Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
   fös 30. september 2016 12:35
Þór Símon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Sestu niður Rooney! - Upphitun fyrir enska
Þór Símon
Þór Símon
Er Rooney útbrunnin?
Er Rooney útbrunnin?
Mynd: Getty Images
Landsleikjahlé er framundan en fyrst fáum við eitt stykki umferð í enska boltanum. Besta sóknin mætir bestu vörninni og Rooney ætti áfram að sitja bara sem fastast á bekknum.

Manchester United & Wayne Rooney
Takk. Fyrir. Mig. 

Loksins fékk ég að sjá Manchester United lið sem spilaði með ákafa og ákveðni. 4-1 sigurinn á ensku meisturunum í Leicester var gullfallegur og minnti mann á hvaða klúbb ég var að horfa á spila. Það var kominn tími á þessa áminningu.

Pogba gaf okkur loksins eitthvað til að kjammsa á, Mata var frábær, Herrera líka og Rashford nýtti tækifærið sitt enn og aftur. Það var bara allt eins og það á að vera.

Nema það var eitthvað öðruvísi við liðið. Rooney byrjaði á bekknum í einungis þriðja skiptið í síðustu 119 leikjum Manchester United.

Ég held að það sé enginn tilviljun að Manchester United hafi spilað sinn besta fótbolta í langan tíma um leið og Wayne Rooney var plantað á bekkinn. Rooney er búinn. Útbrunnin satt að segja.
 
Hann er skugginn af það sem hann áður var. Hvað veldur þessu veit ég ekki en ég veit bara að honum hefur verið troðið í margar mismunandi stöður á vellinum og alltaf, nánast án undantekninga, á kostnað manns sem er betri í þeirri stöðu. Þetta er komið gott. Það sást mjög vel um síðustu helgi.

Ekki setja hann aftur í liðið um helgina Móri. Plís.

Leicester City
Ensku meistararnir hafa byrjað þetta mót virkilega illa. 8-2 tap samanlagt gegn Liverpool og Manchester United er ekki enskum meistara sæmandi en á hin bóginn er Leicester ekki hin týpíski enski meistari.

Eins og ég hef sagt áður þá veit ég ekkert við hverju maður á að búast við af Leicester í ár. Ég held að það eina sem stuðningsmenn vilja er að hafa gaman og njóta augnabliksins. Tvö 4-1 töp er ekki eitthvað sem stuðningsmenn njóta en aftur á móti þá hefur Leicester komið af miklum krafti inn í Meistaradeildina. 

Hollywood mun líklega krossa fingur á næstu mánuðum og vona að annað ævintýri sé í vændum þar. Það væri efni í alvöru framhaldsmynd.
En að öllu gamni slepptu þá verður Leicester að rífa sig í gang í deildinni. 

Claudio Ranieri hefur talað um að léleg einbeiting hafi orðið þeim að falli í deildinni það sem af er. Það er eitthvað sem þarf að lagast sem fyrst. Leicester er nú þegar búið að tapa jafn mörgum leikjum og á öllu síðasta tímabili.

Tottenham
Eftir skelfilegan endi á síðasta tímabili hefur Pochettino aftur fundið taktinn með Tottenham. Það sem gerði Tottenham svo frábært á síðasta tímabili, eða…þ.e.a.s. fram að síðustu metrunum, var vörnin. 

Liðið hefur einungis fengið á sig þrjú mörk það sem af er og á sama tíma er Song Heung Min gjörsamlega að pakka saman vörnum andstæðingana með fjögur mörk eftir þrjá leiki. Jafn mörg og hann skoraði í 28 úrvalsdeildarleikjum á síðustu leiktíð. 

Um helgina kemur þó stærsta prófraunin það sem af er tímabili. Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City mæta í heimsókn á White Hart Lane. Besta sókn deildarinnar gegn bestu vörninni. 

Hljómar eins og fullkominn sunnudagur. Stál í stál. Alveg eins og við viljum það.

