Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 06. júní 2022 21:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kári vill að Andri sé númer eitt - „Færð þetta ekki frá Alberti"
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas Guðjohnsen spilaði allan leikinn þegar Ísland gerði jafntefli gegn Albaníu í Þjóðadeildinni í kvöld.

Lestu um leikinn: Ísland 1 -  1 Albanía

Andri, sem er tvítugur, kom sterkur inn í landsliðið á síðasta ári og er búinn að skora tvö mörk í sex A-landsleikjum.

Hann hefur samt sem áður lítið sem ekkert spilað með félagsliði sínu. síðustu mánuði. Andri er á mála hjá spænska stórveldinu Real Madrid og er þar í varaliðinu. Hann spilaði alls tæpar 550 mínútur á nýafstöðnu tímabili í spænsku C-deildinni og byrjaði aðeins fjóra leiki.

Leikurinn í kvöld var fyrsti fótboltaleikurinn sem hann byrjar í meira en hálft ár.

Á meðan situr Albert Guðmundsson, leikmaður sem skoraði gegn Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni á dögunum, á varamannabekknum allan tímann. Rætt var um þetta á Viaplay eftir leik.

„Andri Lucas spilaði gríðarlega vel í dag og er búinn að bæta sig mjög mikið frá því ég sá hann síðast," sagði Rúrik Gíslason, fyrrum landsliðsmaður, þegar farið var yfir markið sem Ísland skoraði í leiknum en Andri Lucas gerði vel í aðdraganda þess.

„Gæðin í Andra Lucasi eru brjálaðslega mikil. Það sem hann hefur líka er þetta harðfylgi og þessi barátta sem allir leikmenn íslenska landsliðsins verða að hafa."

Kári Árnason, annar fyrrum landsliðsmaður, er mjög hrifinn af þessum efnilega sóknarmanni. Hann segir hann hafa eiginleika sem Albert hefur ekki.

„Þú færð þetta ekki frá Alberti. Það kemur hár bolti upp á topp, hvernig heldurðu að þetta hefði endað? Gaurinn hefði bara neglt honum í burtu. Andri er að djöflast í þeim og er með skrokk í það. Hann er einn frammi og það er ekki úr miklu að moða. Þú færð svona augnablik sem þú verður að taka."

„Ég geri tilkall til þess að Andri Lucas sé framherji númer eitt héðan í frá," sagði Kári sem var í landsliðinu með bæði Alberti og Andra í fyrra.

„Ég er ekki að setja út á Albert sem fótboltamann. Það vita allir að hann er með gæði og gríðarlega hæfileika, en hann passar ekki inn í þetta. Þú sérð hvernig kantmennirnir eru að djöflast allan leikinn... þeir eru tilbúnir að leggja allt á línuna og ég er ekki viss um að Albert væri í sama gír ef honum hent út á kant."

Rúrik segir að Albert megi ekki fara í fýlu. „Arnar (Þór Viðarsson) er stjórinn og tekur ákvarðanirnar. Þú verður að virða þær. Það þýðir ekki að fara í fýlu, þú verður bara að gefa meira í," sagði Rúrik.
Athugasemdir
banner