Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   mán 14. desember 2015 17:00
Magnús Már Einarsson
Þegar Númi hafnaði Hannesi
Númi vildi ekki markvörðinn sem er á leið á EM.
Númi vildi ekki markvörðinn sem er á leið á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes hitar upp fyrir leik með Aftureldingu á Tungubökkum árið 2005.
Hannes hitar upp fyrir leik með Aftureldingu á Tungubökkum árið 2005.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótboltaferill Hannesar Þórs Halldórssonar er magnaður að mörgu leyti en í kringum tvítugt benti nákvæmlega ekkert til þess að hann myndi einn daginn fara með íslenska landsliðinu á EM.

Hannes var varamarkvörður hjá Leikni í 2. deild sumarið 2004 en þá reyndi hann að róa á önnur mið til að fá að spila. Hannes kíkti á æfingu hjá liði Núma sem lék í þriðju og neðstu deild á árunum 2003 til 2005 en fékk ekki að koma í liðið.

Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardag kíkti Björn Bragi Arnarsson í heimsókn og hann rifjaði upp söguna af Núma með Hannesi en sagan var einnig sögð í bókinni „Áfram Ísland" sem kom út á dögunum.

„Maður náði að spyrna sér upp frá botninum eftir þetta. Með fullri virðingu fyrir Mikka (Mikael Nikulássyni, þáverandi þjálfari Núma) og hans félögum þá var þetta ekki hápunktur ferilsins þegar ég mætti á æfingu hjá þeim á Tungubökkum," sagði Hannes þegar hann rifjaði upp þegar hann mætti á æfingu hjá Núma sumarið 2004.

„Ég opnaði Moggann og skoðaði hvaða lið ættu möguleika á að fara í úrslitakeppnina í þriðju deild. Þeir voru á Reykjavíkursvæðinu og voru í séns. Ég hringdi í Mikka og hann bauð mér á æfingu."

„Þetta var kúltúr sjokk fyrir mig þessi æfing, þetta var ekki það sem mömmu strákur úr Breiðholti var vanur. Ég náði ekki fram mínu besta á þessari æfingu og fékk ekki samning. Mikki var ekki að gera mér neinn sérstakan greiða þarna í byrjun ferilsins."


Hannes endaði því á því að klára tímabilið 2004 með liði sínu Leikni í Breiðholti.

„Ég ákvað að taka slaginn með mínum mönnum í Leikni þó að ég væri á bekknum og liðið illa með það. Okkur gekk vel og ég fékk að spila síðasta leikinn á tímabilinu. Það var úrslitaleikur um að komast upp og mér tókst að klúðra honum nánast prívat og persónulega. Það var annar lágpunktur á þessu ári. Þetta var ekki mitt glæsilegasta fótboltaár," sagði Hannes léttur.

Árið eftir spilaði Hannes með Aftureldingu í 2. deildinni. Þaðan fór hann í Stjörnuna og svo í Fram í úrvalsdeild árið 2007. Eftir dvöl í KR fór hann síðan út í atvinnumennsku og óhætt er að segja að ferill hans sé á allt öðrum stað í dag heldur en sumarið 2004.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Hannes í heild. Núma umræðan byrjar á 11:45
Athugasemdir
banner
banner
banner