sun 05. apríl 2020 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Shearer: Sir Alex hringdi aldrei til baka
Mynd: Getty Images
Alan Shearer, fyrrum sóknarmaður Southampton, Blackburn og Newcastle, var næstum genginn í raðir Manchester United á sínum tíma.

Shearer ræddi atvikið í samtali við Gary Lineker hjá BBC og útskýrði hvað gerðist. Hann var leikmaður Blackburn á þeim tíma og höfðu bæði Man Utd og Newcastle lagt fram tilboð í hann.

„Ég settist niður með Kevin Keegan (fyrrum stjóra Newcastle) og Sir Alex Ferguson á sama degi. Við héldum fundina í húsi tengdamóður David Platt," sagði Shearer.

„Ég hitti Keegan um morguninn og gengu viðræðurnar mjög vel. Þegar fólkið frá Newcastle var farið kom Sir Alex með sitt teymi og spurði mig strax hvort hann væri sá fyrsti til að hitta mig þann daginn.

„Ég sagði honum að Kevin hafði komið um morguninn og þá varð Sir Alex vonsvikinn. Hann vildi hitta mig fyrst og taldi sig ekki eiga möguleika á að krækja í mig fyrst Kevin hafði orðið fyrri til.

„Mér fannst viðræðurnar samt ganga afar vel og ég var mjög hrifinn af því sem hann hafði að segja. Ég spurði hvort ég gæti fengið að vera vítaskytta liðsins en hann sagði að það væri ekki möguleiki að taka það hlutverk af Eric Cantona.

„Mér fannst viðræðurnar ganga vel og vildi fara til Manchester en einum eða tveimur dögum síðar fékk ég símtal frá Kevin sem vildi hitta mig aftur. Þá ákvað ég bara að ganga í raðir Newcastle, þetta var félag sem ég hélt mikið uppá og hafði alltaf viljað spila fyrir.

„Þegar ég var búinn að taka ákvörðun var ég á flugvellinum í Manchester á leið í æfingaferð og ákvað að heyra í Sir Alex til að láta hann vita af ákvörðun minni. Hann svaraði ekki og mér var illa við að skilja eftir skilaboð svo ég hringdi aftur en fékk ekkert svar. Eftir þriðju tilraun ákvað ég að skilja eftir skilaboð.

„Ég er ekki hissa að hann hafi aldrei hringt til baka."


Shearer skoraði 206 mörk í 405 leikjum hjá Newcastle.
Athugasemdir
banner
banner