„Á þessu tímabili er hann búinn að vera okkar aðalmaður," segir Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Rosenborg, um liðsfélaga sinn, Sverre Halseth Nypan, sem 16 ára miðjumaður norska stórveldisins.
Nypan var kynntur til leiks í nýjasta hlaðvarpsþætti Ungstirnanna sem kom út í dag en Ungstirnin kynna hlustendum fyrir efnilegum leikmönnum sem hafa hæfileikana til að verða næstu stórstjörnur fótboltans. Það var haft samband við Ísak Snæ sem gaf þáttastjórnendum góða skýrslu um hvernig leikmaður Nypan er.
„Maður gleymir því stundum að Sverre er aðeins 16 ára gamall, hann er alveg rosalega seigur. Hann byrjaði á því að vinna sig inn í liðið undir lok síðasta tímabils, þá aðeins 15 ára. Og á þessu tímabili er hann búinn að vera okkar aðalmaður, hann er kominn með þrjú mörk fyrir okkur og eina stoðsendingu en hann er allt í öllu; býr til öll færin og er afar öflugur varnarlega líka, skemmir ekki fyrir hann hættir ekki að hlaupa inn á vellinum."
Ísak segir að hann minni sig á Andres Iniesta sem leikmann, hvorki meira né minna.
„Ég myndi kannski ekki segja að hann sé svona Ödegaard týpa á boltanum, svona rosalega teknískur en hann er samt stanslaust að labba fram hjá leikmönnum. Fyrsti leikmaður sem kemur upp í hausinn þegar ég líki honum við einhvern er Andres Iniesta, hann bara tapar ekki boltanum. Svo er hann bara rosalega auðmjúkur strákur miðað við að stærstu félög í heimi séu á eftir honum. Þetta er nafn sem má ekki gleymast. Hann myndi standa sig í hvaða landi sem er, ég er nokkuð viss um það."
Ísak talar um að stærstu félög heims séu á eftir honum, hvaða félög?
„Ég hef heyrt einhverjar sögur um Arsenal, Manchester United, Manchester City, Barcelona og Real Madrid. Ég spurði hann í sumar hvort hann væri á förum en hann sagðist ætla einbeita sér að því að klára skólann áður en hann skoðar sig um," sagði Ísak svo léttur.
Athugasemdir