Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fim 01. ágúst 2024 13:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óskar Hrafn: Þurfum að endurvekja þessa hugsun um KR
Óskar Hrafn Þorvaldsson, verðandi þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, verðandi þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætlar að hjálpa KR að komast aftur í fremstu röð.
Ætlar að hjálpa KR að komast aftur í fremstu röð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ástæðan fyrir því að ég tek þetta starf er fyrst og fremst sú að ég er KR-ingur. Ég hef verið það frá fæðingu," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, verðandi þjálfari KR, í myndbandi sem félagið sendi frá sér í dag.

Það var tilkynnt í dag að Óskar Hrafn verður í þjálfarateymi KR út tímabilið og svo tekur hann við sem aðalþjálfari eftir leiktíðina.

Óskar er uppalinn KR-ingur, var leikmaður liðsins á sínum tíma, þjálfaði yngri flokka þar og er stuðningsmaður félagsins.

„Ég ólst upp 20 metrum frá KR-svæðinu, eyddi öllum mínum æskuárum hér og myndaði gríðarlega sterk tengsl við félagið líkt og margir jafnaldrar mínir og þúsundir annarra sem eru KR-ingar í gegn. Þegar mér bauðst þetta tækifæri þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um."

„Það var alltaf stefnan að koma aftur í Vesturbæinn og leggja mitt á vogarskálarnar til að gera félagið eins gott og það getur orðið. Það er gríðarlegur kraftur í félaginu en kannski þurfa hlutirnir að vera aðeins skýrari. Vonandi get ég hjálpað til með það."

KR er í alvöru lægð, en markmiðið með ráðningunni er að koma félaginu aftur í fremstu röð, en karlaliðið er í bullandi fallbaráttu í Bestu deildinni. Á sama tíma er kvennaliðið að berjast um að komast upp úr 2. deild. Óskar ætlar að endurvekja hugsunina um stórveldið KR.

„Við viljum að KR sé í fremstu röð í meistaraflokki karla, meistaraflokki kvenna og í yngri flokkunum. Við viljum að KR sé félag sem aðrir geti tekið sér til fyrirmyndar og horft upp til. Að fólk sé stolt að tengjast KR. Við þurfum á einhvern hátt að endurvekja þessa hugsun um KR og KR-inginn og styrkja þá hugmynd. Í því felst að starfið sé metnaðarfullt og gjöfult, líka fyrir þá sem koma hingað og vilja vera félagsmenn."

„Við munum vinna dag og nótt til að gera félagið eins gott og það verður. Það mun enginn geta sagt að við höfum ekki lagt okkur fram. Ég lofa því," segir Óskar Hrafn.


Athugasemdir
banner
banner
banner