Manchester City
Hverjum hefði dottið í hug að Celtic undir stjórn Brendan Rodgers yrði fyrsta liðið sem myndi ná að stöðva Manchester City á þessu tímabili? Ekki mér allavega. 3-3 jafnteflið var gjörsamlega bilaður leikur og minnti okkur á að þrátt fyrir snilli Guardiola er þetta City lið ekki fullmótað. Einnig er það núna fullljóst að Kolarov er alls enginn miðvörður. 

Slys geta enn gerst og það verður spennandi að sjá hvernig bestu sókn deildarinnar mun ganga gegn bestu vörninni. Sérstaklega þegar besta sóknin mun ekki geta teflt fram sínum besta sóknarmanni, Kevin De Bruyne. 

En þegar þú ert með Aguero, David Silva, Fernandinho og Raheem Sterling í liðinu þínu þá er kannski enginn ástæða til að kvarta. Ég allavega efast um að Pep hafi áhuga á einhverjum afsökunum. 

Það þýðir samt ekkert að fá á sig þrjú mörk gegn sterkri vörn Tottenham.

Arsenal
Arsenal er svo mikið rússíbana lið. Eftir fyrsta leik bölvuðu stuðningsmenn öllu í sand og ösku. Það var bókstaflega allt ömurlegt en nú nokkrum vikum síðar er grasið orðið ansi grænt á Arsenal bakkanum. 

Sigur liðsins á Chelsea var frábær. Eiginlega jafn frábær og Chelsea var ömurlegt. Liðið færði boltann hratt og örugglega fram og til baka og aldraðir varnarmenn Chelsea sáu aldrei til sólar. Meir að segja Walcott er að spila vel. Ekki bara sóknarlega heldur er hann að verjast líka. Ég veit! Fáránlegt! Lygilegt!

En við höfum séð svipaða hluti áður. Arsenal á það til að taka frábæra spretti en missa svo að lokum dampinn þegar pressan eykst. Wenger verður að koma í veg fyrir það í ár. Sigur á Burnley myndi allavega senda liðið skælbrosandi í landsleikjahlé. 

Gamla góða klisjan: Einn leikur í einu.

Swansea
Það síðasta sem mig langar að sjá er íslendingur í fallbaráttu og þess háttar ströggli. Jói Berg og félagar í Burnley eru líklega að fara að heyja þá baráttu í vetur og það finnst mér alveg nóg. Það er allavega algjör óþarfi fyrir Swansea að fara að blanda sér í hana líka.

En sem stendur stefnir allt í einmitt það. Fjögur töp í síðustu fimm leikjum og af næstu fimm leikjum liðsins eru þrír gegn “stóru strákunum,” betur þekktir sem Liverpool, Arsenal og Manchester United.

Vonandi réttir liðið úr kútnum og sleppur við fallbaráttuna í vetur. Gylfi og félagar þurfa að gera það fljótlega. Strax um helgina væri góð byrjun er ein besta sókn deildarinnar, Liverpool, mætir í heimsókn.

Chelsea
Fyrir nokkrum vikum virtist Antonio Conte vera einhverskonar töfralausn fyrir Chelsea. Hann hóf tímabilið með þremur sigrum í röð og einu jafntefli í fjórum fyrstu leikjum sínum með félaginu. En eins og með West Ham á síðasta tímabili, áttum við kannski að sjá að húsið var byggt á sandi en ekki föstu bjargi.

Í þessum fjórum leikjum skoraði Chelsea níu mörk og af þeim komu fimm á síðustu 10 mínútum leikjanna. Það er fátt skemmtilegra en að skora sigur- eða jöfnunarmark á lokamínútum leikja en það er ekki eitthvað sem hægt er að reiða sig á til lengdar. 

Þó svo að Diego Costa sé alveg helvíti góður og sé að spila vel er ekki hægt að fara langt á því einu og sér. Við skulum vera alveg hreinskilin. Vörn Chelsea er í tómu tjóni. Afhverju Ivanovic er enn að spila í hægri bakverði er mér algjörlega fyrirmunað að skilja. Gary Cahill? David Luiz? Jesús kristur. 

