'Einn af helstu styrkleikum Hemma er að hann er góður maður á mann og að ná upp stemningu í sínum liðum'
'Ég held það verði að horfa í það hvaða lið hann hefur verið með undanfarin tímabil, við teljum að hann hafi gert vel með þau'
'Það er mikilvægt að leikmenn eins og þeir séu með í meirihluta leikjanna, skiptir máli að hafa lykilmenn til taks'
Hermann Hreiðarsson var í gær kynntur sem nýr þjálfari Vals en hann tekur við starfinu af Srdjan Tufegdzic sem var látinn fara að tímabilinu loknu. Hermann kemur til Vals frá HK en hann hafði fyrir það stýrt ÍBV, Þrótti Vogum, karla- og kvennaliði Fylkis og verið aðstoðarþjálfari hjá Southend og Kerala Blasters á þjálfaraferli sínum.
Hermann er 51 árs og lék á sínum ferli 89 landsleiki og alls 315 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Fótbolti.net ræddi við Björn Steinar Jónsson, formann fótboltadeildar Vals, um ákvörðunina að ráða Hermann.
Hermann er 51 árs og lék á sínum ferli 89 landsleiki og alls 315 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Fótbolti.net ræddi við Björn Steinar Jónsson, formann fótboltadeildar Vals, um ákvörðunina að ráða Hermann.
„Við erum búnir að vera vinna í þessum málum í smá tíma, bæði stjórnin og svo eins tæknilegur ráðgjafi, Gareth Owen sem hóf formlega störf á dögunum en hefur verið hjá okkur undanfarnar vikur. Hermann hefur mikla fótboltareynslu, sá Íslendingur sem á flesta leiki í ensku úrvalsdeildinni (315). Við rýndum í það sem hann hefur gert undanfarin ár og ég held að hann hafi gert vel með þau lið sem hann hefur verið með, hann gerði vel með HK í sumar og vann Lengjudeildina í fyrra með ÍBV. Við áttum samtöl við hann og það var samhljómur milli okkar um verkefnið og hvernig við vildum vinna hlutina. Þess vegna tókum við þessa ákvörðun," segir Björn Steinar.
Vísar í ráðningar á Óla Jó og Arnari Gunnlaugs
Hermann hefur gert flotta hluti í Lengjudeildinni en hann hefur ekki verið með lið í toppbaráttu í efstu deild á sínum ferli, og hefur ráðningin verið gagnrýnd út frá þeirri staðreynd.
„Alveg sama hvað, þá verður einhver gagnrýni. Ég held það verði að horfa í það hvaða lið hann hefur verið með undanfarin tímabil, við teljum að hann hafi gert vel með þau. Hann hefur ekki verið með topplið áður, það er alveg rétt. Óli Jó kom til okkar frá Haukum sem reyndist nú frábær ráðning og Arnar Gunnlaugsson var ekkert með æðislegt record þegar hann tók við Víkingum. Við höfum trú á Hemma og teljum hann gott mótvægi við Chris sem verður hans aðstoðarmaður. Þetta er teymi, það skiptir ekki bara máli hver er aðalþjálfari, allt teymið skiptir máli og það er eitthvað sem við vorum að horfa í og var hluti af samtölunum sem við áttum."
Árangur er ekki bara stigasöfnun
Ef horft er í þetta utan frá, þá vill Valur væntanlega enn frekari árangur, tvö silfur niðurstaðan á þessu tímabili. Er það ekki viðunandi árangur?
„Þegar þú tekur svona ákvörðun ertu að taka ákvörðun út frá því hvað þú væntir þess að verði á næsta tímabili. Það er ekki eingöngu horft í það að við höfum fengið tvö silfur á þessu tímabili, það þarf ekki að vera óásættanlegur árangur, þó að við hefðum að sjálfsögðu vilja vinna báða titlana. Árangur er ekki bara stigasöfnun, þú verður að horfa í fleiri þætti og það er eitt af því sem við erum að gera.."
„Þetta tímabil var svolítið skipt, þú hringdir í mig eftir 4-5 leiki til að krefja mig svara. Þá var frammistaðan góð en stigasöfnunin ekki í takti við það. Svo kom gott tímabil en síðustu 10-11 umferðirnar voru ekki góðar og það var mat okkar að fyrir verkefnið á næsta tímabili þá þyrfti að gera breytingar, án þeirra yrði niðurstaðan ekki framför. Þegar þú tekur ákvörðun ertu alltaf að horfa fram á veginn, það er ekki þannig að endanlega niðurstaðan í þessu móti 2025 hafi verið óásættanleg."
Vilja sækja leikmenn sem eru á leið upp
Þið metið Hemma betri kost heldur en Túfa upp á framtíðina að gera, hvað er það sem þið viljið gera?
