Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   þri 04. nóvember 2025 15:30
Kári Snorrason
Viðtal
Vandasamt verk fyrir vestan - „Margir erlendir þjálfarar sýnt áhuga“
Vestri leikur í Lengjudeild og Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Vestri leikur í Lengjudeild og Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Samúelsson.
Samúel Samúelsson.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Jón Þór Hauksson stýrði liðinu í síðustu þremur leikjum deildarinnar.
Jón Þór Hauksson stýrði liðinu í síðustu þremur leikjum deildarinnar.
Mynd: Eva Rós Ólafsdóttir
Vestri féll eftir tap í úrslitaleik gegn KR í lokaumferðinni.
Vestri féll eftir tap í úrslitaleik gegn KR í lokaumferðinni.
Mynd: Eva Rós Ólafsdóttir
Ágúst Hlynsson.
Ágúst Hlynsson.
Mynd: Eva Rós Ólafsdóttir

Vestri er eitt þriggja liða í Lengjudeildinni sem er enn þjálfaralaust. Liðið fagnaði góðu gengi fyrri hluta sumars en eftir frækinn sigur í úrslitaleik Mjólkurbikarsins fór að halla undir fæti og endaði liðið á því að falla úr Bestu deildinni. Liðið mun því bæði leika í Evrópukeppni og Lengjudeildinni á næsta tímabili.

Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson formann meistaraflokksráðs Vestra um þjálfaraleit liðsins og leikmannamál fyrr í dag.


„Við erum á fullu að vinna núna. Erum að skoða þjálfaramál. Það er svosem ekkert komið lengra en annað, en þetta er allt saman í skoðun hjá okkur. Við erum að vonast til að geta klárað hlutina fljótlega. Vonandi skýrist þetta um helgina eða í næstu viku. 

Þó að það sé enginn tímarammi, væri auðvitað fínt að fara klára þetta sem fyrst, en við erum ekkert að stressa okkur. Við ætlum að finna mann sem hentar okkur og hentar Vestra.“ 

Ekki möguleiki að halda Jóni Þór

Jón Þór Hauksson stýrði liðinu í síðustu leikjum deildarinnar eftir að Davíð Smári var látinn taka poka sinn. Vilduð þið halda honum?

„Þegar ég fékk Jón, þá fékk ég hann til að klára þessa þrjá leiki fyrir okkur það var alltaf stefnan. Ég svosem nefndi það við hann hvort að hann sæi sér fært um að halda áfram en það var ekki möguleiki.“ 

Vilja innlendan þjálfara

Greint hefur verið frá því að erlendir þjálfarar hafa sýnt starfinu áhuga. Samúel var spurður hvort að það væri möguleiki sem verið væri að skoða.

„Það eru ansi margir erlendir þjálfarar sem hafa sýnt þessu áhuga. En ég hugsa að við leitum eftir innlendum, ekki að það sé slæmt að ráða erlendan þjálfara í starfið. Það er frekar hugmynd að fá mann sem þekkir til Íslands og íslensks fótbolta. Við horfum frekar þangað en útilokum ekkert.“ 

„Stórar breytingar á leikmannahóp Vestra“ 

Vestri eru með tólf leikmenn á áframhaldandi samningi en sjö þeirra voru í litlu sem engu hlutverki hjá liðinu í sumar. Þá er einn af þessum tólf Anton Kralj sem gaf út nýverið að hann verði ekki áfram hjá félaginu.

„Við erum með bæði fína leikmenn sem eru á samningum og unga leikmenn sem eru að koma upp í meistaraflokkinn. Við erum bara að fara í nýtt og spennandi verkefni. Við erum að fara setja saman nýtt lið, þess vegna þurfum við að vanda til verka.

Við viljum halda sama 'standard' og hefur verið í félaginu áfram, þó við spilum í Lengjudeild. Auðvitað eru margir öflugir leikmenn samningslausir og það segir sig sjálft að það verða stórar breytingar á leikmannahóp Vestra. Fjármagnið minnkar verulega við að falla niður í Lengjudeildina. Það liggur í augum uppi að við getum ekki haldið öllum þeim stóru póstum sem voru í liðinu í sumar.“ 

„Með fullri virðingu fyrir okkur og Lengjudeildinni þá er erfiðara að sækja leikmenn í Lengjudeildina. Það segir sig bara sjálft, það vilja allir spila í Bestu-deildinni. Þó svo að við höfum metnaðarfullar hugmyndir um hvaða leikmenn við viljum sækja verður það alltaf erfitt að fá góða leikmenn niður í Lengjudeildina. En ef leikmenn hafa metnað og vilja taka næsta skref þá er þetta staðurinn, eins og hefur sýnt sig.“ 

Þekkja það að smíða nýtt lið

„Það er auðvitað ekkert nýtt fyrir okkur hér fyrir Vestan að þurfa setja saman nýtt lið eftir hvert ár. Auðvitað verður það vandasamt verk, en við búum að ágætis reynslu við það. Það hefur sýnt sig að það borgar sig að bíða eftir réttum leikmönnunum en að ana í eitthvað einn, tveir og þrír.“ 

Samúel segir forgangsröðunina felast fyrst og fremst í því að fá nýjan þjálfara sem fyrst og síðan er hægt að ráðast í leikmannamál.

„Við auðvitað byrjum á því að velja þjálfara og síðan fær hann að velja sína leikmenn. Það er vænlegast til árangurs að aðilinn sem þjálfar liðið velur hópinn. Ég held að það sé fínt fyrir nýjan þjálfara að geta mótað liðið eftir sínu höfði. Það eru auðvitað frambærilegir fótboltamenn til staðar í Vestra en við þurfum klárlega að sækja slatta af leikmönnum,“ segir Samúel að lokum.



Athugasemdir
banner
banner
banner