Arne Slot er í heitu sæti hjá Liverpool um þessar mundir. Eftir að hafa stýrt liðinu til Englandsmeistaratitils á síðasta tímabili þá hefur lítið gengið upp á þessari leiktíð.
Eftir jafntefli gegn Sunderland á heimavelli situr Liverpool í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Eftir jafntefli gegn Sunderland á heimavelli situr Liverpool í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Magnús Haukur Harðarson var spurður að því í síðasta þætti af Enski boltinn hvern hann væri til í að sjá taka við af Slot ef Hollendingurinn verður látinn fara eins og margir stuðningsmenn Liverpool hafa kallað eftir á undanförnum vikum.
„Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af Julian Nagelsmann og hans hugmyndafræði. Hann fór í költið hjá Bayern München og hann fékk ekki tíma þar. Það sem hann gerði hjá Leipzig og annað, ég er mjög hrifinn af því," sagði Magnús Haukur.
Nagelsmann er í dag þjálfari þýska landsliðsins og það er líklega erfitt að fá hann núna þar sem HM fer fram næsta sumar. Efstur hjá veðbönkum núna er Jurgen Klopp sem stýrði Liverpool í mikinn fjölda ára áður en hann hætti fyrir síðustu leiktíð. Maggi telur að það muni aldrei gerast en næstir á eftir Klopp eru Andoni Iraola, stjóri Bournemouth, og Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace.
„Ég myndi hafa Nagelsmann númer eitt. Ég ætla ekki að segja Klopp því ég hef engan áhuga á að fá hann til baka," sagði Maggi en oftar en ekki hafa slíkar endurkomur endað illa.
„Ég hugsaði um Gerrard, að fá hann til að blása einhverju lífi í þetta. Ekki til frambúðar. Það var meira í kyndingunni. Svo eru það Glasner og Iraola. Það er ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni sem er með meiri ákefð í sinni pressu heldur en Bournemouth. Það er eitthvað sem vantar í Liverpool, meiri orka. Ég myndi setja Glasner og Iraola tvö og þrjú saman."
Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni hér fyrir neðan.
Athugasemdir





