Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mán 03. september 2018 11:36
Elvar Geir Magnússon
Framkvæmdastjóri KSÍ mun skoða ummæli Óla Jó
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, mun í dag setjast niður og skoða ummæli Ólafs Jóhannessonar, þjálfara Vals, eftir 3-3 jafnteflisleikinn gegn KA í gær.

Þetta staðfesti Klara við Fótbolta.net.

„Ég hef ekki séð ummælin en mun síðar í dag skoða þau. Ef ég tel að ummælin séu skaðleg fyrir ímynd íslenskrar knattspyrnu vísa ég þeim til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins þar sem þetta fer í hefðbundið ferli," segir Klara.

Ólafur sakaði Einar Inga Jóhannsson, dómara leiksins, um að hafa sleppt því að dæma víti til Valsmanna þar sem hann sé Stjörnumaður. Valur og Stjarnan eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn.

„Dómarinn er náttúrulega Stjörnumaður, hann er fæddur og uppalinn í Stjörnunni, nánast í Stjörnuheimilinu og auðvitað fór hann ekki að dæma víti fyrir okkur, það gaf augaleið. Það er engin spurning í mínum huga að það var náttúrulega púra víti," sagði Ólafur við Vísi eftir leikinn í gær.

Kristinn Jakobsson, formaður dómaranefndar, tjáir sig um ummæli Ólafs í samtali við Henry Birgi Gunnarsson á Vísi.

„Auðvitað vísar maður svona yfirlýsingum til föðurhúsanna. Við erum allir í þessu af fagmennsku og röðum niður á leiki eftir okkar bestu getu. Við treystum Einari Inga fyllilega til þess að dæma þennan leik. Það er of langt gengið þegar menn eru farnir að saka menn um óheilindi þó svo þeir komi frá einhverju ákveðnu félagi," segir Kristinn og telur sorglegt að þjálfari í efstu deild sé með svona ásakanir.

„Það er ekki eðlilegt að við þurfum að sitja undir svona ásökunum."

Þetta er í annað sinn á árinu sem KSÍ skoðar ummæli Ólafs í fjölmiðlum en Víkingur Reykjavík kvartaði yfir ummælum hans í hlaðvarpsþættinum Návígi hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner