Ólafur Már Þórisson skrifar
Þá er það ljóst að KA er nánast örugglega að fara að spila aftur í 1. deildinni næsta sumar, árið 2016. Risastór ástæða fyrir þeim vonbrigðum og jafnvel stærri en menn gera sér grein fyrir var skelfilegt myllumerki framkvæmdastjóra KA #pepsi16. Um miðjan febrúar þegar ljóst var að KA myndi fá Elfar Árna Aðalsteinsson til liðs við sig skrifaði hann "Mjög sáttur það er staðfest #pepsi16."
Fjölmiðlar smjöttuðu á #pepsi16
Það gerði bara illt fyrir liðið og önnur lið fengu hvatningu gegn KA liðinu. Þau gátu líka siglt undir radarnum ef svo má að orði komast og unnið í sínum markmiðum bakvið tjöldin á meðan vinsælustu fjölmiðlar landsins og twitter-heimurinn smjattaði á þessu. Ég tel til að mynda Þórsliðið og Þróttur hafi nýtt sér það vel en Víkingar voru alltaf líklegir og fengu til sín sterka menn bæði í vetur og í glugganum í sumar. Auk þess setti #pepsi16 enn meiri pressu á unga menn liðsins og þjálfarana. Það er ekkert að því að hafa markmið að fara upp úr 1. deildinni enda eflaust 4 til 6 lið ár hvert sem ætla sér upp. En að hlutgera það á þennan hátt var stórslys að mínu mati.
Það er líka glapræði hjá framkvæmdastjóra félags að gera það löngu fyrir mót, áður en öll kurl eru komin til grafar t.d. í leikmannamálum. Þetta hefði litið öðruvísi við ef t.d. stuðningsmaður hefði skellt þessu fram. Vonandi og líklega var þetta óhugsað hjá honum og allir geta að sjálfsögðu gert mistök, það þekki ég mæta vel eins og allir aðrir. Þessi yfirlýsing um að liðið stefni upp á að koma frá þjálfara eða fyrirliða liðsins en þá á allt annan hátt. Andlegi þátturinn er alltof stór í íþróttum og því verður að stíga varlega til jarðar í yfirlýsingum.
Hver fyrirsögnin á fætur annarri síðustu þrjár til fjórar umferðir hefur snúist um þetta myllumerki. Það segir meira en mörg orð. Það er alltaf hægt að vera vitur eftirá en þetta, nákvæmlega þetta sagði ég við menn tengda félaginu alveg um leið og framkvæmdastjórinn skellti þessu myllumerki fram og eflaust hafa margir aðrir sagt eða hugsað slíkt hið sama.
Meiri þátttakandi á hliðarlínunni í bikarnum
Með þessu er ég ekki að taka ábyrgð af þjálfaraliðinu sem mér þykir hafa brugðist og liðið í raun spilað sama óárangursríka fótboltann í ár eins og undanfarin sumur. Hvort það hafi verið til eitthvað leikskipulag eftir að liðið komst yfir í leikjunum, hvort leikmennirnir hafi ekki farið eftir því eða hvort það hafi einfaldlega verið þetta að falla til baka og hreinlega bíða eftir jöfnunarmarki verða aðrir að svara fyrir. Þá er það áhyggjuefni hvað þjálfararnir hafa ekki náð að motivera liðið fyrir leikina í deildinni því liðið sýndi það vel að það gat staðið í liðum í toppbaráttu í Pepsi deildinni í bikarnum eins og Fjölni, Val og Breiðablik. Það meira að segja oft án sterkra lykilmanna og ber þar helst að nefna Atla Svein Þórarinsson og Juraj Grizelj en það skal tekið fram að Davíð Rúnar Bjarnason hefur fyllt skarð Atla listavel. Getur það verið að hugsanlegt áhugaleysi aðalþjálfarans fyrir 1. deildinni hafi smitað útfrá sér? Svo virtist nefnilega sem þjálfarinn væri mun meira þátttakandi í bikarleikjunum gegn úrvalsdeildarliðunum á hliðarlínunni en í deildarleikjunum.
Í besta falli frábær útflutningsvara
Að lokum varðandi slæmar ákvarðanir í sumar held ég að ein þeirra hafi verið að taka Fannar Hafsteinsson markvörð útúr liðinu. Með hann innanborðs safnaði liðið 11 stigum í 6 leikjum en án hans í næstu 6 leikjum aðeins 8 stigum. Stigasöfnunin er þó ekki það sem bestu skiptir. Hann er ungur strákur sem þarf að gera mistök og hefur fengið alltof fá tækifæri til að þroskast sem leikmaður og verða í besta falli fyrir hann og félagið góð útflutningsvara en í versta falli frábær markvörður fyrir KA næstu 10 til 15 árin.
Þessar pillur hér fyrir ofan eru ekki skrifaðar til að vera með skítkast út í einn eða neinn heldur frekar benda á að ábyrgð fyrir lélegu gengi getur legið víða. Einnig svo sömu mistökin endurtaki sig ekki hjá KA liðinu og verði öðrum víti til varnaðar. Vona ég innilega að menn læri af mistökunum ef þeir geta viðurkennt það að vera sammála mér.
Ferðumst í Bítlabæinn næsta sumar
Ég vil endilega enda þetta á jákvæðu nótunum með því að benda á að barna- og unglingastarf félagsins er í miklum blóma og félaginu til sóma. Dæmi um það hefur sést hjá nokkrum ungum og efnilegum leikmönnum sem hafa fengið að spreyta sig í sumar. Einnig hefur stuðningssveit og umgjörðin í kringum leiki í sumar verið mjög góð. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að mæta á völlinn og styðja mitt félag. Raunar tel ég að þessi pistill sé til þess gerður að bæta félagið og verði til þess að allir geri upp sumarið innan félagsins. Lærum og njótum þess að ferðast í Bítlabæinn á næsta tímabili! Umfram allt höldum áfram góðu unglingastarfi og gefum þeim möguleika þegar kemur að meistaraflokki eins og gert hefur verið á þessu tímabili þó með einni stórri undantekningu.
Með KA kveðju,
Ólafur Már Þórisson stuðningsmaður KA
Athugasemdir