„Það sem við ætlum okkur m.a. að gera á markaðnum er að leitast eftir því að fara meira í það að sækja leikmenn sem eru á leiðinni upp á sínum leikmannaferli eins og í tilfelli leikmanns sem kom úr Lengjudeildinni og spilaði með okkur í sumar og fór síðan áfram í skosku úrvalsdeildinni. Við leitumst eftir meira af einhverju slíku," segir Björn Steinar og vísar í Tómas Bent sem kom frá ÍBV og var svo seldur til Hearts.
„Eins og Hemmi kom inn á í viðtali við SÝN í gær þá erum við með frábæran leikmannahóp og ef við erum bara raunsæir þá er hann að taka við einu besta fótboltaliði landsins. Kjarninn af honum verður áfram og verður í lykilhlutverkum."
Getur skilið að Túfa sé svekktur
Túfa talaði um það í viðtali eftir lokaleikinn gegn Víkingi að hann ætti þessa framkomu Vals ekki skilið. Hann var svekktur að Valsarar væru að funda með öðrum þjálfara þegar hann var enn í starfi. Getur þú skilið Túfa og af hverju var þetta unnið svona?
„Ég get alveg skilið að Túfa sé svekktur með það og það var að sjálfsögðu óheppilegt að það skildu fara af stað einhverjar fréttir um slíkt. Við svo sem stýrum því ekki hvaða fréttir eru sagðar og þær eru ekkert alltaf réttar eða nákvæmar. Það hafa verið gerðar ýmsar fréttir um sambærilega hluti á mörgum öðrum tímapunktum á meðan hann var í starfi hjá okkur og oftast ekkert nákvæmt eða einhver fótur fyrir því. Það er í þessu eins og í öðru, ekki bara hjá okkur, að ef breytingar standa til þá byrja menn að sjálfsögðu að kanna það þrátt fyrir að ákvarðanir hafa ekki endilega verið teknar."
Hemmi góður maður á mann
Það hefur verið grínast með það í hlaðvarpsþættinum Dr. Football sem Hjörvar Hafliðason stýrir að leikmenn hafi fengið að velja að fara frekar á þrekhjólið eða ræktarsalinn en á gervigrasið. Er þessi umræða eitthvað sem þú hefur orðið var við og ertu að búast við því að Hemmi verði harðari með þessi mál?
„Ég hef ekki sérstaklega orðið var við þessa umræðu. Eftir síðasta tímabil voru nokkuð margir leikmenn sem fóru í aðgerðir og menn eru ekkert í því valkvætt, heldur mat fagmanna. Það voru svo aðrir sem voru í langtímameiðslum eftir síðasta tímabil."
„Við væntum þess að Hemmi og þjálfarateymið muni halda áfram að koma hópnum í enn betra stand. Það er engin spurning að það skiptir máli að æfa vel og koma í góðu standi inn í mótið og ná að halda því í gegnum heilt mót. Einn af helstu styrkleikum Hemma er að hann er góður maður á mann og að ná upp stemningu í sínum liðum. Við viljum sjá það"
Von á frekari tíðindum
Hermann verður aðalþjálfari og Chris Brazell verður hans aðstoðarmaður. Hvað vantar meira inn í teymið?
„Það verður tilkynntur nýr styrktar- og frammistöðuþjálfarií vikunni. Jóhann Emil tilkynnti okkur í sumar að hann ætlaði að taka sér pásu frá fótboltanum. Við eigum svo eftir að tilkynna markmannsþjálfara líka."
„Við munum skoða í vetur að fá inn þjálfara sem verður í afreksþjálfun og 'transition' hlutverki milli yngri flokka og meistaraflokks."
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Valur að fá inn Kirian Elvira Acosta frá Fram í hlutverk styrktarþjálfara og Jamie Brassington hjá KR er líklegur kostur í markmannsþjálfarastarfið.
Þrír reynslumiklir á útleið
Það hefur verið slúðrað um að þeir Ögmundur Kristinson, Aron Jóhannsson og jafnvel Hólmar Örn Eyjólfsson verði ekki áfram hjá Val. Er það eitthvað sem gæti gerst?
„Ég veit ekki hvar þeir þú hefur heyrt þær sögur, þeir eru allir samningsbundnir Val og ég vænti þess að þeir verði áfram hluti af hópnum. Ég geri ekki ráð fyrir öðru."
„Hólmar spilaði alla leikina á þessu tímabili og átti frábært tímabil. Ögmundur hefur verið að glíma við meiðsli og ekki náð að taka þátt í mörgum leikjum, sem eru vonbrigði fyrir hann og okkur."
„Það sama má segja um Aron þó að hann hafi náð að taka þátt í fleiri leikjum, hann missti af hátt í helming leikjanna á tímabilinu. Það er mikilvægt að leikmenn eins og þeir séu með í meirihluta leikjanna, skiptir máli að hafa lykilmenn til taks," segir Björn Steinar.
Athugasemdir



