eyða Breyta
17:04
Síðari hálfleikur er hafinn - Bodö/Glimt 1 - 0 Valur (4-0)

Valsmenn byrja með boltann.

Eyða Breyta
17:00
Leikur hafinn! Rosenborg 0 - 0 FH.

Tekst FH-ingum að ná í góð úrslit á Lerkendal? Það kemur í ljós. Þeir áttu góða kafla í fyrri leiknum og allt hægt í þessu.

Eyða Breyta
16:59
Elvar Geir Magnússon á Kópavogsvelli:



Sautján gráðu hiti og léttskýjað. Algjörlega prýðilega aðstæður fyrir fótboltaleik. Í hátalarakerfinu er verið að spila þjóðhátíðarlag... eðlilega. Hálftími í leik.

Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu úr Kópavogi

Eyða Breyta
16:48
Hálfleikur - Bodö/Glimt 1 - 0 Valur (4-0)

Norsku meistararnir eru í góðri stöðu fyrir síðari hálfleikinn. Leiða með marki frá Ulrik Saltnes. Bodö/Glimt var nálægt því að bæta við öðru undir lok fyrri hálfleiks en Hannes Þór Halldórsson sá við þeim í markinu.

Sverrir Páll Hjaltested skoraði fyrir Val á 18. mínútu en var dæmdur rangstæður. Það hefði svo sannarlega hleypt lífi í þennan leik ef það hefði staðið.

Eyða Breyta
16:31
MARK! Bodö/Glimt 1 - 0 Valur (4-0)

Ulrik Saltnes kemur norska liðinu yfir eftir hornspyrnu. Valsmenn vilja fá dæmda aukaspyrnu en ekkert er dæmt.



Eyða Breyta
16:07
Byrjunarlið Breiðabliks það sama og í fyrri leiknum
17:30 Breiðablik - Austria Vín (1-1)



Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu frá leiknum

Eyða Breyta
16:00
LEIKUR HAFINN! Bodö/Glimt 0 - 0 Valur

Búið er að flauta til leiks í Bodö. Góð stemning á vellinum og sólin skín.

Eyða Breyta
15:54


Eyða Breyta
15:44
Ítalskir fjölmiðlar nú að segja frá því að Arnór Sigurðsson sé á leiðinni í læknisskoðun hjá Venezia á Ítalíu. Eitthvað sem við köllum gamlar fréttir hér á skrifstofu Fótbolta.net.

Eyða Breyta
15:38
Elvar Geir þakkar fyrir sig. Ég er að fara að halda í Kópavoginn þar sem ég textalýsi leik Breiðabliks og Austria Vín. Sæbjörn Steinke tekur við þessari textalýsingu og fylgir ykkur í gegnum leikina hjá Val og FH.

Eyða Breyta
15:35
Byrjunarlið FH í Þrándheimi
Ólafur Jóhannesson gerir eina breytingu frá fyrri leiknum. Vuk Oskar Dimitrijevic fær sér sæti á bekknum og inn kemur miðjumaðurinn Baldur Logi Guðlaugsson.

Varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson byrjar í hjarta varinnar hjá Rosenborg.

Leikurinn hefst 17:00.



Eyða Breyta
15:23
Verið að munda pennann í Grindavík. Bjarni Ólafur?


Eyða Breyta
15:04
17:00 Rosenborg - FH

Byrjunarliðin eru væntanleg eftir um hálftíma.

Eyða Breyta
15:00
Aðsent slúður


Kei Kamara leikmaður frá Sierra Leone og fyrrum leikmaður Norwich og Middlesbrough á Englandi var í samskiptum við tvö félög í Pepsi en því miður náðust samningar ekki þar sem tíminn er naumur. En vitað er af áhuga nokkurra liða fyrir næsta tímabil.

Kamara er 36 ára markaskorari sem hefur spilað í Bandaríkjunum frá 2015. Hann var síðast hjá Minnesota United en þar á undan hjá Colorado Rapids.

Ert þú með fréttaskot: [email protected]

Eyða Breyta
14:53


Eyða Breyta
14:51
16:00 Bodö/Glimt - Valur

Ef að Val tekst hið ómögulega og nær að snúa dæminu við í Bodö í dag þá mun liðið líklega mæta Prishtina frá Kosóvó í næstu umferð. Prishtina vann 4-1 sigur í fyrri leik sínum gegn Connah's Quay frá Wales.

Eitthvað sem segir mér að þetta verði Prishtina gegn Bodö/Glimt í næstu umferð...

