Athlone Town
Írlandsmeistarar í U15 og elsta knattspyrnufélag á Írlandi. Þetta hljómar eins og uppskrift að bjartri framtíð byggðri á sterkum sögulegum grunni. Athlone Town Football Club verða andstæðingar Galway United í fyrsta leik tímabilsins, nánar tiltekið þann 23. febrúar 2018. Leikurinn ætti ekki að vekja mikla athygli á Íslandi en leikurinn verður sögulegur.
Athlone Town FC var stofnað árið 1887 og er staðsett í bænum Athlone í miðju Írlandi, mitt á milli Dublin og Galway. Í bænum búa u.þ.b. 22.000 manns. Félagið spilar í næst efstu deild Írlands. Á Írlandi eru reyndar einingis tvær deildir og félagið er í þeirri neðri. Skuggi hvílir nú yfir félaginu sem er í mikilli krísu vegna veðmálaskandals. Svo virðist sem alþjóðlegir glæpamenn hafi nýtt sér veika stöðu félagsins og írskrar knattspyrnu til að hagnast fjárhagslega á veðmálum.
Írska þjóðin er einfaldlega ekki mikil knattspyrnuþjóð. Knattspyrna er alls ekki vinsælasta íþróttin á landinu. Hún er í besta falli fjórða vinsælasta íþróttin á eftir íþróttinni hurling, sem er einhvers konar hokkí á grasi. Í þeirri íþrótt geta liðin skorað þrjú mörk fyrir að skjóta inn í markið og eitt mark fyrir að skjóta yfir markið. Gelískur fótbolti, er einnig töluvert vinsælli en knattspyrna. Gelískur fótbolti er einhvers konar rúbbý handbolta-fótbolti þar sem liðin geta skorað þrjú mörk með að koma boltanum í markið og eitt stig fyrir að skjóta yfir það. Í þeirri íþrótt mega leikmenn grípa boltann en geta ekki hlaupið með hann nema að sparka eða drippla boltanum. Þriðja íþróttin sem er vinsælli en knattspyrna er svo venjulegt rúbbý.
Mataræði Íra er einnig stórmerkilegt. Krakkar taka með sér nammi og snakk í nesti í skólana. Barnaskólana.
Punkturinn sem ég er að koma með er þessi: Grunnurinn fyrir afreksknattspyrnu á Írlandi er nánast enginn. Aðal íþróttamennirnir velja ekki knattspyrnu og þeir sem gætu orðið góðir eru aldir upp í umhverfi sem býður ekki upp á framúrskarandi árangur. Þeir fáu sem svo ætla sér að geta eitthvað í knattspyrnu verða að flýja land eins fljótt og mögulegt er. Flestir efnilegir knattspyrnumenn fara til Englands.
Það lýsir stöðunni ágætlega að deildirnar eru einungis tvær. Þið getið þá væntanlega ímyndað ykkur hvernig írska efri deildin er. Hún er einfaldlega ekki góð, heilt yfir. Ég get þá varla ímyndað mér hvernig gæðastandardinn á neðri deildinni. Hún er væntanlega hræðileg. Þetta fær maður að sjá þann 23. febrúar 2018.
Þessi lági gæðastandard felur líka í sér ákveðin tækifæri. Setji maður fjármagn í klúbb hér gæti maður fljótt skapað stórveldi írskrar knattspyrnu. Það ætti líka að vera auðvelt að fá leikmenn í lið á Írlandi því írskur fótbolti er frábær gluggi til að komast til Englands. Stjórnarmeðlimir Athlone Town hafa væntanlega horft á þetta þegar þeir hleyptu erlendu fjármagni inn í klúbbinn fyrir um ári síðan.
Við munum væntanlega öll eftir Grindavíkurmálinu þar sem erlendir fjárfestar lofuðu að dæla fjármagni inn í klúbbinn gegn því að þeir fengu að bæta liðið með því að koma með sína leikmenn. Þessu var neitað á þeim grundvelli að þetta þótti grunsamlegt og bjóða jafnvel upp á „match fixing“.
Stjórnarmenn Athlone Town FC féllu hins vegar á prófinu og hleyptu fjármagni inn í klúbbinn. Það sem gerir þetta mál strax grunsamlegt er að aldrei hefur verið gefið upp hverjir það eru sem komu með fjármagnið inn í félagið. Í kjölfarið bættust við leikmannahópinn markmaður frá Lettlandi, Igors Labuts að nafni. Hann hefur að verið á flakki á milli klúbba, en virtist styrkja klúbbinn því hann er fyrrum unglingalandsliðsmaður Lettlands. Markmenn á Írlandi eru ekki sterkustu markmenn í heimi, vægast sagt. Annar leikmaður kom frá Rúmeníu, miðjumaðurinn Dragos Sfrijan. Fleiri bættust við en þeir félagar Igors og Dragos eru miðpunktur framhaldsins.
Athlone Town FC var neðsta liðið í deildinni í fyrra, sem sagt neðstir í neðstu deild. Lélegir. Það hefðu þannig ekki þótt sérstaklega athyglisverð úrslit að liðið tapaði fyrir Longford Town FC, 3-1, þann 29. apríl fyrr á þessu ári. Það sem þótti merkilegt við leikinn var að veðjað var á leikinn fyrir um 400.000 evrur á asískum mörkuðum og svo virtist ljóst hver úrslitin áttu að verða. Longford átti að vinna. Rannsókn fór fram og til að gera langa sögu stutta er búið að dæma þá félaga Igors og Dragos í 12 mánaða bann fyrir að hafa brotið reglur írska knattspyrnusambandsins. Það þótti sannað að þeir hafi svindlað. Hagsmunasamband leikmanna hér í landi stendur þó þétt við bakið á þeim Igors og Dragos. Leikmannasambandið telur að þeir hafi verið dæmdir á veikum grunni. Málið er nú rekið fyrir almennum dómstólum þar sem þeir félagar telja að bannið brjóti á rétti þeirra til atvinnu og vilja ví fá banninu hnekkt. Nýjasta krafa þeirra í málinu var að írska knattspyrnusambandið fái ekki að bæta við gögnum í málinu. Spurningin er hvort saklaus maður myndi neita því að bæta við gögnum í máli gegn honum. Þetta mál mun væntanlega þróast eitthvað á næstu vikum og mánuðum.
Sjálfum finnst mér alltaf merkilegt þegar knattspyrnusambönd státa sig af því að dæma einstaka leikmenn í bann fyrir svona atvik, þegar þeir eru bara peð í miklu stærra tafli. Það að refsa einstaklingum í þessum tilvikum leysir ekki vandann. Auðvitað á að refsa þeim ef brotið er sannað en svona bann segir ekki neitt þegar ekki er ráðist að rót vandans. Þar þarf alþjóðlegt samstarf marga aðila að koma til.
Eftir þetta mál stendur elsta félag Írlands í rúst. Rétt um 100 manns mættu á leiki hjá þeim á síðasta tímabili. Mikil óánægja er með stöðu félagsins og búist er við því að félagið leggi upp laupana, jafnvel á næstu vikum eða mánuðum. Skoði maður fjölda „like-a“ á facebook síðum blasir staðan við, opinbera síða félagsins er ekki þriðjungur af óopinberum síðum með nafni félagsins. Síður gagnrýnar á stöðuna eru mun öflugri. Á þeim síðum má lesa mikið um hvernig þetta lítur út fyrir almennum stuðningsmanni. Við blasir ömurlegt mál sem er að rústa klúbbnum.
Jafnframt stendur eftir spurningin hvernig leikmannahópurinn verður hjá þeim á næsta tímabili. Kannski þarf hluti af U15 ára liðinustrax að taka við keflinu. Allt eins getur þetta farið svo að Athlone Town verði með fullt af nýjum leikmönnum sem erlendu fjárfestarnir koma með til félagsins. Þeir eru væntanlega nú þegar búnir að fá upphaflega fjárfestingu sína til baka. Hvernig sem þetta verður er ljóst að allir leikir félagsins verða undir smásjá margra aðila á næsta tímabili.
Jafnframt er víst að leikurinn þann 23. febrúar 2018, kl. 19.45. Hér í Galway á Írlandi. Verður áhugaverður... þið finnið ódýrt flug.
Sigurjón Unnar Sveinsson,
Galway Írlandi
Athugasemdir