Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   lau 04. maí 2019 17:59
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi Max-deildin: Blikar stálu stigi gegn HK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK 2 - 2 Breiðablik
1-0 Ásgeir Marteinsson ('46)
2-0 Björn Berg Bryde ('50)
2-1 Thomas Mikkelsen ('89)
2-2 Viktor Örn Margeirsson ('92)

Nýliðar Pepsi Max-deildarinnar í HK tóku á móti nágrönnum sínum í Breiðabliki í fyrsta leik 2. umferðar tímabilsins.

HK átti góðan fyrri hálfleik og komst tvisvar afar nálægt því að skora. Fyrst átti Gunnlaugur Gunnleifsson stórkostlega markvörslu eftir skalla Björn Berg Bryde og í seinna skiptið skaut Arnþór Ari Atlason yfir úr dauðafæri.

Staðan var þó markalaus í leikhlé en HK-ingar komust yfir skömmu etir leikhlé. Innkast barst þá inn á teig Blika og endaði boltinn hjá Ásgeiri Marteinssyni sem skaut í varnarmann og inn.

Blikar fengu ekki tíma til að átta sig á markinu og fengu annað á sig skömmu síðar þegar Björn Berg stangaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu.

Björn komst nálægt því að skora sitt annað mark skömmu síðar en Blikar björguðu á línu. Leikurinn jafnaðist út í kjölfarið og undir lokin byrjaði sóknarleikur Blika að bera smá árangur og minnkaði Thomas Mikkelsen muninn á 89. mínútu. Innkast barst þá inn á teiginn og gerði Alexander Helgi Sigurðsson vel að skalla til Mikkelsen sem skoraði af auðveldu færi.

Eftir markið sendu Blikar alla sína menn í sókn og náði Viktor Örn Margeirsson að skalla boltann í netið og stela stigi fyrir sína menn.

„Kross frá vinstri og Viktor er kominn fram og nær að skalla í markið. Vááááá," segir Jóhann Óli Eiðsson í textalýsingu Fótbolta.net.

„Spurning með aðdragandann. Blkar fengu aukaspyrnu sem var tekin á rosalega röngum stað sem skilaði sér í þessu dæmi öllu."

Blikar eru með fjögur stig en þetta er fyrsta stig HK eftir tap gegn FH í fyrstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner