Aston Villa og Manchester United unnu verðskuldaða sigra í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Villa lagði Englandsmeistara Man City að velli, 1-0, á meðan United vann 2-1 sigur á Chelsea á Old Trafford.
Man Utd fékk vítaspyrnu strax á 8. mínútu gegn Chelsea er Enzo Fernandez traðkaði á Antony í teignum.
Vítaspyrna Bruno Fernandes var hins vegar arfaslök og var Robert Sanchez í engum vandræðum með að verja hana. Þetta var í fyrsta sinn síðan 2021 þar sem markvörður Chelsea ver vítaspyrnu í úrvalsdeildinni.
Tíu mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins. Alejandro Garnacho fékk boltann vinstra megin í teignum, lagði hann út á Harry Maguire en Marc Cucurella komst fyrir skot hans. Boltinn datt út á Scott McTominay sem setti boltann af öryggi í hægra hornið.
Mykhailo Mudryk átti nokkrum mínútum áður skot í stöng fyrir gestina.
Eftir rúman hálftíma fór Chelsea aðeins að bíta frá sér. Liðið átti nokkra fína sénsa áður en Cole Palmer jafnaði metin með góðu skoti í hægra hornið. Það mátt setja spurningarmerki við bæði Victor Lindelöf og André Onana í markinu.
United var betra liðið í leiknum og sá til þess að það tæki öll stigin í dag. McTominay var hetja liðsins, en hann gerði sigurmarkið á 69. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Garnacho.
Man Utd kastaði næstum frá sér sigrinum undir lok leiks er Harry Maguire tapaði boltanum. Reece James kom með fyrirgjöfina á Armando Broja, en skalli hans í tréverkið. Man Utd stálheppið og líklega létt þegar leikurinn var loks flautaður af.
Man Utd er núna í 6. sæti deildarinnar með 27 stig aðeins þremur stigum frá 4. sætinu. Chelsea er á meðan í 10. sæti með 19 stig.
Magnaður sigur Villa á Man City
Aston Villa vann stórkostlegan 1-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester City á Villa Park.
Það er alveg óhætt að segja að sigurinn var verðskuldaður. Lærisveinar Unai Emery voru með öll tök á leiknum.
Það sást strax í byrjun hvað Villa ætlaði sér. Liðið sótti án afláts og skapaði sér hvert færið á fætur öðru, en það vantaði bara að binda endahnút á sóknirnar.
Allir stóðu sína vakt. Emiliano Martínez varði frá Erling Braut Haaland í tvígang.
Einnig má hrósa Ederson í marki Man CIty, sem hélt gestunum inn í leiknum með mögnuðum vörslum.
Villa-menn fengu það sem þeir verðskulduðu. Leon Bailey skoraði sigurmarkið rúmum fimmtán mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma er hann keyrði upp völlinn áður en hann tók skotið við D-bogann, af Ruben Dias og yfir Ederson í markinu.
Flest lið væru ánægð með 1-0 forystu gegn sterkasta liði heims en það var Villa ekki. Heimamenn héldu áfram að sækja og leita að fleiri mörkum. Douglas Luiz komst næst því að gera annað markið en skot hans hafnaði í stöng.
Engu að síður góður 1-0 sigur Villa á Englandsmeisturunum. Villa fer upp fyrir Man CIty á töflunni og er nú í 3. sæti með 32 stig en Man City í 4. sæti með 30 stig. Man CIty hefur ekki unnið í síðustu fjórum deildarleikjum sínum á tímabilinu á meðan Villa hefur unnið þrjá af síðustu fjórum.
Manchester Utd 2 - 1 Chelsea
0-0 Bruno Fernandes ('9 , Misnotað víti)
1-0 Scott McTominay ('19 )
1-1 Cole Palmer ('45 )
2-1 Scott McTominay ('69 )
Aston Villa 1 - 0 Manchester City
1-0 Leon Bailey ('74 )
Athugasemdir