Van Dijk íhugaði Real - Anderson til í að fara til United - Sancho má fara frítt - Real ætlar að selja Vinicius
   mið 05. nóvember 2025 19:42
Elvar Geir Magnússon
Meistaradeildin: Garnacho bjargaði stigi fyrir Chelsea í Bakú
Garnacho jafnaði fyrir Chelsea í 2-2.
Garnacho jafnaði fyrir Chelsea í 2-2.
Mynd: EPA
Manor Solomon, leikmaður Villarreal, með boltann í leiknum í kvöld.
Manor Solomon, leikmaður Villarreal, með boltann í leiknum í kvöld.
Mynd: EPA
Qarabag og Chelsea eru bæði með sjö stig eftir fjórar umferðir í Meistaradeildinni en liðin skildu jöfn 2-2 í Bakú í kvöld. Chelsea gerði sjö breytingar á byrjunarliði sínu frá sigrinum gegn Tottenham og einhverjir setja spurningamerki við þá ákvörðun.

Brasilíski táningurinn Estevao Willian skoraði fyrsta markið í leiknum og kom Chelsea yfir. Draumabyrjun Lundúnaliðsins var þó fljót að breytast í martröð. Leandro Andrade jafnaði fyrir heimamenn eftir mistök og einbeitingarskort hollenska varnarmannsins Jorrel Hato.

Qarabag komst svo yfir þegar dæmd var hendi og víti á Hato, sem var heldur betur í brasi, og Marko Jankovic skoraði af öryggi úr vítinu.

Enzo Maresca, stjóra Chelsea, var ekki hlátur í huga en hann hafði ákveðið fyrir leikinn að hvíla menn og gerði margar breytingar á byrjunarliðinu. Í hálfleik, 2-1 undir, gerði hann þrefalda skiptingu.

Einn af varamönnunum, Alejandro Garnacho, jafnaði með laglegu skoti eftir mistök í vörn Qarabag. Chelsea náði ekki að fylgja þessu marki eftir til að finna sigurmark en Garnacho gerði sig líklegan í uppbótartíma en skot hans var varið. Stuttu áður fengu heimamenn dauðafæri sem ekki nýttist. Qarabag er heldur betur að gera flotta hluti í deild þeirra bestu.

Á sama tíma vann Pafos frá Kýpur sinn fyrsta Meistaradeildarsigur þegar það vann spænska liðið Villarreal. Hollenski varnarmaðurinn Derrick Luckassen skoraði eina mark leiksins eftir hornspyrnu. Pafos er komið með fimm stig en Villarreal er í erfiðri stöðu með aðeins eitt stig.

Qarabag 2 - 2 Chelsea
0-1 Estevao ('16 )
1-1 Leandro Andrade ('29 )
2-1 Marko Jankovic ('39 , víti)
2-2 Alejandro Garnacho ('53 )

Pafos FC 1 - 0 Villarreal
1-0 Derrick Luckassen ('47 )
Athugasemdir
banner
banner