Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   lau 11. nóvember 2017 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Raggi: Miklar kröfur á að ná árangri
Sigurður Ragnar er tekinn við kínverska kvennalandsliðinu.
Sigurður Ragnar er tekinn við kínverska kvennalandsliðinu.
Mynd: Sigurður Ragnar Eyjólfsson
,,Ég varð strax spenntur þegar þeir höfðu samband enda starfið gríðarlega spennandi
,,Ég varð strax spenntur þegar þeir höfðu samband enda starfið gríðarlega spennandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Leikmennirnir og félagið er frábært og ég mun sakna þeirra
,,Leikmennirnir og félagið er frábært og ég mun sakna þeirra
Mynd: Sigurður Ragnar Eyjólfsson
„Þeir leituðu til mín og báðu mig að taka við landsliðinu," segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, nýráðinn landsliðsþjálfari kínverska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net.

Í gær var sagt frá því að Sigurður hefði skrifað undir þriggja ára samning við kínverska knattspyrnusambandið.

Hann lætur af störfum hjá kvennaliði Jiangsu Suning eftir að hafa stýrt liðinu í þriðja sæti kínversku úrvalsdeildarinnar. Þá gerði hann liðið einnig að bikarmeisturum.

Þetta er gríðarlega víðamikið starf, en Sigurður segist strax hafa orðið spenntur þegar knattspyrnusamband Kína hafði samband.

„Ég varð strax spenntur þegar þeir höfðu samband enda starfið gríðarlega spennandi," segir hann.

„Kína er í 13. sæti á heimslistanum og stóru markmiðin okkar eru að koma liðinu í lokakeppni HM í Frakklandi 2019 og á Ólympíuleikana í Tókýó 2020."

Miklu meira saman en flest landslið
Kínverska landsliðið er saman 160-200 daga á ári og er því meira saman en flest önnur landslið.

„Umgjörðin hjá okkur verður þannig að ég verð með c.a. 14 manna teymi sem ég stýri. Liðið verður 160-200 daga saman á næsta ári svo við verðum miklu meira saman en flest landslið. Við munum fara í margar æfingaferðir erlendis og eigum að geta verið með frábæra umgjörð," segir Sigurður.

„Stuðningur kínverska knattspyrnusambandsins við liðið er mikill en jafnframt miklar kröfur á að ná árangri."

En hvernig er umgjörðin til að mynda í samanburði við umgjörðina hjá íslenska kvennalandsliðinu?

„Við munum spila mun fleiri leiki og ferðast meira og vera miklu meira saman en íslenska landsliðið."

„Umgjörð íslenska kvennalandsliðsins er mjög góð og sumt þar er í fremstu röð. Vonandi tekst okkur að búa til frábæra umgjörð líka hjá Kína, það er eitt af markmiðunum."

Mjög erfitt að kveðja Jiangsu
Sigurður Ragnar tók við Jiangsu Suning í kínversku kvennadeildinni í byrjun árs og náði þar mjög góðum og eftirtektarverðum árangri með Daða Rafnsson sér við hlið.

Hann segir að það hafi verið mjög erfitt að kveðja Jiangsu.

„Já, það var það. Leikmennirnir og félagið er frábært og ég mun sakna þeirra," sagði Sigurður.

Siggi Raggi var ekki að leita sér að öðru liði. Hann var á góðum samningi hjá Jiangsu og var ánægður í starfi. Hann gat hins vegar ekki sagt nei við kínverska landsliðið.

Hann segist ekki hafa heyrt í öðrum liðum.

„Ég var ekki að leita að öðrum kostum enda átti ég eitt ár eftir af samningnum mínum og var mjög ánægður í starfi og með mjög góðan samning," sagði hann að lokum.

Sigurður Ragnar stýrir landsliði Kína í fyrsta sinn í vináttulandsleikjum gegn Ástralíu, síðar í þessum mánuði.

Sjá einnig:
Siggi Raggi í Kína: Árangurinn framar vonum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner