Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 04. maí 2011 08:30
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þeir bestu á Ítalíu í vetur
Björn Már Ólafsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Edinson Cavani.
Edinson Cavani.
Mynd: Getty Images
Milos Krasic.
Milos Krasic.
Mynd: Getty Images
Hernanes.
Hernanes.
Mynd: Getty Images
Javier Pastore.
Javier Pastore.
Mynd: Getty Images
Á hverju ári koma fram nýjar stjörnur í hverri deild og er sú ítalska engin undantekning þar á. Bæði taka áður óþekktir leikmenn stórt stökk í getu en einnig kemur það fyrir að óþekktir leikmenn eru keyptir úr lakari liðum sem reynast vera faldir gullmolar.

Edinson Cavani – Napoli
Cavani þarf varla að kynna til sögunnar en framistaða hans á HM 2010 er öllum kunn. Hann var síðasta sumar keyptur til Napoli frá Palermo, en hjá Palermo hafði ekki ræst úr honum eins mikið og búist var við. Hann skoraði mjög óreglulega og ef ekki hefði verið fyrir framistöðu hans á HM hefði verðmiðinn verið mun lægri. Hjá Napoli hefur hann aftur á móti sprungið út. Unun er að sjá kraftinn í honum og eins og góðum framherja sæmir er hann alltaf fyrstur í bolta sem er spyrnt inn í teig andstæðinganna. Án hans hefði Napoli líklegast ekki verið í titilbaráttu eins lengi og þeir hafa verið í ár en nú stefnir allt í það að þeir þurfi að horfa á eftir titlinum fara til AC Milan eftir að hafa veitt þeim harða baráttu á tímum.

Josip Ilicic – Palermo
Maurizio Zamparini forseti Palermo er mikill sérvitringur og tekur allar ákvarðanir sjálfur sem varða leikmannakaup. Hann hreyfst svo mikið af tveimur leikmönnum Maribor frá Slóveníu sem Palermo lék gegn í undankeppni Eruopa League að hann keypti þá báða daginn eftir. Það voru þeir Amin Bacinovic og Josip Ilicic. Báðir hafa þeir leikið vel en Ilicic þeim mun betur. Hann passar vel inn í snögga framherjalínu Palermo ásamt þeim Miccoli og Pastore (sem ég mun kynna betur á eftir). Helst má þó gagnrýna hann fyrir óstöðugleika en óstöðugleiki hefur fylgt Palermo-liðinu í gegnum tímabilið.

Milos Krasic – Juventus
Að mínu mati einn besti leikmaður deildarinnar. Góðir kantmenn eru ekki eitthvað sem hefur einkennt ítölsku deildina undanfarin ár, en Krasic hefur heldur betur breytt því. Eldsnöggur og frábær með boltann og það virðist ekkki vera hægt að stöðva hann þegar hann tekur á rás upp hliðarlínuna en það helsta sem má gagnrýna hann fyrir er hinn eilífi leikaraskapur. Það sem helst hefur staðið í vegi hans er hversu óstöðugt lið Juventus hefur verið. Tímabilið byrjaði vel en eftir meiðsli Quagliarella í Janúar virðist sem allt loft hafi lekið úr liðinu. Krasic var eltur af stórum félögum í Evrópu áður en hann gekk til liðs við Juventus og munu þau halda áfram að elta hann ef hann sýnir áfram slíka spilamennsku sem hann hefur sýnt. Oft líkt við Pavel Nedved, bæði í útliti og í spilamennsku, en hann hefur gert Nedved stoltann, sem starfar nú sem framkvæmdarstjóri hjá Juventus.

Hernanes – Lazio
Gengi Lazio undanfarin ár hefur ekki verið upp á marga fiska og eitthvað virðist hafa vantað. Greinilegt er nú að það sem vantaði var leikstjórnandi á heimsmælikvarða. Hernanes var keyptur frá Sao Paolo sumarið 2010 og hefur ekki litið yfir öxl síðan. Honum tekst að sinna stöðu sinni sem framliggjandi miðjumaður í 4-2-3-1 kerfinu af mikilli einfeldni, gerir sjaldan hlutina erfiðari en þeir eru, sem er sjaldgæft hjá slíkum leikmönnum. Hann spilar í fáum snertingum og fyrir utan góðan skotfót hefur hann lagt upp ófá mörk fyrir Sergio Floccari og þannig séð til þess að gengi Lazio þetta árið er það besta í langan tíma og spilamennskan stórskemmtileg.

