Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 04. maí 2018 10:58
Hafliði Breiðfjörð
Yfirlýsing Víkings: Vonbrigði að Óli Jó hafi ekki beðist afsökunar
Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Einarsson formaður aðalstjórnar skrifar undir yfirlýsingu Víkings.
Björn Einarsson formaður aðalstjórnar skrifar undir yfirlýsingu Víkings.
Mynd: Aðsend
Víkingur sendi frá sér yfirlýsingu í morgun en tilefnið er það að áfrýjunardómstóll KSÍ ákvað í síðustu viku að Valur skildi ekki sæta refsingu fyrir ummæli Ólafs Jóhannessonar þjálfara liðsins í þættinum Návígi með Gulla Jóns á Fótbolta.net þess efnis að samið hafi verið um úrslit í leik Víkings og Völsungs árið 2013.

Í yfirlýsingu Víkings í dag segist félagið lýsa áhyggjum yfir því að Valur þurfi ekki að bera ábyrgð á þjálfara sínum á opinberum vettvangi og vill tafarlausar bætur á lögum KSÍ. Þá segir félagið vonbrigði að Ólafur sjálfur hafi ekki beðist afsökunar á ummælum sínum.

Yfirlýsingin kemur þremur dögum áður en Víkingur og Valur mætast í Pepsi-deildinni á mánudagskvöldið.

Sjá einnig:
Óli Jó: Samið um úrslit hjá Víkingi R. og Völsungi
Víkingur kvartar til KSÍ vegna ummæla Óla Jó
Yfirlýsing frá Víkingi: Skora á Óla Jó að biðjast afsökunar
Valur fær sekt vegna ummæla Óla Jó
Valur áfrýjar líklega sektinni - „Hálf kjánalegur dómur"
Valur fær ekki sekt vegna ummæla Óla Jó eftir áfrýjun
Framkvæmdastjóri Víkings ósáttur: Nú má segja hvað sem er

Yfirlýsing Knattspyrnufélagsins Víkings til fjölmiðla, í tilefni dóms áfrýjunardómstóls KSÍ, vegna ummæla Ólafs Jóhannessonar, knattspyrnuþjálfara Vals í þættinum Návígi á netmiðlinum Fótbolti.net.

Knattspyrnufélagið Víkingur lýsir almennum áhyggjum sínum yfir niðurstöðu dóms áfrýjunardómstóls KSÍ, vegna alvarlegra en tilhæfulausra aðdróttana Ólafs Jóhannessonar þjálfara Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, í garð Knattspyrnufélagsins Víkings og Völsungs á Húsavík um hagræðingu úrslita árið 2013.

KSÍ vísaði málinu til aga- og úrskurðarnefndar sem sektaði Knattspyrnufélagið Val vegna ummæla Ólafs Jóhannessonar. Í dómi áfrýjunardómstólsins er sektin hins vegar felld niður.

Knattspyrnufélagið Víkingur, sem var ekki aðili að málsmeðferðinni, heldur KSÍ og Knattspyrnufélagið Valur, átti síst von á þessari niðurstöðu áfrýjunardómstólsins. Taldi Víkingur þannig Val bera ábyrgð á þjálfara sínum vegna ummælanna eftir lögum og reglum knattspyrnusambandsins. Í öllu falli þyrfti þjálfarinn að axla ábyrgð á slíkum ummælum.

Áfrýjunardómstóll KSÍ lítur svo á að Valur eigi ekki að bera neina ábyrgð á þjálfara sínum, þegar hann kemur fram á opinberum vettvangi. Slíkt geti hins vegar varðað hann refsiábyrgð.

Knattspyrnufélagið Víkingur hefur í lengstu lög viljað leysa úr deilumálum sem upp koma innan knattspyrnuhreyfingarinnar, á vettvangi hennar. Telur Víkingur það síður vera í anda þess sem hreyfingin stendur fyrir ef félögin eru knúin til að sækja mál fyrir almennum dómstólum gagnvart hlutaðeigandi starfsmönnum félaganna persónulega, til að rétta sinn hlut.

Taki lög sambandsins eða reglugerðir ekki á tilvikum sem þessum, þannig að slík tilhæfulaus og alvarleg ummæli eru látin óátalin innan knattspyrnuhreyfingarinnar, ef þau eru höfð uppi „opinberlega“ og ekki „í tengslum við leik“ þá er brotalöm á gildandi reglum KSÍ sem bæta þarf úr tafarlaust.

Knattspyrnufélagið Víkingur lýsir jafnframt miklum vonbrigðum sínum yfir að Ólafur Jóhannesson, sem telja á mikilvæga fyrirmynd innan knattspyrnuhreyfingarinnar, sem fyrrverandi landsliðsþjálfara og núverandi þjálfara Íslandsmeistara Vals, hafi ekki séð sóma sinn í því að biðja félögin afsökunar og stuðla að lyktum þessa máls.

Knattspyrnufélagið Víkingur vill í ljósi niðurstöðu áfrýjunardómstólsins því ítreka áskorun sína til Ólafs Jóhannessonar að hann biðjist opinberlega afsökunar á ummælum sínum sem myndi verða knattspyrnuhreyfingunni til heilla og stuðla að ekki verði frekari eftirmálar vegna þessara ummæla.
Athugasemdir
banner
banner