Eyða Breyta
14:46



Eyða Breyta
14:40
Byrjunarlið Vals í Noregi: Heimir sópar út sóknarlínunni

Heimir Guðjónsson gerir fimm breytingar á byrjunarliði Vals frá byrjunarliðinu í fyrri leiknum gegn Bodö/Glimt. Hann sópar út sóknarlínunni og skiptir þar algjörlega um.

Patrick Pedersen er á bekknum og einnig Christian Köhler, Guðmundur Andri Tryggvason, Kristinn Freyr Sigurðsson og Kaj Leo í Bartalsstovu.

Inn koma Haukur Páll Sigurðsson, Almarr Ormarsson, Arnór Smárason, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Sverrir Páll Hjaltested.



Landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted er í liði Bodö/Glimt og er í byrjunarliðinu.

Eyða Breyta
14:31
Sammi að sjálfsögðu virkur á Gluggadeginum!



Eyða Breyta
14:20
Alvöru dómari í Valsleiknum

Valur heimsækir Bodö/Glimt eftir 0-3 tap í fyrri leiknum en þar verður ítalski dómarinn Paolo Valeri með flautuna. Valeri hefur mikla reynslu af því að dæma stóra leiki í ítölsku A-deildinni og þá hefur hann einnig dæmt í Meistaradeildinni.



Á meðfylgjandi mynd má sjá hann að störfum sem dómari í stórleik Juventus og AC Milan fyrr á þessu ári.

Eyða Breyta
13:47
Við eigum von á því að fá byrjunarlið Vals upp úr klukkan 14:30, tökum okkur smá hlé þangað til. Leikur Bodö/Glimt og Vals hefst klukkan 16:00.

Eyða Breyta
13:45
Hilmar Þór í KFG (Staðfest)


Hilmar Þór Hilmarsson hefur fengið félagaskipti í Garðabæjarliðið KFG sem er í öðru sæti 3. deildarinnar. Þessi hávaxni leikmaður hefur ekkert spilað í sumar en í fyrra lék hann 10 leiki með Kórdrengjum í 2. deildinni.

Eyða Breyta
13:34
Faxvélin í Fossveginum ísköld


Víkingar eru einu stigi frá toppsæti Pepsi Max-deildarinnar og talað um að þeir þurfi að styrkja sig fyrir lokasprettinn til að gera atlögu að þeim stóra.

Það hafa svo sannarlega verið þreifingar frá Víkingum í glugganum en þær hafa ekki skilað miklu og allt útlit fyrir að engin tilkynning berist úr Víkinni í dag samkvæmt njósnara okkar í sólinni þar.

Eyða Breyta
13:30
Sverrir Mar Smárason er kominn með leikheimild með Kormáki/Hvöt. Það heyrast þær sögur frá Blönduósi að Kormákur/Hvöt sé svo sannarlega ekki búið að loka skrifstofunni, það sé von á fleiri tíðindum... Við bíðum spennt. Þarna er Ástríðan!

Eyða Breyta
13:24
Fjarðabyggð fær spænskan sóknarmann (Staðfest)


Fjarðabyggð er í neðsta sæti 2. deildar, hefur ekki unnið leik og er með fimm stig. Það eru níu stig upp í öruggt sæti.

Heimir Þorsteinsson er þó ekki vanur því að játa sig sigraðan og hann hefur verið að fylla upp í leikmannahópinn. Í gær fékk félagið spænskan varnarmann og nú er spænskur sóknarmaður mættur austur.

Miguel Angel Escobedo Luna heitir sóknarmaðurinn. Kallaður Michu. Hinn eini sanni? Nei. Þessi er 23 ára og spilaði síðast í spænsku 5. deildinni.


Ekki þessi Michu.

Eyða Breyta
13:11
Allt með kyrrum kjörum í Frostaskjóli


Vorum að heyra frá útsendara okkar í Vesturbænum. Allt með kyrrum kjörum við Meistaravelli. Maggi Bö að slá grasið en annars er nákvæmlega ekkert í gangi. Ekki von á neinum fréttaskeytum frá Frostaskjólinu í dag.

Eyða Breyta
13:08
Lennon elskar Sambandsdeildina. Eins og við öll!


Eyða Breyta
12:32
50/50 leikur framundan í Kópavoginum


Það er mikil spenna fyrir leik Breiðabliks og Austria Vín sem flautaður verður á klukkan 17:30 á Kópavogsvelli. 1-1 enduðu leikar í Vínarborg og miðað við skoðanakönnun sem hefur verið á forsíðu þá má búast við mikilli spennu í kvöld!

Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér

Eyða Breyta
12:27
Telma Hjaltalín komin með leikheimild með FH


Telma Hjaltalín Þrastardóttir hefur fengið félagaskipti frá Stjörnunni yfir í FH. Telma, sem er 26 ára, hefur ekki spilað keppnisleik frá því 2018 en hún hefur verið gríðarlega óheppin með meiðsli.

