Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Upplifir drauminn þrítug - „Hefði ekki viljað missa af því að vera partur af þessu frábæra liði"
Kvenaboltinn
'Það var ólýsanleg tilfinning þegar við unnum titilinn 2024'
'Það var ólýsanleg tilfinning þegar við unnum titilinn 2024'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Markmiðið hjá liðinu 2025 var að vinna tvöfalt og gekk það eftir'
'Markmiðið hjá liðinu 2025 var að vinna tvöfalt og gekk það eftir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í úrvalslið Bestu deildarinnar 2024 og á bekknum í liði ársins 2025.
Var í úrvalslið Bestu deildarinnar 2024 og á bekknum í liði ársins 2025.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta hafa verið ótrúleg tvö ár hjá Breiðabliki'
'Þetta hafa verið ótrúleg tvö ár hjá Breiðabliki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það var erfitt að kveðja Breiðablik'
'Það var erfitt að kveðja Breiðablik'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mér finnst ég eiga helling inni'
'Mér finnst ég eiga helling inni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta hafa verið ótrúleg tvö ár hjá Breiðabliki og ég hefði ekki viljað missa af því að vera partur af þessu frábæra liði'
'Þetta hafa verið ótrúleg tvö ár hjá Breiðabliki og ég hefði ekki viljað missa af því að vera partur af þessu frábæra liði'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiða Ragney Viðarsdóttir gekk í upphafi síðasta mánaðar í raðir sænska félagsins Eskilstuna. Hún kemur frá Íslands- og bikarmeisturum Breiðabliks.

Hún er þrítugur varnarsinnaður miðjumaður sem kom til Breiðabliks frá Stjörnunni fyrir tímabilið 2024 og varð Íslandsmeistari bæði tímabilin. Hún hefur einnig spilað með Þór/KA og í bandaríska háskólaboltanum á sínum ferli. Heiða Ragney ræddi við Fótbolta.net.

„Mér líður vel með að vera orðin leikmaður Eskilstuna. Ég er mjög spennt fyrir þessu tækifæri og prófa aðra deild," segir Heiða Ragney. Hún býr yfir mikilli reylslu, á að baki 261 KSÍ leik. Fyrsta tímabil hennar í meistaraflokki var árið 2011 hjá Þór/KA.

Leist vel á tilboðið og verkefnið
Hvernig kom þetta til, var langur aðdragandi?

„Þetta var ekki langur aðdragandi og vildi Eskilstuna fá svar frá mér sem fyrst. Það voru aðrir möguleikar í stöðunni en mér leist vel á þetta tilboð og verkefnið sem er framundan hjá Eskilstuna."

„Ég var í samningsviðræðum við Breiðablik og hefði líklega framlengt ef ég hefði verið áfram á Íslandi. Það er mjög góður hópur hjá Breiðabliki og auðvitað spennandi verkefni áfram í Evrópukeppninni."


Draumur sem fékk nýlega meira pláss
Að spila erlendis, hefur það verið draumur lengi?

„Já, ég myndi segja að það hafi verið draumur lengi að spila erlendis en ég fór ekki almennilega að hugsa um það fyrr en eftir tímabilin mín hjá Stjörnunni. Það höfðu áður komið upp tækifæri en mér þótti þau ekki nógu góð eða konkrít til að stökkva á þau. Ég er hinsvegar mjög glöð með hvernig hlutirnir atvikuðust, þetta hafa verið ótrúleg tvö ár hjá Breiðabliki og ég hefði ekki viljað missa af því að vera partur af þessu frábæra liði."

Tækifæri til að verða betri sem atvinnumaður
Eskilstuna vann B-deildina á liðnu tímabili og fór upp í úrvalsdeildina? Hvert er markmið liðsins og hvert er markmið þitt hjá félaginu?

„Markmiðið hjá félaginu er að vera samkeppnishæft í Damallsvenskan og enda um miðja deild, ekki bara að halda sér uppi eins og mörg lið sem koma upp um deild reyna að gera. Liðið á sér sögu af góðu gengi í efstu deild og vilja þau koma sér aftur á þann stall. Þegar liðið féll var það að fjárhagslegum örðugleikum en það tengdist ekki lélegu gengi liðsins í deildinni."

„Ég gerði tveggja ára samning við félagið og vonast ég til þess að bæta mig sem leikmaður og hjálpa liðinu að þroskast. Mér finnst ég eiga helling inni og vona ég að geta einbeitt mér bara að spilað fótbolta gefi mér það rými til að bæta mig frekar."


Veit hvað þjálfarinn vill
Ræddir þú við einhvern áður en þú tókst ákvörðunina?

„Ég ræddi ekki við neinn um ákvörðun mína að fara nema umboðsmanninn minn. Ég veit að það hafa nokkrir íslenskir leikmenn spilað undir þessum þjálfara (Rickard Johansson). Ég hef góða tilfinningu fyrir honum, hvernig hann þjálfar og veit hvað hann vill frá mér svo ég lét það duga."

Þrír titlar á tveimur árum
Er erfitt að fara frá Breiðabliki?

„Það var erfitt að kveðja Breiðablik, mér leið vel þar, ég var í frábærum hóp og það skemmdi svo auðvitað ekki fyrir að hafa gengið svona vel."

„Það var það rétta í stöðunni á sínum tíma að fara yfir í Breiðablik og fékk ég það uppfyllt sem ég var að leita eftir, að vinna titla. Það var ólýsanleg tilfinning þegar við unnum titilinn 2024, var ævintýralegt tímabil og dramatískur endir með úrslitaleik. Markmiðið hjá liðinu 2025 var að vinna tvöfalt og gekk það eftir. Við vorum með stóran hóp og náðum að rótera liðinu mikið. Mér fannst bikarúrslitaleikurinn helst standa upp úr og auðvitað eru Evrópuleikirnir alltaf skemmtilegir."


Þvílíkt ævintýri og skemmtilegur endir á frábæru tímabili
Breiðablik kom til baka gegn Fortuna Hjörring í lokaleik ársins 2025. Blikar voru 0-3 undir í einvíginu en náðu að snúa leiknum sér í vil og tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Evrópubikarsins með sigrinum.

Var fullkominn endir á tímanum í Breiðabliki að klára þetta á endurkomusigrinum í Danmörku?

„Leikurinn úti í Danmörku var tvískiptur, við vorum slakar í fyrri hálfleik en seinni hálfleikur var allt annar. Við tókum algjörlega yfir leikinn og náðum á einhvern ótrúlegan hátt að jafna leikinn eftir að lenda 3-0 undir."

„Það hugsuðu allir með sér „ó nei“ þegar Sammy hitti boltann illa í aukaspyrnunni (á lokamínútu leiksins) en heppilega fyrir okkur fór boltinn í leikmann Hjörring sem speglaði boltann inn. Dómarinn flautaði strax inn í framlenginguna eftir markið og ég held að það hafi allir hugsað með sér að nú myndum við taka þennan leik. Það var stórkostlegt þegar Edith skoraði sigurmarkið og þá var bara að halda út til loka flauts leiksins."

„Þetta var þvílíkt ævintýri og skemmtilegur endir á frábæru tímabili,"
segir Heiða Ragney sem er mætt út til Svíþjóðar.
Athugasemdir
banner