Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn inn í þjálfarateymi KR en eftir leiktíðina mun hann svo taka við sem aðalþjálfari liðsins.
Óskar Hrafn var fyrst ráðinn til KR þann 10. júní síðastliðinn sem faglegur ráðgjafi knattspyrnudeildar. Í tilkynningu félagsins kom þá fram að Óskar myndi veita þjálfurum og starfsmönnum knattspyrnudeildar faglega ráðgjöf og vinna að endurskipulagningu deildarinnar.
Hann sagði þann sama dag að hann hefði engan áhuga á að þjálfa meistaraflokk eins og staðan var á þeim tímapunkti. Hann var þá tiltölulega nýhættur með Haugesund í Noregi.
Þann 3. júlí breytti KR starfstitli hans og var hann ráðinn yfirmaður fótboltamála. Þá var sagt í tilkynningu félagsins: „Óskar mun þannig hafa yfirumsjón með öllu faglegu starfi knattspyrnudeildar, hvort sem er yngri flokka eða meistaraflokka. Það er félaginu sérlega mikilvægt að fá jafn öflugan aðila til þess að leiða starfið."
Núna í dag barst svo tilkynning frá KR að Óskar myndi koma inn í þjálfarateymi karlaliðsins út tímabilið. Hann mun aðstoða Pálma Rafn Pálmason í fallbaráttunni í Bestu deildinni en hann tekur svo við sem aðalþjálfari eftir leiktíðina. Hann hefur því fengið fjóra starfstitla hjá félaginu á tæpum tveimur mánuðum; faglegur ráðgjafi, yfirmaður fótboltamála, aðstoðarþjálfari og verðandi aðalþjálfari.
Óskar Hrafn mun svo áfram starfa sem yfirmaður fótboltamála hjá félaginu en Pálmi Rafn mun taka við sem framkvæmdastjóri félagsins að tímabilinu loknu. Pálmi er svipaðri stöðu og Óskar varðandi það að hann hefur fengið mikinn fjölda starfstitla hjá KR eftir að hann hætti sem leikmaður; hann hefur verið íþróttafulltrúi, þjálfað í yngri flokkum, þjálfað kvennaliðið, verið aðstoðar- og aðalþjálfari karlaliðsins og verður næst framkvæmdastjóri.
KR hefur gengið afleitlega á tímabilinu og er í níunda sæti Bestu deildarinnar, aðeins þremur stigum frá fallsæti.
Athugasemdir