Óskar Smári Haraldsson var á dögunum ráðinn þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar eftir að hafa hætt með Fram nokkrum dögum áður.
Óskar Smári hafði náð stórkostlegum árangri með Fram síðustu árin en þegar hann tók við liðinu þá var það í 2. deild. Fram var núna að klára sitt fyrsta tímabil í Bestu deildinni og tókst að halda sér uppi.
Óskar Smári hafði náð stórkostlegum árangri með Fram síðustu árin en þegar hann tók við liðinu þá var það í 2. deild. Fram var núna að klára sitt fyrsta tímabil í Bestu deildinni og tókst að halda sér uppi.
„Útgefna ástæðan er sú að ég taldi ljóst að við myndum ekki fá þann stuðning sem ég taldi nauðsynlegan til að gera betur með liðið. Stuðningurinn sem liðið hefur fengið síðustu fjögur árin var til fyrirmyndar en ég sá breytingar framundan sem ég var ekki tilbúinn í og sá ekki fram á að liðið yrði samkeppnishæft í þokkabót, allavega ekki á þeim stað sem ég vildi fara með það," segir Óskar Smári við Fótbolta.net um aðdragann af því að hann hætti með Fram. Metnaður hans var ekki á sama stað og metnaður Fram.
„En það eru svo sem aðrar ástæður einnig sem verða til þess að ég segi starfi mínu lausu hjá Fram – ástæður sem ég ætla ekki að kafa neitt dýpra ofan í opinberlega."
Það stendur eiginlega allt upp úr
Hann segir að það hafi verið virkilega erfitt að kveðja verkefnið í Úlfarsárdalnum.
„Það var mjög erfitt. Það var mikil vinna lögð í hlutina og ég elskaði þetta verkefni. Ég kynntist miklum fjölda af frábæru fólki, leikmönnum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum sem ég mun sakna mikið," segir Óskar en hefur hann áhyggjur af framhaldinu hjá kvennaliði Fram? Meistaraflokksráð kvenna hætti einnig störfum eftir tímabilið.
„Fráfarandi meistaraflokksráð var gríðarlega öflugt og vann ótrúlegt starf, svo já, ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur af ákveðnum hlutum. Bæði þykir mér vænt um það sem við byggðum upp þarna síðustu fjögur ár en svo þykir mér líka sérstaklega vænt um leikmennina. Ég vona auðvitað að það gangi allt upp, og Fram gerir mjög vel í að ráða metnaðarfullan og góðan þjálfara í Antoni Inga. Það mun klárlega vera heillarskref fyrir félagið, hann á eftir að setja sinn svip á liðið og félagið og óska ég honum góðs gengis í Fram."
Hvernig horfirðu til baka á tímann með Fram? Eitthvað sem stendur upp úr?
„Akkúrat núna horfi ég smá sorgmæddur til baka, en ég er mjög stoltur af þessum fjórum árum og mun alltaf hugsa mjög hlýlega til þessa tíma. Ég lærði mikið og hef þroskast mjög sem þjálfari. Við þurftum að hafa rosalega mikið fyrir þeim árangri sem við náðum, bæði innan og utan vallar. Lentum í miklu mótlæti en sigruðumst ítrekað á því. Þetta hefur verið ævintýri og það stendur eiginlega allt upp úr, jákvætt og neikvætt."
Gerðist mjög hratt
Óskar tekur núna næsta skref á þjálfaraferlinum þar sem hann er orðinn þjálfari Stjörnunnar.
„Þetta gerðist mjög hratt eftir að ég sagði upp hjá Fram. Ég tók fund með Baldvin (Sturlusyni, framkvæmdastjóra Stjörnunnar) og hluta af stjórn Stjörnunnar og þar voru lagðar ákveðnar og góðar línur fyrir næstu ár. Það er plan sem ég heillaðist af og hlutirnir gengu mjög hratt og þægilega fyrir sig."
Óskar þekkir hvern krók og kima í Garðabænum þar sem hann þjálfaði yngri flokka félagsins frá árinu 2018 til ársins 2020 ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks.
„Ég er mjög spenntur. Stjarnan er með ríka og góða hefð, frábæra aðstöðu og góðan leikmannahóp. Hér eru efnilegir leikmenn sem hafa stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki og svo hefur yngri flokka starfið verið í fremsta flokki undanfarin ár. Margir mjög efnilegir leikmenn að koma upp sem þarf að blóðga og búa til rými og pláss fyrir. Það er ansi margt sem er heillandi og spennandi við það verkefni að vera meistaraflokks þjálfari Stjörnunnar, en mikil vinna er framundan sem mig hlakkar til að byrja vinna," segir Óskar Smári.
Stjarnan á að stefna hátt
Óskar fékk önnur símtöl eftir að hann hætti með Fram enda einn mest spennandi þjálfari landsins en það var verkefnið í Stjörnunni sem heillaði hann mest.
„Það komu einhver símtöl, já. Það er ekki sjálfgefið og var ég þakklátur þeim félögum sem höfðu samband og spurðust fyrir út í mig. En eftir seinni fundinn með Stjörnunni þá fannst mér þetta vera rétt skref fyrir sjálfan mig og afþakkaði ég fundi annars staðar sem höfðu verið skipulagðir," segir Óskar.
Stjarnan hafnaði í fjórða sæti á nýliðnu tímabili en síðustu ár hafa verið svolítið miðjumoð. Hvert ætlar Óskar að stefna með Stjörnunni?
„Það er kannski ekki gott að henda í stórar yfirlýsingar alveg strax. En það er alveg klárt mál að ég er kominn til þess að reyna koma Stjörnunni á hæsta mögulega stað. Stjarnan fyrir mér á að stefna hátt í framtíðinni og gera það á okkar forsendum."
Hef ekki verið í þeirri stöðu áður
Óskar segir að fyrstu dagarnir í endurkomunni til Stjörnunnar hafi verið góður. Núna sé mikil vinna framundan.
„Fyrstu skrefin hafa verið góð. Ég hef að vísu bara verið í tvo daga við vinnu en báðir dagarnir góðir. Ég hitti leikmenn á mánudag og sá fundur var góður. Ég settist niður með nokkrum leikmönnum og mun í kjölfarið halda áfram að gera það – en það tekur tíma að koma sér inn í hlutina og hingað til hefur þetta bara verið mjög gott. Ég er ánægður með þau viðbrögð sem ég hef fengið frá bæði leikmannahópnum og starfsfólki félagsins, en aftur, ég er bara rétt að byrja," segir Óskar.
„Það er ekki stefnt að neinni yfirhalningu en ég mun gera þær breytingar sem ég tel að þurfi til að liðið þróist áfram í rétta átt. Þetta er auðvitað allt öðruvísi verkefni en það sem ég var í hjá Fram. Stjarnan er með góðan grunn, öfluga yngri flokka og ríka hefð fyrir kvennafótbolta. Ég hef ekki verið í þeirri stöðu áður að í nóvember byrja ég með 22 leikmenn á æfingasvæðinu. Leikmannahópurinn er mjög jafn en hann er mjög góður og hlakkar mig mikið til að byrja vinna með stelpunum á æfingasvæðinu," sagði Óskar Smári að lokum.
Athugasemdir




