Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 25. janúar 2019 14:40
Magnús Már Einarsson
Tillögur á ársþingi - Varalið í mfl kvenna og breytingar á yngri flokkum
Breiðablik vill fá varalið í deildakeppni meistaraflokks kvenna.
Breiðablik vill fá varalið í deildakeppni meistaraflokks kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grótta kemur með tillögu um breytingu á deildarskiptingu í yngri flokkunum.
Grótta kemur með tillögu um breytingu á deildarskiptingu í yngri flokkunum.
Mynd: Grótta
Dalvík/Reynir vill fjölga skiptingum í 2. deild karla upp í fimm.
Dalvík/Reynir vill fjölga skiptingum í 2. deild karla upp í fimm.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KSÍ hefur birt þær tillögur sem teknar verða fyrir á ársþingi sambandsins laugardaginn 9. febrúar.

Stjórn KSÍ leggur til heildarbreytingu á lögum KSÍ en aðrar tillögur má sjá hér að neðan.

Leikmannaskiptingar í 2. deild karla - Dalvík/Reynir
Dalvík/Reynir leggur til að skiptingum í 2. deild karla verði fjölgað í fimm líkt og gengur og gerist í 3 og 4. deild. „Meistaraflokksleikir eru mikill stökkpallur og viðurkenning fyrir unga leikmenn og það segir sig sjálft að tækifærunum fjölgar og auðveldara er fyrir félög að gefa sínum leikmönnum spilaðar mínútur. Við teljum að þetta auki möguleika ungra leikmanna að fá meiri spiltíma töluvert. Einnig mun þetta hjálpa þeim liðum sem erfiðlega hefur gengið að halda úti 2.flokki," segir meðal annars í tillögunni.
Smelltu hér til að lesa tillöguna í heild

Niðurröðun í deildir og riðla yngri flokka - Grótta
Grótta leggur til miklar breytingar á riðlaskiptingum í yngri flokkum. Í dag er spilað í A, B og C-deildum og það ræðst af árangri árið áður í hvaða deild viðkomandi flokkur spilar. Hins vegar færast árgangar á milli flokka og leikmenn þurfa því oft að spila í veikari eða sterkari deild en geta þeirra segir til um. „Lagt er til, þegar þátttaka í Íslandsmóti er tilkynnt, að félögin leggi um leið fram óskir um hvort að viðkomandi flokkur (2., 3., 4. og 5 aldursflokkur) leiki í A- B- eða C-riðli/deild. Skulu óskir taka mið af styrkleika hvers flokks og leikmannafjölda. Mótanefnd KSÍ fer yfir óskir félaganna og raðar í riðla/deildir. Ef þörf krefur tekur mótanefnd einnig mið af árangri viðkomandi aldurshópa tveimur árum áður (þegar það á við), úrslitum í vetrarmótum og rökstuðningi félaganna(sem þarf að fylgja umsóknum)," segir í tillögu Gróttu.
Smelltu hér til að lesa tillöguna í heild

Hlutgengi leikmanna í yngri flokkum - Breiðablik
Breiðablik vill breyta hlutgengi leikmanna í yngri flokkum þegar lið eru með fleiri en eitt lið í keppni. Núverandi regla er að: „Þegar félag er með tvö A lið í móti gildir: Leikmaður sem leikið hefur með liði 1 er ekki heimilt að leika með liði 2 fyrr en eftir næsta leik hjá liði 1 og 2 þar á eftir." Breiðablik leggur til að þessi grein hljóði svona: „Þegar félög eru með fleiri en eitt lið í aldursflokki hafa allir leikmenn félags hlutgengi nema 11 leikjahæstu leikmenn liða sem eru ofar í keppnisröð og leikmenn sem voru í byrjunarliði í síðasta leik hjá liði sem er ofar í keppnisröð í sama aldursflokki. Í dæmaskyni: A lið eru ofar í keppnisröð en B lið, A1 er ofar en A2 o.s.frv."
Smelltu hér til að lesa tillöguna í heild

Varalið í keppni meistaraflokks kvenna - Breiðablik
Breiðablik vill að varalið fái að taka þátt í deildarkeppni í meistaraflokki kvenna. „Hlutgengi með varaliði hafa allir leikmenn sem eru skráðir í félagið nema þeir 11 leikmenn sem hafa leikið flesta leiki með aðalliði á sama leiktímabili og þeir leikmenn sem byrjuðu síðasta leik aðalliðs á undan. Varalið getur ekki unnið sér sæti í efstu deild. Varalið getur fallið um deild," Segir í tillögunni. Breiðablik hefur verið með Augnablik sem venslafélag. Með breytingunni gætu allir leikmenn verið skráðir í Breiðablik og spilað með samnefndu varaliði í 1. deildinni.
Smelltu hér til að lesa tillöguna í heild

Endurgreiðsla á VSK vegna íþróttamannvirkja - Stjórn KSÍ
„Lagt er til að ársþing KSÍ 2019 samþykki að stjórn og aðildarfélög KSÍ þrýsti á að frumvarp, lagt fram af Jóni Gunnarssyni, Willum Þór Þórssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Páli Jóhanni Pálssyni, Haraldi Einarssyni og Silju Dögg Gunnarsdóttur, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sem miðar að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar, verði samþykkt. Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurgreiða skuli íþrótta- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu, endurbyggingu eða viðhaldi þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Það er álit stjórnar KSÍ að það sé knattspyrnuhreyfingunni mikið hagsmunamál að frumvarpið verði að veruleika," segir í tilkynningu frá stjórn KSÍ.

Ársþing 2019:
Hlaðvarp - Viðtal við Geir Þorsteins
Hlaðvarp - Viðtal við Guðna Bergs
Miklar breytingar á stjórn KSÍ - varaformaðurinn hættir
Þorsteinn Gunnarsson býður sig fram í stjórn KSÍ
Tillögur á ársþingi - Varalið í mfl kvenna og breytingar á yngri flokkum
Athugasemdir
banner
banner
banner