Courtois, Kante, Fabregas og jafnvel Hazard virðast varla nenna að vera þarna. Það er eitthvað rotið í Chelsea og það er farið að lykta ansi illa.
 
En Conte er góður þjálfari. Hann hefur margsannað það. Nú þarf hann að sanna það enn og aftur. Ég get varla ímyndað mér mikið erfiðara verkefni.

Middlesbrough
Eftir þrjár fyrstu umferðirnar í deildinni hafði Middlesbrough byrjað vel og var með fimm stig sem verður að teljast ansi fín byrjun fyrir nýliða. Núna þremur leikjum síðar er liðið hinsvegar enn með fimm stig. Þrjú töp hafa skellt liðinu aftur á jörðina.

Það er þó gullið tækifæri um helgina að koma sér aftur í gang. Heimsókn á nýjan heimavöll West Ham, liðs sem hefur fengið á sig 14 mörk í síðustu fjóru leikjum.

Yfir til þín Negredo.

Sunderland
Það er rosalegur fallbragur á Sunderland þrátt fyrir að mótið sé rétt að byrja. Þegar þú ert 2-0 yfir á heimavelli gegn Crystal Palace og missir það á endanum í 2-3 tap á loka andartökum leiksins þá veistu að þú ert í vandræðum.

Sérstaklega þegar þú ert þá að stimpla þig á botninum með einungis eitt stig af 18 mögulegum.

Christian Benteke
Það var líklega slegið upp í veislu hjá mörgum Poolurum er í ljós kom að Klopp og félagar fengu til baka allar 35 milljónirnar sem þeir eyddu fyrir rétt rúmu ári í Christian Benteke frá Crystal Palace.
Benteke passaði aldrei í lið Liverpool og var hreint út sagt skelfilegur, að einni hjólhestaspyrnu á Old Trafford undanskyldri. En þó svo að Liverpool hafi ekki getað notað hann var ástæða fyrir því að liðið borgaði allan þennan pening til að byrja með.
 
Því þó svo að framistaða hans hjá Liverpool hafi verið hrikaleg er Benteke alls ekki slæmur leikmaður. Crystal Palace sárvantaði hann og honum vantaði ferska byrjun. Þetta er hið fullkomna par.

Ég get varla lýst því hversu nauðsynlegt það var fyrir Crystal Palace að næla sér í framherja. Markahæsti framherji Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili var Connor Wickham með fimm mörk. Næstur á eftir honum kom Dwight Gayle með þrjú mörk. Til samanburðar skoruðu tveir markahæstu framherjar eins lélegasta úrvalsdeildarinnar í manna minnum, Aston Villa, sex og fimm mörk á síðasta tímabili. 

Christian Benteke er nú þegar búinn að skora tvö mörk og eitthvað segir mér að hann sé rétt að byrja. 

West Ham
Á síðasta ári sá ég myndband á YouTube þar sem tölfræði nörd sem kallar  sig “Messi minutes” var að útskýra afhverju West Ham væri ekki jafn gott og það virtist vera. Þegar hann sagði þetta sat West Ham í þriðja sæti deildarinnar eftir 10 umferðir með 20 stig.

Mér fannst hann koma með áhugaverðar pælingar og hlakkaði til að fylgjast með West Ham á komandi vikum. Vikur og mánuðir liðu og West Ham hélt áfram að spila glimmrandi fótbolta þannig að þetta myndband var ekki lengi að gleymast. Þess í stað stökk ég bara um borð í bátinn og lofsöng West Ham og Slaven Bilic við hvert tækifæri eins og allir hinir.

En þessi skelfilega byrjun liðsins á tímabilinu, með betri hóp ef eitthvað er og fyrir ári síðan, minnti mig aftur á þetta myndband.

Það er einungis fyrir tölfræði nörda dauðans en miðað við það sem fram kemur í myndbandinu og það sem við höfum séð á þessu tímabili er útlitið alls ekki bjart fyrir West Ham. Lukkan er allavega ekki lengur með liðinu. Það er alveg á hreinu.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner