Man City horfir til Gyökeres - Xavi vill taka Raphinha með sér - Man Utd gæti lánað Antony
banner
   fim 24. október 2024 12:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mikill léttir og innri pressa hvarf - „Ennþá ljúfara að horfa til baka núna"
Icelandair
Heiða Ragney með Íslandsmeistaraskjöldinn. 'Fann rosalega mikið að þetta var það sem mig langaði'
Heiða Ragney með Íslandsmeistaraskjöldinn. 'Fann rosalega mikið að þetta var það sem mig langaði'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiða í baráttunni í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.
Heiða í baráttunni í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var nálægt títlinum 2022 þegar Stjarnan tefldi fram mjög öflugu liði.
Var nálægt títlinum 2022 þegar Stjarnan tefldi fram mjög öflugu liði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarinn vóg þungt í ákvörðun Heiðu síðasta vetur.
Þjálfarinn vóg þungt í ákvörðun Heiðu síðasta vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Núna þarf ég að finna mér markmið, hvað ég stefni á næst.'
'Núna þarf ég að finna mér markmið, hvað ég stefni á næst.'
Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson
Heiða Ragney Viðarsdóttir tók ákvörðun síðasta vetur að semja við Breiðablik eftir þrjú tímabil með Stjörnunni. Hún er uppalin hjá Þór/KA en söðlaði um eftir tímabilið 2020 og hélt suður. Heiða Ragney er 29 ára djúpur miðjumaður sem steig sín fyrstu skref í meistaraflokki tímabilið 2011.

Hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í byrjun mánaðar og fékk fyrir síðustu helgi kallið frá landsliðsþjálfaranum og hélt með í landsliðsverkefnið sem nú er í gangi í Bandaríkjunum. Heiða ræddi við Fótbolta.net á þriðjudagskvöldið um sumarið og ákvörðunina að fara í Breiðablik síðasta vetur.

„Það er ennþá ljúfara núna til baka og í þessa ákvörðun síðasta vetur. Ég var einmitt að ræða þetta við Sædísi áðan, við vorum saman í Stjörnunni og fórum á svipuðum tíma í burtu. Þetta var ógeðslega erfitt og ég átti mjög erfitt með að taka þessa ákvörðun. Það var alveg erfitt að aðlagast síðasta vetur, miklu erfiðari æfingar og því ógeðslega sætt að uppskera í enda tímabils. Líka ógeðslega gaman að spila með öðrum leikmönnum, hrikalega góðum leikmönnum. Það var ótrúlega skemmtilegt að spila. Þegar maður endar með Íslandsmeistaratitilinn þá getur maður ekki sagt annað en að þetta hafi verið annað en góð ákvörðun að breyta til," sagði Heiða Ragney. Hún og Sædís Rún Heiðarsdóttir, sem fór til Vålerenga í Noregi og varð þar meistari, eru saman í Texas með landsliðinu. Heiða er samningsbundin Breiðabliki út næsta tímabil.

„Ég verð allavega áfram á næsta ári og svo sjáum við hvað gerist."

Væri gaman að geta sett alla einbeitingu á fótboltann
Er eitthvað á bakvið eyrað að reyna komast út í atvinnumennsku?

„Það væri auðvitað gaman, alltaf gaman að búa einhvers staðar annars staðar. Það væri líka gaman að spila bara fótbolta, ég hef alltaf annað hvort verið í skóla eða að vinna með boltanum. Það væri mjög gaman að geta bara einbeitt sér að fótboltanum. En ég ætla núna bara að einbeita mér að þessu landsliðsverkefni, fer svo að æfa og horfi á næsta tímabil eins og staðan er núna. Augun eru á Meistaradeildinni, að komast lengra þar, ég horfi mest á það akkúrat núna."

Endalaust af sóknarmönnum sem geta skorað
Hver var mesti munurinn á Breiðabliksliðinu 2024 og Stjörnuliðinu sem var nálægt því að vinna titilinn 2022?

„Það er allt annað leikkerfi og Breiðabliksliðið mjög agressíft fram á við, meiri kraftur. Stjarnan var meira í fínu litlu spili á sínum tíma og svo 2023 vorum við ekki með framherja sem hafði áhrif á hversu mikið liðið skoraði. Við skoruðum nóg í sumar, endalaust af sóknarmönnum sem geta skorað. Stjórnin á leikjum hefur verið það mikil að ég hef ekki varist jafn mikið og ég hef gert í gegnum tíðina."

Skipti ótrúlega miklu máli og léttirinn mikill
Heiða Ragney var í áratug í kringum Þór/KA og gerði fréttaritari einfaldlega ráð fyrir því að hún hefði áður unnið Íslandsmeistaratitilinn. Það reyndist ekki rétt. Heiða var fjarri góðu gamni allt tímabilið 2012 og var í Bandarísku WPSL deildinni tímabilið 2017.

Hún varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti þann 5. október þegar Breiðablik náði jafntefli gegn Val í lokaumferð Bestu deildarinnar, úrslit sem nægðu Blikum í úrslitaleiknum.

„Ég var að vinna þetta í fyrsta sinn og það var þvílík gleði í hjarta."

Varstu farin að hugsa hvort það væru kannski þín örlög að verða aldrei hluti af Íslandsmeistaraliði á ferlinum?

„Ég fann það svo mikið þegar ég var að ákveða mín næstu skref síðasta vetur hvað þetta skipti mig ótrúlega miklu máli. Ég er orðin eldri og það að verða Íslandsmeistari áður en ég hætti skipti mig ógeðslega miklu máli. Ég fann fyrir svo miklum létti þegar við unnum, pressan innra með mér losnaði og tilfinningin eins og það væri núna bara gaman framundan, fann rosalega mikið að þetta var það sem mig langaði. Núna þarf ég að finna mér markmið, hvað ég stefni á næst."

Hentaði báðum aðilum ótrúlega vel
Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, vill spila með tígulmiðju og Heiða Ragney er varnarsinnaður miðjumaður í því kerfi.

„Ég er ótrúlega ánægð undir hans stjórn og hann var stór ástæða fyrir því að ég fór yfir. Ég hafði trú á honum sem þjálfara, sá hvað hann gerði með Þrótti og ég hafði trú á að hann gæti bætt minn leik. Hann vantaði leikmann eins og mig í þetta leikkerfi, þannig ég held þetta hafi hentað alveg ótrúlega vel fyrir báða aðila. Ég er ótrúlega ánægð með hann og þjálfarateymið allt; Nik, Eddu, Óla og Sævar - öll frábær og búin að búa til góða stemningu í liðinu," sagði Heiða Ragney.

Fyrri landsleikur Íslands og Bandaríkjanna fer fram í kvöld, leikurinn verður flautaður á 23:30 og verður í textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner