Ásgrímur keppti fyrir hönd Garðabæjar í Útsvari í vetur. Með henni í liði voru Ásta Hrafnhildur fyrrum þáttastjórnandi í Stundinni Okkar og Unnur Alma Thorarensen.
Ásgrímur Gunnarsson er leikmaður 4. umferðar í 2. deild karla en hann skoraði tvö mörk í 4-0 sigri KV á Tindastóli um helgina.
„Ég var hrikalega ánægður með leikinn á móti Tindastóli, við settum þá í mikil vandræði strax í upphafi leiks með því að keyra upp tempóið á leiknum og pressa stíft. Liðsheildin var góð og við fengum fleiri tækifæri eftir því sem leið á leikinn, við tókum nokkur af þeim og það skóp öruggan sigur," sagði Ásgrímur við Fótbolta.net
KV hafði fyrir leikinn gegn Stólunum tapað fyrstu þremur leikjum sínum í 2. deildinni í sumar.
„Það var mjög góð tilfinning að koma inní klefa eftir leik, stjórnin bauð uppá nokkrar Mountain Dew og menn voru í stuði. Við vorum reyndar búnir að vinna tvo leiki í bikarnum en gamanið þar er yfirleitt stutt fyrir lið í 2. deild sem beina markmiðunum frekar að deildinni."
„Það var óþægilegt að vera stigalausir eftir 3 leiki, sérstaklega í ljósi þess að flestir spá KV ofarlega í deildinni. Við eigum klárlega að vera þar og vissum að það væri stutt í fyrstu stigin, því margir voru að spila sína fyrstu leiki fyrir félagið og leikirnir höfðu ekki verið að falla með okkur."
Ásgrímur er uppalinn í Stjörnunni en þessi 21 árs gamli leikmaður kom til KV frá Reyni Sandgerði í vetur.
„Ég gekk í raðir KV eftir að hafa æft og spilað með þeim í dágóðan tíma eftir áramót. Hópurinn tók vel á móti mér og þjálfararnir voru ánægðir með það sem ég bauð upp á svo ég sá ekki ástæðu til annars en að taka slaginn í Vesturbænum."
Ásgrímur hefur ekki bara keppt í fótbolta á þessu ári því í vetur keppti hann í Útsvari á RÚV fyrir hönd Garðabæjar.
„Ég vil meina að ég hafi verið valinn til þess að fríska uppá útlitið í liðinu, en Ásta Hrafnhildur var með einhverjar mótbárur þannig við sættumst á að ég væri bara þokkalega klár eftir að hún stal öllum svörunum sem ég skrifaði niður í þættinum," sagði Ásgrímur en hvort er skemmtilegra að keppa í fótbolta eða Útsvari?
„Útsvarið var skemmtilegra en vetrarleikur í Akraneshöllinni, ég myndi hins vegar ekki skipta út soccernum fyrir milljón útsvarsþætti. Þetta er klárlega mitt sport."
Ásgrímur verður í eldlínunni í kvöld þegar KV fær Fram í heimsókn í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins.
„Við KV-menn erum mjög spenntir fyrir leiknum í kvöld. Við ætlum að búa til fjörugan leik og bjóða áhorfendum uppá fótboltaveislu í góða veðrinu. Ef Pétur Péturs ætlar hins vegar að leggja rútunni þá erum við klárir í 120 mínútna stríð og gott betur en það," sagði Ásgrímur að lokum.
Athugasemdir