Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var á skotskónum með Lille er liðið vann 3-1 sigur á Brest í frönsku deildinni í kvöld, en þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur eftir beinbrot.
Hákon Arnar braut bein í fæti snemma tímabils og missti af tæpum þremur mánuðum en hann sneri aftur á völlinn í lok nóvember.
Hann hefur verið að fá mínútur inn af bekknum í síðustu leikjum og fékk loks tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld er liðið tók á móti Brest.
Jonathan David kom Lille yfir úr vítaspyrnu og lagði síðan upp annað markið fyrir Hákon Arnar á 44. mínútu. David hljóp inn í teiginn hægra megin, fann Hákon sem stýrði boltanum í netið af stuttu færi. Fyrsta mark hans á tímabilinu.
Sjáðu markið hér
Hákon fór af velli á 62. mínútu, þá í stöðunni 2-1, en David gerði út um leikinn með öðru marki sínu aðeins sjö mínútum síðar. Lille er í 3. sæti með 26 stig, átta stigum frá toppnum.
Athugasemdir