Efasemdir um Konate - Liverpool með Lacroix á blaði - Man Utd vill Úkraínumann
   fös 03. október 2025 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Heimir ræðir ákvörðun FH: Ef ég hefði tekið þann pólinn í hæðina væri liðið að falla
Heimir hættir með FH eftir tímabilið.
Heimir hættir með FH eftir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála.
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH tilkynnti á þriðjudag að Heimir Guðjónsson yrði ekki áfram þjálfari liðsins að tímabilinu 2025 loknu. Heimir er sigursælasti þjálfari í sögu FH, en hann sneri aftur til FH fyrir þremur árum síðan eftir fimm ára fjarveru.

Eftir harða fallbaráttu 2022 var leitað til Heimis og hefur FH endað í efri hluta deildarinnar síðustu þrjú ár. Heimir ræddi við Fótbolta.net um hans sýn á ákvörðun FH. Í viðtalinu er nokkrum sinnum vísað í viðtal við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, og má nálgast það viðtal hér að neðan.

„Samningurinn var að renna út og ég átti alveg von á því að hann yrði ekki endurnýjaður, það kom mér svo sem ekkert svakalega á óvart," segir Heimir.

Árangurinn inn á vellinum hefur verið nokkuð góður, skilur þú ákvörðun FH út frá því?

„Auðvitað skil ég ákvörðun FH að því leytinu til að þeir vilji fara aðrar leiðir. Síðasta haust kom mikið upp inn af nýjum leikmönnum og spilað á ungu liði. Eins og yfirmaður fótboltamála sagði þá erum við með þriðja yngsta liðið, ef Björn Daníel er tekinn út úr þessu þá erum við með yngsta liðið, þarf ekki nú meira en það. Við fórum ekki vel af stað, tók smá tíma að slípa þetta saman, en það hefur gengið vel núna seinni partinn, fengið góð úrslit og sýnt að liðið er samkeppnishæft við bestu liðin. Út frá því skil ég þetta auðvitað ekki 100%," segir Heimir og það heyrist á honum að honum þykir erfitt að tala illa um FH því ástin á félaginu er mikil.

Davíð talar um að fjölga mínútum hjá leikmönnum sem eru 19 ára og yngri. Þú nefnir að þið fóruð ekki vel af stað, er þá ekki nokkuð eðlilegt að vera minna í því að prófa unga leikmenn?

„Það er auðvitað þannig þegar þú ferð sem þjálfari inn í leiki þar sem mikið er undir, þá er ekki oft þannig að það sé mikill tími fyrir tilraunastarfsemi. Davíð kom inn á þennan punkt með 19 ára leikmenn, það er bara hlutur sem kemur mér bara ekkert við, það er á hans könnu að vera með leikmenn sem eru 19 ára gamlir og eru nógu góðir til að spila með FH."

Setjum upp sviðsmyndina að þér hefði verið boðið að vera áfram, en gegn því að þú yrðir að spila 19 ára leikmönnum ákveðið mikið. Hefðir þú getað unnið með það?

„Ég er mjög sveigjanlegur maður, get unnið með eitt og annað. Ég kom í FH haustið 2022, það var allt í steik, liðið gamalt og dýrt, ég tek við og haustið '23 var komin ágætis holning á liðið, Það var búið að yngja upp. Svo fara Davíð Snær, Logi Hrafn og Óli Guðmunds í atvinnumennsku - allt frábærir leikmenn. Eftir '24 þurfti að stokka þetta upp, við vorum sammála um það. Ég hef alltaf metið stöðuna þannig að hvort sem leikmenn eru 19 ára gamlir, 25 ára eða eins og Björn Daníel - sem hefur verið frábær fyrir FH síðustu árin - 35 ára gamlir. Ef menn eru nógu góðir til að spila, þá náttúrulega spila ég þeim. Þannig virkar þetta fyrir mér."

„Eins og kom fram í viðtali við yfirmann fótboltamála þá var markmiðið að komast í efri sex, ef þú ætlar að gera það - þetta eru ekki geimvísindi - þá þarftu að vera með einhverja eldri leikmenn sem hjálpa þessum yngri inni á vellinum að verða betri. Ef ég hefði tekið þann pólinn í hæðina að spila einhverjum 19 ára gæja, þá væri liðið bara að falla. Þetta eru einföld rök."


Hvað finnst þér um hin rökin, nýja stefnu, varðandi pressu og hvað sé gert með boltann?

„Það eru margar leiðir til að ná árangri í fótbolta. Ég hef alltaf litið á að það sé mjög gott að grípa í tölfræði sem stuðning við það sem er verið að gera inni á vellinum. Ef þjálfarinn getur ekki verið úti á velli og stýrt liðinu í leikjum og séð hvað sé gott og hvað sé slæmt, þá held ég að það sé best að snúa sér að einhverju öðru starfi."

FH mun enda í 4.-6. sæti, ímyndum okkur að þessum þremur leikjum sé lokið, hvernig gengur þú frá borði eftir þessi þrjú ár?

„Gríðarlega stoltur, mér hefur tekist á þessum þremur árum að vera alltaf með liðið í efri hlutanum. Við náðum að breyta kúltúrnum."

„Ég vil þakka stuðningsmönnum FH fyrir frábæran stuðning í sumar. Það sem gerðist var að stuðningsmenn gátu samsinnt sig við liðið, það var frábært stuðningur í sumar. Það eru þrír leikir eftir og það þarf að klára þá með stolti."


Leynast einhver vonbrigði með þessa ákvörðun FH?

„Nei, ég er búinn að vera svo lengi í þessum bransi, veit alveg hvernig hann virkar. Ég hef oft sagt það að það þýðir ekkert að horfa í baksýnisspegilinn, það þarf að horfa fram veginn."

„Allir titlar sem hafa unnist hjá FH á þessari öld, þá hefur maðurinn sem þú ert að tala við verið viðloðandi þá alla. Það hlýtur að vera markmið klúbbsins á endanum að koma liðinu aftur á þann stað sem þar sem það á að vera."


Varðandi tímasetninguna, hefðir þú viljað fá að vita niðurstöðu FH fyrr?

„Já, ég hefði viljað fá að vita þetta fyrr, ég get alveg verið heiðarlegur með það. Það var enginn búinn að tala við mig eins og hefur komið fram, þess vegna nýtti ég mér tækifærið eftir Blikaleikinn í viðtali hjá ykkur á Fótbolti.net, nýtti mér gamla rebbaskapinn til að fá einhver svör til að þetta væri bara á hreinu."

Í upphafi árs var FH í brennidepli út af Skessumálinu og neikvæð umfjöllun um félagið. Liðið byrjaði tímabilið ekki vel, var í fallsæti eftir sex umferðir og stigi fyrir ofan fallsæti eftir sextán umferðir. Liðið var að leka mörkum, markvarslan var ekki nægileg góð, en gengið snarbatnaði síðan og hefur FH verið á mjög góðu skriði síðustu mánuði.

„Sem þjálfari þá var þetta að mínu mati eitt af mínu bestu árum í þjálfun, að ná að snúa gengi liðsins við í miklum ólgusjó sem er búinn að vera í Krikanum. Ég geng stoltur frá borði, það er engin spurning."

Hvað finnst þér um að FH hafi verið klárt með þinn arftaka strax, eða mjög fljótlega í það minnsta, eftir að þér var tilkynnt að þú yrðir ekki áfram?

„Ég hef enga skoðun á því, þeir ákveða bara hvernig þeir gera hlutina. Ég er ekkert að spá í því, en sá sem tekur við tekur við góðu búi."

Hvað tekur við, þú ert ennþá hungraður er það ekki?

„Hafa menn ekkert verið að heyra í mér á hliðarlínunni eða? Karlinn hefur aldrei verið hungraðri, ég er klár í allt! Ég elska fótbolta ógeðslega mikið og hef svo gaman af því að þjálfa, vera úti á velli. Að sjálfsögðu ætla ég að halda áfram, vonandi kemur eitthvað skemmtilegt inn á borð til mín."

Þú ert til í allt, jafnvel að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið?

„Já! Mér finnst svo gaman að fara í þessa útileiki, eins og t.d. að fara vestur á Ísafjörð, norður og til Eyja."

Það er ein slúðursaga sem hefur heyrst, kom fram í hlaðvarpsþáttunum Þungavigtinni og Steve Dagskrá, að þú gætir mögulega verið næsti þjálfari KR. Hefur þú heyrt þessa sögu, og jafnvel átt samtal við KR?

„Það var einhver sem sagði mér þessa kjaftasögu í vikunni, en ég hef ekkert heyrt frá KR. Þeir þurfa bara að hugsa um sjálfan sig núna og reyna forðast fall," segir Heimir.
Athugasemdir
banner
banner
banner