Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   fös 31. janúar 2014 22:54
Elvar Geir Magnússon
Reykjavíkurmótið: Ragnar með þrennu í stórsigri Vals
Valur fylgir Fylki í undanúrslitin
Bjarni Ólafur lagði upp fyrsta mark leiksins á glæsilegan hátt.
Bjarni Ólafur lagði upp fyrsta mark leiksins á glæsilegan hátt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 5 - 0 Þróttur
1-0 Ragnar Þór Gunnarsson (' 26)
2-0 Kristinn Ingi Halldórsson (' 36)
3-0 Magnús Már Lúðvíksson (' 42)
4-0 Ragnar Þór Gunnarsson (' 70)
5-0 Ragnar Þór Gunnarsson (' 81)

Síðasta leik B-riðils Reykjavíkurmótsins, leik Vals og Þróttar, var að ljúka. Fyrir leik var ljóst að Valur þyrfti að vinna leikinn til að enda í öðru sæti riðilsins og fylgja Fylki í undanúrslit keppninnar.

Þróttarar hafa mikið verið í fréttunum undanfarna daga eftir að þeir tefldu vísvitandi fram ólöglegu liði í síðasta leik til að prófa leikmenn . Þeir voru hinsvegar með löglegt lið í kvöld.

Kristinn Ingi Halldórsson átti fyrstu marktilraun leiksins fyrir Val, átti fínt skot sem fór naumlega framhjá.

Valsmenn voru mun meira með boltann á meðan Þróttara lágu til baka. Sóknir Vals skiluðu árangri á 26. mínútu þegar hinn ungi Ragnar Þór Gunnarsson skoraði en hann hefur verið sjóðheitur upp við mark andstæðingana á undirbúningstímabilinu. Bjarni Ólafur Eiríksson verður að fá hrós en hann sýndi frábær tilþrif þegar hann lagði markið upp.

Fimm mínútum síðar komust Þróttarar nálægt því að jafna en Ingólfur Sigurðsson, fyrrum leikmaður Vals, átti þá aukaspyrnu sem fór naumlega yfir.

Valsmenn héldu þó áfram að stjórna ferðinni og Kristinn Ingi skoraði af stuttu færi á 36. mínútu og kom Valsmönnum tveimur mörkum yfir. Kristinn kom í vetur frá Fram. Bakvörðurinn Magnús Már Lúðvíksson átti lokaorðið fyrir hálfleik þegar hann skoraði laglega beint úr aukaspyrnu og staðan 3-0 fyrir Val í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn hófst eins og þeim fyrri lauk. Valsmenn áttu hættulegar sóknir og meðal annars bjargaði sláin Þrótturum.

Valsmenn skoruðu sitt fjórða mark á 70. mínútu þegar Ragnar Þór skoraði öðru sinni, að þessu sinni eftir langa sendingu en hann skallaði boltann yfir Trausta Sigurbjörnsson í marki Þróttar.

Á 81. mínútu innsiglaði Ragnar Þór þrennu sína. Bjarni Ólafur átti baneitraða sendingu á Ragnar sem fór framhjá varnarmanni og þrumaði svo knettinum í netið. Úrslitin 5-0.
Athugasemdir
banner