Davide Astori – Cagliari
Cagliari hefur undanfarin ár fest sig í sessi sem lið um miðja deildina þrátt fyrir lítil fjárútlát. Fyrst undir stjórn Max Allegri sem fór síðan til Milan en nú undir stjórn Roberto Donadoni. Að baki velgengninni er góður varnarleikur og sérstaklega miðverðirnir tveir Astori og Canini. Astori sem er 28 ára gamall var í ár í fyrsta sinn valinn í Ítalska landsliðið og lék 70 mínútur gegn Úkraínu. Gula spjaldið sem hann fékk 2 mínútum eftir að hann kom inná er einkennandi fyrir hann en hann er harður í horn að taka og á sína styrkleika aðallega í skallaeinvígjum. Eyjaskeggjarnir á Sardíníu hljóta að vera honum þakklátir en þrátt fyrir að liðið seldi besta framherja sinn í Janúar hefur gengi liðsins haldist stöðugt, aðallega vegna öflugs varnarleiks.

Gaston Ramirez – Bologna
Bologna var af mörgum spáð falli úr deildinni í ár og þegar litið er yfir leikmenn liðsins þarf það ekki að koma á óvart. Ekki bætti það úr skák að mikil barátta hefur verið um forsetaembætti félagsins en félagið hefur á tímabilinu haft fjóra forseta. En öllum að óvörum tryggði liðið sér áframhaldandi samning í Serie-A með nokkrar umferðir eftir. Helsti mótor liðsins hefur verið Gaston Ramirez. Þessi leikstjórnandi þótti efnilegur og var keyptur á yfir 5 milljónir evra, sem er ágætis upphæð fyrir svona lítið félag. Hann hefur leikið framarlega á miðjunni og stutt við bakið á Tryggva Guðmundssyni Serie-A, Marco Di Vaio sem þrátt fyrir að vera kominn vel á fertugsaldur raðar hann inn mörkum fyrir hvaða félag sem er. Mörg lið hafa spurst fyrir um Ramirez og mér þykir ólíklegt að hann muni spila áfram með Bologna á næsta tímabili.

Javier Pastore – Palermo
Þetta nafn er mörgum kunnugt, enda vikulegur gestur í slúðurpakka ensku pressunnar. Hann hefur lengi verið efnilegur og Zamparini, forseti Palermo ákvað að punga út fyrir honum eftir að hann þurfti að horfa á eftir ofannefndum Hernanes til Lazio. Ekki er líklegt að hann gráti í dag því Pastore hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar í ár. Eldsnöggur og með frábæra útsjónarsemi og leikni hefur hann verið heilinn í sóknarþenkjandi Palermoliði. Við hann loðir þó það sem oft loðir við Suður-Ameríska sóknarmenn, hann er nokkuð latur í varnarleiknum en honum er fljótt fyrirgefið. Miklar líkur eru taldar á að Chelsea muni reyna að klófesta hann í sumar og væri gaman að sjá hann spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni. Hann er havaxinn og hefur skorað nokkur skallamörk í ár en sterkbyggður er hann ekki en svo er spurning hvort það reynist vandamál eða ekki.

Yuto Nagatomo – Inter (áður Cesena)
Þessi vinstri bakvörður lék gríðarlega vel með Japan á HM 2010 og þegar fólk fór að forvitnast um hann kom það flestum á óvart að hann skyldi leika með Cesena á Ítalíu. Cesena eru nýliðar í Serie-A en hafa komið þó nokkuð á óvart með marga snögga skemmtilega leikmenn eins og Nagatomo, Giaccherini og Schelotto. Nagatomo hreif hins vegar yfirmenn Inter svo mikið að í Janúar fengu þeir hann á láni á meðan hinn efnilegi Davide Santon fór öfuga leið, einnig á láni. Verandi augljós varamaður hjá Inter á eftir Christian Chivu gefur hann þeim aukna breidd sóknarlega því hann býr yfir miklum hraða og snöggum hreyfingum. Spurningin er hvað gerist eftir tímabilið þegar lánssamningurinn rennur út, en Inter hefur ekki ákveðið hvort þeir gera lánssamninginn að endanlegum kaupssamningi.
banner
banner
banner