Í vikunni var greint frá því að Telma hefur verið að æfa með FH.

"Ég er lengi búin að vera að hugleiða hvort ég ætti að taka slaginn aftur eða ekki, og það hefur reynst erfitt að sleppa takinu. Hins vegar hef ég ekki spilað fótbolta almennilega í þrjú ár þannig að ég veit ekkert hvernig hnéð bregst við þessu álagi," sagði Telma.

Eyða Breyta
12:15
Matti Villa á kunnuglegum slóðum


Þessi mynd var tekin á æfingu FH á Lerkendal vellinum í Þrándheimi í gær. Í dag klukkan 17:00 er seinni leikur FH-inga gegn Rosenborg í Sambandsdeildinni. Norska stórliðið vann 2-0 útisigur í Krikanum og er með öll spil á hendi. Eins og sjá má þá líður Matthíasi Vilhjálmssyni vel á Lerkendal, enda fyrrum leikmaður liðsins.

Eyða Breyta
12:05
Sara Dögg snýr aftur í Fylki


Sara Dögg Ásþórsdóttir hefur verið kölluð aftur í Fylki eftir lánsdvöl með Gróttu í Lengjudeildinni þar sem hún spilaði fimm leiki. Sara er fædd 2004 og spilaði einn leik í Pepsi Max-deildinni með Fylki áður en hún var lánuð.

Eyða Breyta
11:48
Vladan á leið í Magna


Markvörðurinn Vladan Dogatovic er á leið í Magna Grenivík. Þessi fyrrum markvörður Grindavíkur hefur verið varamarkvörður hjá KA í sumar en nú er Kristijan Jajalo að verða klár eftir meiðsli. Jajalo hefur æft af krafti undanfarna daga.

Magnamenn eru í sjötta sæti 2. deildarinnar eftir að hafa fallið naumlega úr Lengjudeildinni í fyrra.


Eyða Breyta
11:46
Grótta lánaði Agnar Guðjónsson í Þrótt Vogum í gær. Þróttarar eru í toppsæti 2. deildarinnar. Sjá nánar hérna.

Eyða Breyta
11:44
Spánverji á Grýluvöll (Staðfest)


Hamar í Hveragerði að styrkja sig. Basilio Jordán, 26 ára spænskur framherji, er búinn að fá leikheimild með Hamri. Hamar er í öðru sæti í B-riðli 4. deildar og ætlar sér upp um deild.

Eyða Breyta
11:38
Er einhver að vakta Leifsstöð?


Meðan leikmannamarkaðurinn hér á Íslandi býður ekki upp á mikið er möguleiki á því að íslensk félagslið muni fá sér einhverja erlenda leikmenn á gluggadeginum. Leigubílasaga um að KA gæti fengið sér erlendan leikmann í dag.

Fjölnismenn sóttu reynslumikinn enskan sóknarmann í glugganum, Michael Bakare, og hann hefur gert frábæra hluti fyrir liðið og hjálpað því að halda vonum um sæti í Pepsi Max-deildinni á lífi. Í gær skoraði hann sigurmarkið í sex stiga slag gegn Grindavík.



Ert þú með fréttaskot: [email protected]

Eyða Breyta
11:33
Ástríðan sameinast hjá Kormáki/Hvöt!


Umsjónarmenn Ástríðunnar verða einnig orðnir liðsfélagar í boltanum í dag! Fyrr í glugganum fór Gylfi Tryggvason í Kormák/Hvöt frá Elliða og nú er Sverrir Mar Smárason á leið frá ÍH í sama félag! Áhugavert.

Smelltu hér til að hllusta á síðasta þátt af Ástríðunni

Kormákur/Hvöt er í öðru sæti í D-riðli 4. deildarinnar en næsti leikur liðsins er gegn KB þann 7. ágúst á Domusnova-vellinum í Breiðholti.

Eyða Breyta
11:09
Öflugur gluggi hjá Kórdrengjum


Í Lengjudeildinni er óhætt að segja að Kórdrengir hafi haft í nægu að snúast en þeir bættu við sig leikmönnum til að taka þátt í baráttunni um að fá að vera með í Pepsi Max á næsta tímabilinni.

Alex Freyr Hilmarsson kom á láni frá KR og Axel Freyr Harðarson á láni frá Gróttu. Auk þess kom norski markvörðurinn Alexander Pedersen til að fylla skarðið sem Lukas Jensen skildi eftir sig.

Eyða Breyta
10:43
Valsmenn æfðu í morgunsárið í Noregi

Íslandsmeistarar Vals eru í Bodö í Noregi þar sem þeir mæta Noregsmeisturum Bodö/Glimt. Hlíðarendapiltar eru í erfiðri stöðu eftir 3-0 tap í fyrri leiknum. Seinni leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma.

Eyða Breyta
10:33
Fallbaráttuslagur í Lengjudeildinni í kvöld
19:15 Selfoss - Þróttur (JÁVERK-völlurinn)

Ekki lítið mikilvægur leikur í Lengjunni í kvöld! Þróttur, sem er í 11. sæti, fallsæti, heimsækir Selfoss sem er sæti ofar. Það munar fimm stigum á þessum liðum og munurinn verður átta ef Selfoss vinnur í kvöld.

Þróttarar gætu verið komnir langleiðina niður í 2. deild eftir kvöldið.



Þróttur fékk inn varnarmann í gær, Teitur Magnússon er kominn aftur í Þróttarabúninginn en hann kemur á lánssamningi frá FH.

Eyða Breyta
10:23
Stærstu fiskarnir í sumarglugganum


Tveir úr gullkynslóð íslenska landsliðsins sömdu við Pepsi Max-deildarlið í þessum sumarglugga sem senn verður lokaður. Theodór Elmar Bjarnason gekk í raðir KR og er búinn að spila nokkra leiki. Þá mætti Ragnar Sigurðsson heim í Árbæinn en hann mun fara af stað með Fylkismönnum núna í komandi ágústmánuði.

Fylkismenn fengu einnig sóknarmanninn Guðmund Stein Hafsteinsson svo segja má að menn hafi verið duglegir á skrifstofunni í Lautinni.

Eyða Breyta
10:19
Arnór á leið í ítölsku A-deildina


Þrátt fyrir að þessar fréttir tengist íslenska gluggadeginum ekki neitt þá datt inn skúbb frá Brynjari Inga Erlusyni hér á Fótbolta.net rétt eftir miðnætti. Arnór Sigurðsson landsliðsmaður er á leið til Venezia í ítölsku A-deildinni á lánssamningi frá CSKA Moskvu.

Lestu nánar um það hérna

Eyða Breyta
10:12
Jakob Snær í KA (Staðfest)


Við vorum að fá tíðindi frá Akureyri. Jakob Snær Árnason 24 ára miðjumaður Þórs er kominn hinumegin við lækinn og genginn í raðir KA í Pepsi Max-deildinni. Orri Freyr Hjaltalín þjálfari Þórs sagði í vikunni að Jakob væri líklega á förum.

Jakob lék sinn fyrsta leik fyrir Þór árið 2015 og hefur verið lykilmaður síðustu þrjú tímabil. Hann hefur skorað tvö mörk í deildinni á þessari leiktíð og skoraði annað mark liðsins í 2-1 sigri á Grindavík í Mjólkurbikarnum.

Uppfært: Jakob hefur fengið félagaskipti sín staðfest á heimasíðu KSÍ.

Ert þú með fréttaskot: [email protected]

Eyða Breyta
10:01
Rosalega rólegur gluggadagur framundan???

Mínir allra helstu sérfræðingar í félagaskiptamálum telja að það sé ákaflega rólegur gluggadagur framundan. Leikmannamarkaðurinn á Íslandi er lítill sem enginn og ekki útlit fyrir nein stór tíðindi í dag. En við höldum í vonina um að eitthvað óvænt gerist.

Kannski þarf maður að vera duglegur fyrir framan kaffivélina til að halda sér vakandi. Hér á skrifstofu Fótbolta.net búum við svo vel að hafa Starbucks kaffihús. Það eina sinnar tegundar hér á landi.

Eyða Breyta
09:50
GÓÐAN OG GLEÐILEGAN! Það viðrar vel til félagaskipta!

Velkomin með okkur í Boltadag í beinni þar sem við fylgjumst með öllu því helsta sem á sér stað yfir daginn í textalýsingu.

Í dag er Gluggadagur, síðasti dagur félagaskipta hér á Íslandi. Frá og með 30. júlí eru öll félagaskipti, innanlands og til landsins, óheimil. Fullfrágengin félagaskipti þurfa að hafa borist skrifstofu KSÍ fyrir miðnætti.

Svo er líka Sambandsdeildardagur og við munum fylgjast með leikjum Vals og FH sem bæði spila í Noregi. Það er brekka hjá þeim og margir búnir að stimpla liðin úr leik. En við höldum í vonina enda rætast draumarnir í Sambandsdeildinni!

16:00 Bodö/Glimt - Valur (Eftir fyrri leik: 3-0)
17:00 Rosenborg - FH (Eftir fyrri leik: 2-0)



Eyða Breyta
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner